Því hefur verið haldið fram opinberlega að með nýju námsstyrkjakerfi sé gert ráð fyrir því að námsmenn muni á einhvern hátt verða með lægri ráðstöfunartekjur. Þetta er alfarið rangt.
Framfærslulán LÍN eru nú og verða áfram að öllu leyti óháð þeim bótum sem einstaklingum kunna að standa til boða. Með öðrum orðum, þeir einstaklingar sem njóta bótagreiðslna, t.d. vegna barna, geta líka sótt í framfærslu hjá LÍN sem er óskert með öllu þrátt fyrir bótagreiðslur. Þannig er það nú, og þannig mun það áfram verða. Fullyrðingar um annað eru rangar. Námsmenn geta því eftir atvikum áfram verið með ráðstöfunartekjur talsvert umfram framfærsluviðmið LÍN ef þeir þurfa - eða vilja.
Nýtt námsstyrkjakerfi dregur úr lántökuþörf
Sem dæmi má taka einstætt foreldri með tvö börn á framfæri. Mánaðarleg mæðra/feðralaun, bótagreiðslur, einfalt meðlag og námsstyrkur eru 256.560 kr. áður en nokkurt lán kemur til sögunnar. Framfærsluviðmið LÍN er hins vegar 306.993 kr. á mánuði fyrir þennan einstakling og því þarf annað hvort aðrar tekjur eða námslán sem nemur 50.433 kr. til þess að dekka mismuninn.
Ef ekki er gert ráð fyrir neinum tekjum er lánsþörf þessa einstaklings miðað við framfærsluviðmið LÍN í nýju námsstyrkjakerfi því 50.433 kr. á mánuði (vegna 65.000 kr. námsstyrks) en í núverandi kerfi er lánsþörfin 115.433 kr. á mánuði. Vegna þess að námsaðstoð verður áfram óháð bótagreiðslum verður ónýttur lánsréttur umfram framfærsluviðmið LÍN í nýju kerfi því 191.560 kr. á mánuði, að því gefnu að engar aðrar tekjur komi til.
Námsmenn geta haft vit fyrir sjálfum sér
Það má gera ráð fyrir því að sumir námsmenn nýti sér allt þetta svigrúm og að aðrir nýti sér hluta þess. Sumir munu láta sér nægja að vera með tekjur að framfærsluviðmiði og enn aðrir velja að vinna með skóla til að draga úr lántökuþörf. Það veltur á persónubundnum aðstæðum, lífsstíl, ákvörðunum um að nýta niðurgreidd námslán til að safna fyrir íbúðarkaupum o.s.frv. Það er enda ekki hlutverk stjórnmálamanna að hafa vit fyrir fólki, heldur er það hlutverk þeirra að búa þannig um hnúta að það geti haft vit fyrir sjálfu sér.
Ef námsmaðurinn sem um ræðir hefði engar tekjur og nýtti sér alla námsaðstoð LÍN væru bótagreiðslur (m.v. einfalt meðlag) og námsstyrkur 256.560 kr. á mánuði og námslán 241.993 kr. á mánuði, eða samtals 498.553 kr. á mánuði. Til þess að hafa svo háar ráðstöfunartekjur á vinnumarkaði þyrftu laun að vera 760.576 kr. á mánuði, miðað við að viðkomandi hefði fullan persónuafslátt. Það sjá það allir í hendi sér að fæstir námsmenn taka svo há námslán þegar þeir hafa fyrir aðrar tekjur og bótagreiðslur, enda eru námsmenn ekki vitlausir.
Jafnframt má þá búast við því að lífskjör þeirra sem taka svo há lán yrðu talsvert betri á meðan þeir væru í námi og myndu skerðast umtalsvert eftir að komið væri út á vinnumarkað, enda eru fáir nýútskrifaðir háskólanemar með svo há laun.
Námsmenn sníða sér stakk eftir vexti
Það er einfaldlega rangt sem hefur verið haldið fram að námsmenn taki almennt hámarkslán hjá LÍN. Margir eru með bótagreiðslur úr öðrum kerfum eða með aðrar tekjur og sumir eiga jafnvel sparnað eða bakhjarla sem hægt er að nota til að drýgja tekjurnar og nýta til framfærslu.
Að sjálfsögðu taka námsmenn almennt ekki lán umfram það sem er nauðsynlegt hverju sinni. Enda sést það best á því að meðallán LÍN er um 3,8 milljónir króna á meðan hámarkslán miðað við fulla framfærslu nema á Íslandi liggur á bilinu 7.385.000 kr., fyrir einstakling í foreldrahúsum, til 16.856.000, fyrir einstætt foreldri með tvö börn. Ef eitthvað væri hæft í því að námsmenn myndu almennt nýta sér hámarkslán er augljóst að meðallán lægi þá á þessu bili.
Þeir sem halda því fram opinberlega að námsmenn muni allt í einu byrja að skuldsetja sig langt umfram það sem þeir gera nú og þörf er á hafa í fyrsta lagi rangt fyrir sér og í öðru lagi vanmeta þeir verulega vitsmuni námsmanna með því að gera lítið úr getu þeirra til að haga fjármálum sínum með skynsömum hætti.
Af þessu sést að það er langt því frá þannig að námsmenn séu almennt að taka hámarkslán, enda sníða þeir sér flestir stakk eftir vexti og taka ekki hærri lán en ástæða er til hverju sinni. Fyrir þá sem taka mjög há lán, annað hvort til að vera með háar ráðstöfunartekjur í náminu umfram framfærsluviðmið og taka hámarkslán ofan á aðrar bætur og tekjur, eða þá til dæmis til þess að safna fyrir útborgun í fasteign, þá er fullkomlega eðlilegt að þeir beri ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni. Þeim mun eftir sem áður standa til boða námsstyrkur og niðurgreiddir námslánavextir ofan á aðrar tekjur eða bætur.
Fullyrðingar þarf að styðja með rökum
Niðurstaðan er sú að það er ekki gert ráð fyrir neinni breytingu á ráðstöfunartekjum eða lántökuhegðun námsmanna með nýju námsstyrkjakerfi. Helsta breytingin er hins vegar sú að námsaðstoðin er að hækka og hluti hennar verður greiddur út fyrir fram í formi beinna styrkja. Samkvæmt óháðri greiningu á frumvarpinu mun það leiða af sér lægri greiðslubyrði fyrir verulegan meirihluta námsmanna, en það er sama niðurstaða og stúdentar hafa sjálfir komist að með sínum greiningum á frumvarpinu. Þetta kostar allt töluvert mikið, eða 5 milljarða króna vegna fyrirframgreiðslunnar og síðan 2,3 milljarða króna árlega til viðbótar eftir það. Þetta er það sem stúdentahreyfingar hafa svo árum skiptir kallað eftir.
Þeir sem hafa haldið því fram að með nýju námsstyrkjakerfi sé gert ráð fyrir lægri ráðstöfunartekjum námsmanna hafa ekki rökstutt það á nokkurn hátt, en slíkar fullyrðingar þarf að styðja með rökum. Einungis miðað við þá röngu forsendu fæst sú niðurstaða að námsmenn verði verr settir í nýju námsstyrkjakerfi.
Hér með skora ég á þá sem halda því fram að námsmenn muni breyta hegðun sinni og byrja að taka hærri lán en þeir hafa gert hingað til, að rökstyðja það hvers vegna þeir telji að nýtt námsstyrkjakerfi muni leiða af sér aukna skuldsetningu nemenda.
Höfundur er aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra.