Í vikunni fór fram í þinginu atkvæðagreiðsla um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Ég lagði fram breytingartillögu sem miðaði að því að valfrjálsi viðaukinn við samninginn sem Ísland undirritaði á sama tíma og samninginn sjálfan fyrir rúmum 9 árum yrði einnig fullgiltur.
Valfrjálsi viðaukinn mælir fyrir um kæruleið til eftirlitsnefndar með samningnum fyrir fatlaða einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná rétti sínum. Eftirlitsnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valfrjálsa viðaukann verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum vel verður, réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin.
Það er skemmst frá því að segja að þessi tillaga olli miklu uppnámi og töldu margir að ef ég héldi þessari tillögu um fullgildingu viðaukans til streitu myndi það verða þess valdandi að fullgilding samningsins sjálfs næðist ekki nú vikunni. Eftir að hafa fengið það staðfest af hlutaðeigandi yfirvöldum og ráðuneytisfólki að nauðsynleg vinna vegna viðaukans væri ekki lokið og því ekki hægt að fullgilda hann nú dró ég tillögu mína til baka. Það byggðist á því að ég vildi alls ekki að þessi staða með viðaukann, sem hlutaðeigandi stjórnvöld bera alla ábyrgð á, yrði til að ekki næðist heldur að fullgilda samninginn sjálfan nú.
Ég lagði jafnframt sem flutningsmaður fram aðra tillögu, ásamt þingmönnum úr öllum flokkum, sem lýtur að því að Alþingi álykti að valkvæði viðaukinn við samninginn skuli fullgiltur fyrir árslok 2017. Ég er þegar öllur er á botninn hvolft sáttur við þessa niðurstöðu og lít á þetta sem mikinn áfangasigur í baráttu fatlaðs fólks fyrir fullum réttindum sínum. Samningur um réttindi fatlaðs fólks verður mjög mikilvægt tæki fyrir það til að tryggja og verja mannréttindi sín. Og því miður er svo sannarlega ekki vanþörf á því í okkar ríka landi.
Stjórnvöld verða nú að sýna, og ekki aðeins í orði heldur kröftuglega í verki, að þau taki skyldur sínar samkvæmt samningnum mjög alvarlega og geri það sem gera þarf til að ákvæði samningsins hafi örugglega raunveruleg áhrif fyrir fólk af holdi og blóði styrki réttindi þess, lífsgæði, tækifæri og virðingu. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni að það skuli hafa tekið íslenska ríkið næstum 10 ár að fullgilda þennan mikilvæga mannréttindasamning sem langflest ríki í heiminum hafa þegar fullgilt og sum fyrir löngu síðan. Og að sjálfsögðu eru það vonbrigði og mikið umhugsunarefni að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa gert það sem gera þarf til að unnt væri að fullgilda viðaukann nú um leið og samninginn þó að þau hafi haft til þess næstum 10 ár.
En þannig er staðan og því verður að gera það besta úr henni sem mögulegt er. Og batnandi manni er best að lifa og það á við ríki líka og ég ætla að trúa því og treysta að íslenska ríkið ætli að bæta mjög frammistöðu sína í því að tryggja fötluðu fólki mannréttindi til jafns við aðra. Fullgilding samningsins nú og markviss innleiðing réttinda hans og ákvæða í lög, reglur og alla framkvæmd og fullgilding viðaukans á næsta ári eru mjög mikilvægir þættir og áfangar í því. Þegar þessum áföngum er lokið ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að stíga lokaskrefið og festa samninginn endanlega í lög.
Höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar.