Spurningin um hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið hefur verið eitt helsta bitbein íslenskra stjórnmála um árabil, en þrátt fyrir það hefur umræðan um aðild að ESB og afleiðingar hennar aldrei rist neitt rosalega djúpt. Hún hefur reyndar ekki rist mikið dýpra en svo að tvær fylkingar hrópi á hvor aðra, þar sem önnur öskrar já og hin æpir nei.
Andstæðingar Evrópusambandsins á Íslandi, sem og annars staðar í Evrópu, eru gjarnir á að nota mýtur sem eiga oft litla eða enga stoð í raunveruleikanum til stuðnings sínu máli. Mýtan um að Evrópusambandið hafi bannað bogna banana er sennilega mín uppáhalds. Hafi maður komið inn í matvöruverslun í Evrópu á maður að vita að það er lítið til í því. Það var vissulega sett reglugerð sem er hluti af neytendaverndarlögum Evrópusambandsins sem kveður m.a. á um að bananar eigi að vera lausir við hvers konar „alvarlegar afmyndanir“, þvílík illska sem það nú er.
Önnur mýta sem er gjarnan slengt fram er sú að Evrópusambandinu sé stjórnað af ókjörnum bjúrókrötum í Brussel. Þetta er einfaldlega rangt. Í fyrsta lagi er æðsta vald Evrópusambandsins, Evrópuráðið, kosið af Evrópuþinginu og Evrópuþingið af íbúum sambandsins. Alls ekki ósvipað og myndun ríkisstjórnar hér heima. Í öðru lagi þá eru aðeins rétt í kringum 50.000 manns sem vinna fyrir Evrópusambandið, ef við berum saman umfang og höfðatölu er það svipað og að sirka 11 manns væru að vinna hjá Reykjavíkurborg.
„Það sjá nú allir hvers konar ástand er þar“
Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa um árabil fabúlerað eins og enginn sé morgundagurinn um að ef Ísland gangi í ESB fari íslenskur landbúnaður á hausinn. Þetta er einfaldlega rangt. Aðgengi að almennum landbúnaðarstyrkjum Evrópusambandsins og sérstökum styrkjum fyrir norðlægan landbúnað, ásamt tollfrjálsum viðskiptum við löndin á meginlandi Evrópu gera það að verkum að Evrópusambandsaðild kæmi fáum stéttum jafn vel og bændastéttinni. Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, benti á þetta á dögunum í óundirbúinni fyrirspurn til landbúnaðarráðherra. Ráðherrann vék sér undan þeirri umræðu með því að svara þannig að „Það sjá nú allir hvers konar ástand er þar, þannig að við erum fljót að afgreiða það allt saman.“ Ég ætla að gerast svo djarfur að ganga út frá því að þetta „ástand“ sem Gunnar Bragi talar um sé eftirköst þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi og efnahagsvandræði Grikklands. Ræðum þetta „ástand“ endilega aðeins.
Vissulega var niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi högg fyrir Evrópusambandið. Það var samt ekki alveg jafn mikið högg og andstæðingar ESB vilja margir meina. Á heildina litið var niðurstaðan nokkuð tæp, 52% vildu út og 48% vildu vera áfram inni. Það sem virðist hafa gert gæfumuninn var grímulaus rasistaáróður breska Sjálfstæðisflokksins og popúlísk loforð þeirra sem börðust fyrir útgöngu, sem sýndu það svo í kjölfarið að þeir ætluðu aldrei að standa við þau. Skotar og N-Írar létu hins vegar ekki gabba sig og kusu afgerandi með áframhaldandi aðild. Það hvað Skotar og Írar eru ánægðir innan ESB ætti að senda skýr skilaboð til okkar á Íslandi, enda þau lönd, utan Norðurlandanna, sem við eigum hvað mest sameiginlegt með.
