Fyrr á árinu var David Chen, framkvæmdastjóri hjá Equillibrium Capital á fundi VÍB um ábyrgar fjárfestingar. Hann fór með dæmisögu um hvernig við ættum að líta á fjárfestingar til lengri tíma. Ef þú átt heilan skóg og horfir bara 2-3 ár fram í tímann, þá er sennilega eina rétta efnahagslega ákvörðunin að höggva skóginn niður. En ef þú veist að þú munt eiga skóginn í 100 ár eða meira, þá muntu hugsa um hann með öðrum hætti; hlúa að honum og passa að hann muni vaxa ár frá ári og verða sjálfbær. Með sama hætti ættirðu að líta á fjárfestingar – hvernig hægt sé að hlúa að þeim sem best til framtíðarávöxtunar.
Í afar einfaldri mynd snúast ábyrgar fjárfestingar um þetta. Í þeim láta fjárfestar sig varða efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfismál í ákvörðunartöku um fjárfestingar, huga að siðrænum hluta þeirra, hegðun fyrirtækja og sjálfbærni þeirra. Í ábyrgum fjárfestingum róa fjárfestir og fyrirtæki í sömu átt að sjálfbærni, hvort sem um er að ræða í rekstri eða ávöxtun fjármuna. Ábyrgar fjárfestingar styðja einnig við góða stjórnarhætti innan fyrirtækja, bæta ákvörðunartöku þeirra og arðsemi. Samspil ábyrgra fjárfestinga við samfélagsábyrgð og stjórnarhætti fyrirtækja tryggir þannig betur fjárfestingu til lengri tíma.
Fjárfestar eru farnir að kalla eftir upplýsingum um stefnu fyrirtækja í samfélagslegri ábyrgð í æ ríkara mæli. Ef fjárfesti líkar ekki við það sem fyrirtækið gerir, þá getur hann m.a. látið skoðun sína í ljós með því að selja sig út. Samkvæmt Gillian Karran-Cumberlege hjá Fidelio Partner eru fjárfestar og fyrirtæki í auknum mæli farin að sjá sér hag í því að efla samskipti sín á milli til að leysa málið. Því meira og betra samtal, þeim mun betri ákvörðunartaka og ánægðari fjárfestar. Nú hafa að minnsta kosti 2 af stærstu bönkum landsins og 3 lífeyrissjóðir skrifað undir aðild að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og sett sér skýra hluthafastefnu. Vitað er af fleirum sem eru að vinna að aðild að reglunum.
Hér á Íslandi hefur þetta málefni verið okkur í Kauphöllinni hugleikið undanfarin ár. Við stóðum fyrir gerð leiðbeininga um góða stjórnarhætti ásamt Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins, en á síðasta ári ákvað Nasdaq á Norðurlöndunum að ganga skrefinu lengra og sameinast um gerð staðlaðra leiðbeininga fyrir skráð fyrirtæki um birtingu upplýsinga um stefnu þeirra varðandi umhverfismál, samfélagslega þætti og stjórnarhætti. Leiðbeiningarnar verða í samræmi við ráðleggingar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar kauphallir sem gefnar voru út 2015 og World Federation of Exchanges, en Nasdaq var þar í forsvari fyrir vinnuhóp um sjálfbærni. Þannig er þessum leiðbeiningum ætlað bæði að vera fyrirtækjum hvatning í að veita fjárfestum samanburðarhæfar upplýsingar um samfélagslega ábyrgð þeirra sem og að auðvelda fyrirtækjum verkið.
Sífellt fleiri skráð og óskráð fyrirtæki hafa ákveðið að fylgja eftir samfélagslegum gildum í sínum rekstri. Á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hafa níu fyrirtæki skrifað undir aðild að Festu og hafa annað hvort hafið, eða eru komin með í ferli verklag um samfélagslega ábyrgð samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Sú staðreynd að yfir 100 íslensk fyrirtæki skrifuðu undir yfirlýsingu um loftslagsmál og skuldbundu sig þannig til að setja sér markmið í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs, sýnir að atvinnulífið lætur sig samfélagslega ábyrgð varða.
Þessa dagana liggur fyrir að fjárfestingar erlendis verða einfaldari en áður með losun gjaldeyrishafta. Þarna verða okkur gefin aukin tækifæri til fjárfestinga. Eins er líklegt að erlendir fjárfestar gefi skráðum fyrirtækjum hérlendis meiri gaum en áður. Nasdaq gefur bæði út svokallaðar grænar vísitölur sem fylgja fyrirtækjum sem leggja sig fram um að hafa jákvæð áhrif á umhverfið og sjálfbærnivísitölur sem fylgja fyrirtækjum sem skara fram úr á sviði samfélagslegrar ábyrgðar. Þetta er gert svo fjárfestar sem vilja fjárfesta ábyrgt geti með auðveldari hætti haft yfirsýn og tekið þátt. Um leið er þetta hvatning til fyrirtækja til að gera betur. Með afléttingu gjaldeyrishafta standa vonir til að íslensk fyrirtæki verði gjaldgeng í norrænar vísitölur af þessu tagi. Einnig kann að skapast grundvöllur fyrir vísitölu sem fylgir samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum á íslenska markaðnum.
Við erum á réttri leið. Það er markmið þeirra sem reka fyrirtæki að það geti þrifist í því samfélagi sem það býr í til frambúðar og því þarf gott samspil að vera við fjárfesta. Þannig siglum við á sömu mið, hvort sem við erum eigendur, hluthafar eða starfsfólk. Fyrirtæki eru farin að sjá að sjálfbærni er ekki lengur bara flott orð að hafa í ársskýrslu, heldur skiptir hún miklu máli fyrir afkomu fyrirtækisins og áhuga fjárfesta á þeim.
Höfundur er forstjóri kauphallar Íslands.