Þegar SÍS var og hét, einkum hin síðari ár, þegar sukk fór úr böndum, var engin leið að styðja framsóknarmenn. Hrun varð á þeirri stofnun eins og húsbóndi minn Andrés Jónsson í Deildartungu hafði rauna löngum spáð en vitgrannir gert lítið úr. Í bók Sveins Skorra Höskuldssonar‚ Svipþingi, kemur hins vegar glögglega fram hvílíku grettistaki Samvinnuhreyfingin og framsóknarmenn lyftu á fyrri hluta tuttugustu aldar.
Nú er svo komið að verkalýðshreyfing er máttvana á Íslandi og pólitísk forusta af hálfu verkalýðssinna er dauð. Það er í raun helsta skýrig á uppgufun Samfylkingarinnar, auk almennrar vanþekkingar á efnahagsmálum og skilningsleysis á eigin afglöpum. Þetta mun bitna á hinum efnaminni en einkum og sérílagi á fólki á Landsbygðinni, og það þarf að skýra.
Nú er fjöldi búa kominn niður undir 2.000 úr ríflega 6.000 um 1990. Þessi fækkun á sér margar skýringar, en framleiðslan hefur að mestu haldið sér í magni og gæðum vegna tæknivæðingar og hagræðingar. Sumir halda því fram að vondar erlendar vörur myndu drepa landbúnaðinn og um síðir Íslendinga, ef slakað væri á innflutningshöftum. Án þess að ég vilji hafna þeim rökum með öllu, þá er það mesta furða að menn skuli iðulega komast heim frá útlöndum lifandi. Þegar búum hefur fækkað svo stórlega er það ekki ofverkið okkar að vernda það sem eftir er af búsetu í landinu til sveita með styrkjum, en óskandi væri að þeir styrir væru ekki tengdir framleiðslumagni.
Sú hætta sem steðjar að fólki á Landsbyggðinni þegar stjórnum hlutafélaga er falin forsjá í byggðamálum blasir við. Hlutafélagaformið er að mörgu leiti eitt ólýðræðislegasta stjórnarform sem til er og er þá Stalínisminn ekki undanskilinn. Þegar lífsbjörgin hefur verið afhent hlutafélagsstjórninni, hvort sem það er úr höndum keyptra þingmanna eða á uppboði, þá hættir hið opinbera að ráða för, 50.000 til 60.000 landsmanna eru ofurseldir hinu stalíníska hlutafélagi. Landbúnaður er ekki vandi hjá þeim hamförum sem bíða okkar í sjávarþorpunum.
Þá gerist það, að forsætisráðherrann fer með fé sitt til aflands. Þetta endurspeglar hættuna enn meir. Landsbyggðarfólk hrekst landhorna milli eftir duttlungum hlutafélagastjórnarinnar og arðurinn af vinnu allra landsmanna kann að vera fluttur til aflands.
Í þessum skilningi erum við öll landsbyggðarfólk, óvinur okkar er aflandsmaðurinn.
Höfundurinn er lektor í hagfræði.