Hvað Grikkland varðar þá eru andstæðingar Evrópusambandsins ansi duglegir að kenna því um vandræði Grikklands og benda gjarna á efnahagsvandræðin þar sem rökstuðning fyrir þeim fullyrðingum að Evran sé í besta falli misheppnaður gjaldmiðill og í versta falli rót alls ills. Það er sáralítið til í þessu. Ef við horfum á lönd eins og Írland, Portúgal og Kýpur, sem komu álíka illa út úr hruninu og Grikkland, sjáum við að þau hafa öll náð nokkuð góðum bata á síðustu árum. Það má vel vera að Evran hjálpi ekki Grikkjum í þeirra vandræðum. Hún er hins vegar langt frá því að vera rót vandans og er sömuleiðis ekki það sem kemur í veg fyrir lausn hans. Rót vandans í Grikklandi er fyrst og fremst slæm hagstjórn í aðdraganda hrunsins. Ástæðurnar fyrir því að illa gengur að leysa vandann eru svo í aðalatriðum slæm hagstjórn í kjölfar hrunsins í bland við gífurlegan trega til þess að ráðast í mjög þarfar kerfisbreytingar.
Niðurstaðan er sú að vegna lýðskrums í Bretlandi mega íslenskir bændur ekki stunda tollfrjáls viðskipti við Finnland eða Búlgaríu og vegna efnahagsvanda í Grikklandi mega þeir ekki fá aðgang að styrkjakerfi Evrópusambandsins. Það virðist í það minnsta skoðun landbúnaðarráðherra.
Af hverju Evrópusambandið?
Í fyrirsjáanlegri framtíð verður þróunin sú að þungamiðja alþjóðasamskipta og viðskipta mun færast sífellt hraðar úr Norður-Atlantshafi og yfir í Kyrrahafið. Raunin er því sú að innan 20 ára mun sennilega ekki eitt einasta Evrópuland, hvorki Frakkland, Bretland, Þýskaland né Spánn (hvað þá litla Ísland), vera meðal áhrifamestu þjóða heims. Evrópulöndin eru á niðurleið og lönd eins og Brasilía, Indland, Mexíkó, Tyrkland, Indónesía og Kasakstan eru á uppleið. Eina leiðin til þess að sporna við þessari þróun, eina leiðin til þess að Evrópulöndin (að Íslandi meðtöldu) geti áfram gert sig gildandi á alþjóðavettvangi, er með náinni samvinnu og sterku Evrópusambandi.
Evrópusambandið er langt frá því að vera gallalaust. Bann við alvarlega afmynduðum banönum er vissulega óþarfi og þó fullyrðingar um skort á lýðræði séu oft ýktar þá má alltaf auka það, bæði í Evrópusambandinu og hér heima. Aðild að Evrópusambandinu er alls ekki einhver töfralausn sem kæmi til með að kippa öllum okkar vandamálum í lag, en ég held hins vegar að kostirnir við aðild séu bæði fleiri og vegi þyngra en gallarnir. Möguleikinn til þess að losa okkur við okkar sveiflugjarnan og óstöðugan gjaldmiðil og taka upp Evruna er tvímælalaust einn af stærri kostunum. Það að geta haft áhrif á alla þá löggjöf sem við innleiðum hvort sem er vegna aðildar okkar að evrópska efnahagssvæðinu vegur líka þungt. Ef við vöndum valið á fulltrúum okkar í stofnunum Evrópusambandsins þá efast ég ekki um að við gætum haft töluverð áhrif.
Það liggur ljóst fyrir að við munum ekki fá að kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður á þessu kjörtímabili eins og lofað var fyrir kosningarnar 2013. Ég vona mjög innilega að við getum, sem þjóð, tekið málefnalega og góða umræðu um Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands að því á næsta kjörtímabili og vonandi tekið ákvörðun um hvort við ætlum inn eða ekki, því óvissan er vond fyrir alla.
Höfundur skipar 3. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavík norður.