Í nýlegri skýrslu er sagt að Ísland sé næst umhverfisvænasta land í heimi. Ástæðan er aðallega sögð sú að um 85% orkunotkunar okkar sé frá endurnýjanlegum orkugjöfum sem keyri um 99% af rafmagnsframleiðslu og húshitun hérlendis. Allt best á Íslandi – eða hvað? Önnur samantekt sýnir reyndar að við brennum samt um 700.000 þús. tonnum af olíu árlega; eða um 2 tonnum á hvern íbúa landsins. Við sitjum þar með á topp 30 lista yfir þau lönd heimsins sem nota mest af olíu á íbúa. Það finnst okkur ekkert sérlega umhverfisvænar fréttir!
Síðasta sumar birti Orkustofnun nýja eldsneytisspá fyrir 2016 - 2050. Svo virðist sem þessi áætlun hafi algjörlega farið fram hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt spánni er ríkisstjórnin ekki að leggja þann metnað sem þarf til að standast eigin langtímaáætlun um orkuskipti í græna orku og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Spáin sýnir að árið 2020 mun Ísland hafa náð 6,7% af settu 10% markmiði um orkuskipti í samgöngum. Þannig sýnir spáin að útkoman hvað varðar fiskiskipin er 0,3% sem er óralangt frá 10% markmiði stjórnvalda! Ekki nóg með það, heldur sýnir spáin líka að árið 2050 mun sala á olíu hérlendis hafa aukist um 20% frá því sem er í dag, fyrst og fremst vegna mikillar aukningar á flugumferð til landsins!
Ætli ríkisstjórnin sé búin að endurskoða núverandi áætlun um aðgerðir til að sporna við áhrifum loftslagsbreytinga og setja ný metnaðarfyllri (en raunhæf og mælanleg) markmið til að bregðast við þessari spá? Það er nefnilega ekki nóg að skrifa undir alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það þarf líka að standa við þær.
Loftslagsbreytingar eru staðreynd sem við eins og aðrar þjóðir heimsins berum ábyrgð á. Þetta er málaflokkur sem á ekki heima hjá einum ráðherra heldur þarf að vinnast þvert á ráðuneyti, í fullu samstarfi allra viðkomandi. Þó sóknaráætlun í loftslagsmálum sé sögð sameiginlegt verkefni ríkisstjórnarinnar þá virðist skorta talsvert upp á að sú sé raunin þegar kemur að framkvæmdum. Það var að minnsta kosti ekki mikil tenging á milli nýgerðra búvörusamninga og áætlunarinnar. Við í Bjartri framtíð segjum hingað og ekki lengra.
Við viljum bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga af miklu meiri þunga en gert er í dag. Þetta er alvöru mál sem þarfnast faglegra vinnubragða – og við kunnum þau.
Minna fúsk og meiri Bjarta framtíð!
Höfundar skipaa 3. sæti Bjartrar framtíðar í Reykjavík Suður og 2. sæti Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi.