Það dýrmætasta sem ég varðveiti eru peysufötin hennar langömmu Þórunnar. Gömlu slifsin, svunturnar, hanskarnir og sparisjalið; allt eru þetta hlutir sem hún eitt sinn bar við hátíðleg tækifæri og tengja okkur þannig við ræturnar. En – við notum fötin mjög sjaldan. Þau passa aðeins sumum og öðrum finnst þau ekki þægileg. Engu að síður lítum við enn á þau sem okkar dýrmætustu eign.
Fyrr á öldum var sauðfjárbúskapur helsta atvinnugrein Íslands og ein af lykilundirstöðum afkomu þjóðarinnar – það á bara ekki við lengur, eins sárt og það kann að hljóma.
Landbúnaðurinn allur er aðeins um 1% af vergri þjóðarframleiðslu. Neysluvenjur landans hafa breyst gríðarlega síðustu áratugina. Lambakjöt hefur sífellt minna vægi á matardiskum okkar og þeirri þróun verður ekki snúið við með framleiðslustyrkjum.
Við verðum einfaldlega að horfast í augu við staðreyndirnar. Sauðfjárbúskapur er styrktur upp í topp á röngum forsendum. Hvað hefur greinin að gera með fæðuöryggi í dag? Fátt. Ársframleiðslan er upp undir 40% meiri en innanlandsmarkaðurinn torgar; restin send út á óskilgreinda markaði, í flestum tilfellum ekki einu sinni upprunamerkt. Fyrirséð er veruleg lækkun á afurðaverði til bænda þetta haustið, eitthvað sem greinin má alls ekki við.
Þetta er ömurleg staða fyrir bændur. En að kenna fákeppni og einokun stórverslana alfarið um er rangt. Framleiðslan er einfaldlega miklu meiri en eftirspurnin. Það heitir offramleiðsla. Og hvað gera stjórnvöld til að snúa ofan af þessum vítahring sem er á góðri leið með að ganga frá sauðfjárræktinni eins og við þekkjum hana. Jú – þau samþykkja nýjan búvörusamning sem viðheldur fyrri áherslum á framleiðslustyrki. Allir nema þingflokkur Bjartrar Framtíðar og Sigríður Á. Andersen Sjálfstæðisflokki.
Á sama tíma og ríkisstjórnin festir 5 milljarða á ári eða svo næstu 10 árin til framleiðslu lambakjöts leggur hún fram sóknaráætlun í loftslagsmálum. Samkvæmt áætluninni liggja helstu tækifæri Íslands til að draga úr magni kolefnis í andrúmslofti í að binda það á ný í gróðri og jarðvegi – við erum nefnilega svo “rík” af illa förnum vistkerfum. Þetta illa farna land sem ríkið ætlar sér að endurheimta samkvæmt sóknaráætluninni er reyndar í flestum tilfellum í eigu sauðfjárbænda eða þeir hafa nýtingarrétt á því. Ætla ráðandi stjórnvöld sér sem sagt að greiða bændum úr einum ríkisvasa fyrir að beita landið til kjötframleiðslu og úr hinum ríkisvasanum fyrir að endurheimta þessi röskuðu vistkerfi? Er verið að fúska hér?
Af hverju í ósköpunum var landið ekki skilgreint sem auðlindin sem ríkið greiðir bændum fyrir að varðveita og bæta í nýjum búvörusamningi? Það er eitthvað sem kemur allri þjóðinni vel til skamms og langs tíma. Þeir bændur sem vildu einnig framleiða lambakjöt gætu gert það, án beinna framleiðslustyrkja, í takti við markaðinn og skýrar línur landnotkunar.
Það er nefnilega svo að Íslendingum þykir enn mjög vænt um ræturnar. Um sauðkindina og sveitina og það er vel hægt að byggja upp sterkan velvilja og víðtæka sátt um stuðning við landbúnað. En, það þarf að vanda vinnubrögð langt umfram það sem nú er gert á Alþingi. Þess vegna þarf Bjarta Framtíð áfram í íslenskum stjórnmálum.
Höfundur greinarinnar skipar annað sætið á lista Bjartrar Framtíðar í Suðurkjördæmi.