„Skólar eru í raun einu stofnanir samfélagsins sem geta tryggt öllum uppvaxandi kynslóðum tækifæri til að búa sig undir þátttöku í virku lýðræði, þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun og mæta ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum.“ (Aðalnámskrá Leikskóla, Grunnskóla og Framhaldsskóla 2011)
En skyldi menntakerfið standa við stóru orðin? Bjóðum við öll þau tækifæri sem ættu að standa til boða? Er skólum gert kleift að mæta ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum? Ég held ekki. Ég tel að við höfum undanfarin ár, undir forystu núverandi menntamálaráðherra, skapað skólakerfi sem býr til vinnuafl sem viðheldur og stækkar brúna milli þeirra efstu og neðstu í samfélaginu?
Núverandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson ræddi um áhyggjur sínar af íslensku hagkerfi á málþingi um stöðu háskólamenntaðra á vinnumarkaði í maí s.l. Þar lýsti hann áhyggjum af því að ungt fólk sæi ekki fjárhagslegan ávinning af menntun sinni Hann lét þau orð falla að það ætti ekki að koma okkur á óvart og að áherslur í nýlegum kjarasamningum hafi verið á að hækka lægstu launin í samfélaginu. Hann sagði af því tilefni „..það hefur þá þær afleiðingar til lengri tíma að það minnkar munurinn á milli þeirra sem ganga menntaveginn og afla sér menntunar og hinna sem gera það ekki. Ég held að staðan sé raunar þannig núna að það er hvað minnstur munurinn, þegar horft er á laun þeirra sem hafa gengið menntaveginn og þeirra sem ekki hafa gert það…”
Nú er Illugi Gunnarsson að kveðja embætti menntamálaráðherra, mér til mikillar ánægju. Ég skelf hins vegar við þá tilhugsun að fyrrverandi flokkssystir hans, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skuli vera að bjóða sig aftur fram. Þegar Þorgerður kvaddi menntamálaráðuneytið var hún ráðin til starfa sem forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins. Hún hefur oft talað fyrir breytingum í menntakerfinu en yfirleitt út frá efnahagslegum sjónarmiðum, eins og þær einar skipti máli.
Í upphafi árs 2016 kynntu Samtök atvinnulífsins tillögur sínar um að mæta áskorunum á vinnumarkaði. Þar voru sjónarmið um efnahagsþróun sett í forgang, á kostnað þróunar innan menntakerfisins. Það sem stakk mig helst var hugmyndin um að stytta skólagöngu frá grunnskóla og til enda framhaldsskóla, sem lögð var fram með verðmiða í krónum talið. Áætlaður árangur af slíkum breytingum var kynntur með þeim hætti að þeim væri ætlað að draga úr örorku ungs fólks á Íslandi og auka landsframleiðslu um tæpa fjörutíu milljarða króna vegna fjölgunar á vinnumarkaði. Helstu breytingar í skólakerfinu voru þær að færa skólaskylduna niður um eitt ár sem samtökin reikna sem 3,2 milljarða árlega rekstrarhagræðingu hjá sveitarfélögunum. Fjárhagslegur ávinningur af því að senda fólk fyrr inn á vinnumarkaðinn var svo metinn og þegar allt var talið var efnahagslegur ávinningur reiknaður allt að 70 milljarðar á ári. Landsframleiðsla myndi aukast um 40 milljarða vegna fjölgunar á vinnumarkaði og um 55 milljarða ef helmingur nemenda kláraði grunnskólann 14 ára. Það var svo nefnt sem algert aukaatriði að auka eftirfylgni með kennslu og endurgjöf til kennara og að endurskoða þyrfti kennaramenntun á öllum skólastigum.
Ég viðurkenni að sjá úlf í sauðargæru bjóða sig aftur fram í nýju pólitísku afli, Viðreisn, sem við fyrstu sýn og miðað við mannvalið þar, vera afl af hægri vængnum. Ég á því enga úrkosti aðra en að stíga sjálf fram og tala hátt um hugmyndir um að breyta menntakerfinu með hag samfélagsins og bjarta framtíð að leiðarljósi.
Ég leiði lista Bjarta framtíðar í Reykjavík suður og vil sjá kerfisbreytingu sem endurspeglar ábyrgð menntamálaráðuneytisins um að bæta skólakerfið. Ég vil sjá þróun í þá átt að kennarastéttin verði að alvöru afli sem bætir okkar samfélag þannig að flest okkar njóti góðs af, bæði efnahagslega og virðisauka fyrir samfélagið í heild sinni. Ég vil sjá kennaramenntun sem eftirsóknarverða starfsgrein eins og hún er til dæmis í Finnlandi.
Ég er sammála Þorgerði Katrínu um að tími sé kominn til að ráðast í róttækar breytingar í menntakerfinu. Við verðum fyrst og fremst að þora að auka fjármagn til kennaramenntunar, sveitarfélaga, framhaldsskóla og háskóla svo að þeim verði gert kleift að mæta þeim kröfum sem er kveðið á í lögum og Aðalnámskrá. Ef okkur auðnast það hef ég fulla trú á að efnahagslegur ávinningur fylgi í kjölfarið en ekki síður samfélagslegur jöfnuður sem skortur er á.
Höfundur leiðir lista Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi suður.