Sumar setningar hafa orðið mér minnisstæðari en aðrar á lífsleiðinni. Hér eru nokkur dæmi, sem snerta umfjöllunarefni mitt í dag. „Sjúklingurinn í öndvegi“ var yfirskrift aðalfundar Landspítala í ár. „Hlustaðu á sjúklinginn. Hann segir þér, hvað sé að sér.“ „Líkaminn er þín undirvitund.“ „Fólk í fyrirrúmi.“
Hvert og eitt okkar er hluti af þessu meistarastykki, sköpunarverkinu. Innbyggð skynjun sér til þess, að sérhver fruma mannslíkamans veit nákvæmlega, til hvers er ætlast af henni. Eftirlitskerfið annast jafnvægið. Umhverfið ræður mestu um, hvernig til tekst.
Þegar langvinnir sjúkdómar þróast innra með okkur, framkallar undirvitundin ýmist líkamleg eða andleg einkenni,. Oftar en ekki orsakast ójafnvægið, einkennin og síðar sjúkdómarnir af fjölmörgum samverkandi þáttum. Stundum leita einstaklingar sér aðstoðar og fá lyf til þess að draga úr einkennum. Oft beita aðilar heildrænum aðferðum, grandskoða málin, hlusta, beita gagnrýnni hugsun og visku svo að þeim áskotnist sú yfirsýn, sem nauðsynleg reynist til langtíma bata.
Fyrir skömmu öðlaðist ég nýja sýn á orðið samviska. Áður fyrr var orðið í mínum huga eitthvað neikvætt, plagandi sársauki, ef eitthvað var gert, sem stríddi gegn betri vitund. Ég gerði mér grein fyrir því, að orðið gat líka þýtt sameiginleg viska.
Þjóðarlíkaminn hefur þjáðst undanfarin ár. Í upphafi fengu ráðamenn ítarlega skýrslu um sjúklegt ástand líkamans og hvernig mætti lina og lækna ástandið. Auk þess hittist stór hópur einstaklinga víðs vegar úr samfélaginu og kom sér saman um leiðbeiningar, leiðarljós til heilbrigðis þjóðarlíkamans til framtíðar.
Þrátt fyrir fögur loforð hlusta ráðamenn ekki á sjúklinginn. Vilji þjóðarinnar er vanvirtur. Hvorki hægri né vinstri stjórnum hefur tekist að uppræta spillingu. Telja ráðamenn þjóðarinnar sig bera ábyrgð á ástandi þjóðarlíkama og sálar? Skortur er á lausnamiðuðum aðgerðum í mikilvægustu málaflokkum. Umræðan fjallar meira um vandamál í stað lausna. Fjármálageirinn safnar enn frekari auði, á meðan óréttlæti ríkir meðal almennings. Þjóðarsálin kallar á samstöðu og samvinnu.
Hvaða aðferðafræði hefur líkami og sál íslensku þjóðarinnar notað til þess að höfða til hinnar sameiginlegu visku ráðamanna? Ég nefni hér nokkur dæmi: myndun nýrra stjórnmálaflokka, félagasamtök látið til sín taka, veraldarvefurinn með greinar, blogg og Fésbókina, efnt hefur verið til hópfunda og mótmælaaðgerða.
Svo virðist sem aðferðirnar hafi ekki dugað fram að þessu til þess að knýja fram altækar breytingar á okkar innra manni og samfélaginu. Rotin innri sem ytri kerfi hafa hindrað nauðsynlegar breytingar; ýmsir lestir og breyskleiki svo sem spilling, græðgi og óheiðarleiki, breytni gegn betri vitund, heimska, vonleysi, eigin hagsmunir umfram hag fjöldans, skortur á ábyrgð og gagnrýnni hugsun, áróður fjármálaafla og fjölmiðla, kreddur, innræting og þrýstihópar.
Nú þegar líður að kosningum, duga hvorki plástrar né sárabætur fyrir svikin loforð. Vitund þjóðarinnar, hennar líkami og sál, kallar til ykkar, þeirra, sem gefa kost á sér í leiðtogahlutverk hinna ýmsu flokka. Þjóðarlíkaminn er sárþjáður, einkennin eru óeining, bituryrði, ótti og reiði.
Skrif mín í dag eru ákall til ykkar, sem vilja leiða, lækna og líkna þjáðri sál og langveikum líkama þjóðar. Setjist nú fljótlega niður saman í hóp eina helgi fyrir kosningar. Leggið flokkadrætti og titlatog til hliðar, gefið egóinu og sundurlyndisfjandanum frí. Látið ekki samviskubitið plaga ykkur. Beitið sameiginlegri visku, þekkingu og reynslu.
Gerið með ykkur málefnasamning, sáttmála um lækningu meina okkar sem þjóðar. Náttúran, öryrkjar, sjúkir og aldraðir gráta. Opnið hjörtu ykkar. Sýnið samkennd. Þegar þið takið þessari áskorun, mun þjóðarsálin sýna þakklæti sitt með aukinni virðingu fyrir ykkur og væntanlegum vinnustað ykkar, Alþingi. Hlustið. Ykkur hefur þegar verið sagt, hvað hrjáir þjóðarlíkama og sál. Gefið þjóðinni von um bata. Hún vill hvorki óöryggi né ótta. Hún vill gjarnan treysta ykkur.
Fylgið fordæmi Landspítala og setjið sjúklinginn í öndvegi.