Sem betur fer finnast margar ólíkar persónugerðir í öllum samfélögum og manneskjur sem ná að skara fram úr á einhvern hátt og eru skapandi á akademískum, viðskiptalegum, félagslegum og íþróttalegum vettvangi sem og í menningu og listum. Því ber að fagna og það ber að hlúa að öllu skapandi fólki, gefa hverjum og einum þau tækifæri sem þarf til þess að hver og einn fái að dafna og vaxa á því sviði sem viðkomandi hefur kosið sér.
Því miður hefur íslensku samfélagi mistekist að einhverju leyti með það verkefni. Staðreyndin er sú að til er hópur barna og ungmenna sem einhverra hluta vegna hefur farið halloka í samfélaginu. Það geta verið margvíslegar ástæður fyrir því. Erfiðar heimilisaðstæður, félagslegar aðstæður eða persónuleg vandræði. Og svo það sem ekki má segja upphátt, að skólakerfið er jafnvel að bregðast sumum þeirra.
Umræðu um þessa einstaklinga er því miður ekki nógu mikið haldið á lofti því enginn vill snerta á umræðunni um óhreinu börnin hennar Evu. Það er hins vegar einn þingmaður sem talar mikið og oft um stöðu þessara barna og ungmenna, Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartar framtíðar. Það er nefnilega þannig að Björt framtíð er stjórnmálaflokkur sem er öðruvísi en margir aðrir. Björt framtíð er full af fólki sem kemur alls staðar að úr samfélaginu og veit hversu miklu máli fjölbreytni skiptir og að hvert og eitt okkar fái notið sín. Að allir litir regnbogans fái að skína. Því er velferð barna og unglinga sem skilgreind eru ,,utangarðs“, okkur mikilvæg.
Við viljum að þar til bærir aðilar fái það fjármagn og þau úrræði sem þarf til að halda utan um og leiða þessa einstaklinga til vaxtar. Það er til að mynda ekki ásættanlegt að barn þurfi að bíða í lengri tíma eftir því að komast að hjá sérfræðingum til greiningar svo hægt sé að hefja viðeigandi ferli til þess að aðstoða og hjálpa viðkomandi til að verða besta útgáfan af sjálfu sér. Þessu vill Björt framtíð m.a. breyta.
Minna fúsk, meiri Bjarta framtíð.
Höfundur situr í 4. sæti á lista Bjartrar framtíðar í NV kjördæmi.