Í skýrslu McKinsey um íslenskan þjóðarhag frá 2012, sem Viðskiptaráð vitnar stöðugt í, er fjallað um nauðsyn þess að auka hugvitsdrifinn útflutning og bæta framleiðni. Þetta eru tvö helstu markmiðin sem McKinsey telur að við ættum að vinna að. Skemmst er frá að segja að lítið hefur gerst á þessum fjórum árum sem færir okkur nær þessum markmiðum.
Skýrslan skiptir atvinnuvegum okkar upp í þrjá geira: þjónustugeira (opinber þjónusta, fjarskipti, bankar, verslun og viðskipti), auðlindageira (sjávarútvegur, orkuiðnaður og ferðamannaþjónusta) og að síðustu alþjóðageira (nýsköpun og fyrirtæki á alþjóðamörkuðum).
Í þjónustugeiranum er lagt til að samkeppni sé aukin, viðskiptahindrunum aflétt og stjórn höfð á vexti opinberrar þjónustu. Í auðlindageiranum er lögð áhersla á bætta framleiðni fjármagns í orkuiðnaði, að haldið sé áfram á sömu braut í sjávarútvegi og að áhersla sé aukin á verðmætasköpun í ferðaþjónustu. Þegar kemur að alþjóðageiranum er talað um að styrkja rekstrarumhverfi, styðja við nýliðun, styðja nýsköpunarfyrirtæki og efla uppbyggingu mannauðs.
Til að allrar sanngirni sé gætt varðandi alþjóðlega geirann, sem er vissulega langt á eftir áætlun miðað við tillögur skýrslunnar, hefur þó verið tekið aðeins til varðandi lög og reglugerðir. Skattalegir hvatar hafa verið bættir og auðveldara er að fá hingað erlenda sérfræðinga en áður. Hins vegar hefur ekki verið unnið að því að auka hvata til að fjölga tækni- og raungreinamenntuðu fólki sem hlýtur að teljast veigamikil forsenda árangurs á þessu sviði.
Enn verðum við að horfa upp á atgervisflótta frá landinu. Tækni- og raungreinamenntað fólk flýr land, ekki eingöngu vegna þess að laun annars staðar eru betri, heldur vegna þess að fá tækifæri eru fyrir það að láta reyna á getu sína hér heima. Umhverfið hér er enn ekki orðið þannig að eftirsóknarvert sé að byggja upp slík fyrirtæki. Mörg eldri fyrirtæki í þessum geira hafa þar að auki þegar flúið land eða eru undirbúa brottför.
Lífsgæði í lágu orkuverði
Af þeim gæðum sem gert hafa Ísland byggilegt á undanförnum áratugum vil ég sérstaklega nefna hið lága orkuverð sem almenningur nýtur hér. Þar njótum við góðs af markvissri uppbyggingu orkutengds iðnaðar sem hófst fyrir hálfri öld og hefur greitt niður orku til almennings allar götur síðan. Ég er í hópi þeirra Íslendinga, sem flust hafa heim eftir að hafa búið í erlendis um árabil og finna fljótt að orkuverð hér er eitt helsta mótvægið við það, hve langt úr alfaraleið við búum. Það var einfalt reikningsdæmi hjá okkur að orkukostnaðurinn ytra reyndist rúmlega tvöfalt hærri en hér heima.
Landsvirkjun er fyrirtæki í almannaeigu og ætti því að hugsa um hag almennings. LV hefur hinsvegar af eigin hvötum drifið harðan áróður á undanförnum misserum fyrir því að flytja út íslenska orku til þess að hækka verðmiðann á henni. Þó að fyrirtækið reyni að fara lágt með áhrif hækkaðs orkuverðs á almenning með því að mála upp ýmsar myndir mikilla heilla fyrir þjóðina sem rafmagnssnúra til útlanda færi okkur, er öruggt að verð til almennings mun hækka verulega. Þar með herðist enn á atgervisflóttanum og líkurnar minnka að sama skapi á að alþjóðageiri sá sem McKinsey talar um, komi undir sig fótunum hérlendis.
Kanarí norðursins
Á meðan flyst hingað ágætis fólk af erlendum uppruna því að hér er gnægð vinnu að fá þar sem lítið menntaðir eða ómenntaðir einstaklingar geta unnið við að skipta um lök og ljósaperur á hótelum landsins. Slíkum störfum fer fjölgandi en lítið bólar á árangri við að auka verðmætasköpun í ferðaiðnaði. Magnið eykst en gæðin ekki. Massatúrismi er staðreynd. Við erum ekki að verða Kúba norðursins, eins og einhverjir snillingar spáðu hér um árið, heldur Kanarí norðursins. Áskorun McKinsey um aukinn útflutning úr alþjóðageiranum virðist ekki ætla að verða að veruleika.
Á síðustu fimm árum hefur störfum í ferðaþjónustu fjölgað um tæp fjörutíu prósent á meðan störfum í landinu hefur fjölgað um sex prósent. Aukið vægi ferðaþjónustu getur gert landið berskjaldaðra fyrir áföllum. Hlýtur því ekki að teljast brýnt að útflutningsvöxtur komi annars staðar frá til mótvægis?