Jú, það má sko tala um efnið. Það má hins vegar ekki auglýsa blaðamannafund og hrakyrða þar fólk í nafni þingnefndar Alþingis. Sérstaklega þegar í ljós er komið að þingnefndin hafði aldrei fjallað um málið og nefndarmenn ekki lesið þá skýrslu sem eignuð var nefndinni. Það er efnislegt hneyksli en ekki formsatriði.
Látum það samt liggja á milli hluta í bili. Kallað er eftir umræðu um efnisatriði og hún hefur að mörgu leyti farið nú þegar fram þótt málefnið verðskuldi reglulega upprifjun.
Fyrrverandi fjármálaráðherra útskýrði efnisatriði endurreisnarinnar í ítarlegri skýrslu til Alþingis á árinu 2011. Í framhaldinu spurðu þingmenn spurninga og fengu skrifleg svör, t.d. um þau lán sem ríkið veitti bönkunum. Núverandi formaður fjárlaganefndar kallaði þá skýrslu nýverið hvítþvottaskýrslu, en aðspurð um hvað væri rangt í skýrslunni sagði hún að það væri ekki neitt heldur vantaði ýmislegt, sem var ekki frekar útskýrt.
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) skilaði nákvæmi úttekt á endurreisn fjármálakerfisins á Íslandi árið 2012 þar sem ítarlegar upplýsingar er að finna um hvernig til tókst, kostnað og áhættu ríkissjóðs. Skýrsluhöfundar töldu þær aðferðir sem hér var beitt að mörgu leyti nýmæli. Þær væru til eftirbreytni í því skyni að draga úr ríkisvæðingu taps einkafyrirtækja og að kostnaður ríkisins hefði orðið minni en sjóðurinn hafði áætlað.
Við Þorsteinn Þorsteinsson, aðalsamningamaður ríkisins, skrifuðum ítarlegar greinar í blöð á síðasta ári þar sem nokkur atriði voru útskýrð að gefnu tilefni. Í byrjun júní sl. var birt skýrsla tveggja hagfræðinga um fjárhagslega niðurstöðu endurreisnarinnar sem sýnir þá gleðilegu niðurstöðu að ríkissjóður mun ekki bera neinn skaða heldur á ríkið verðmæta eign sem hægt er að nýta til að bæta annan skaða af bankahruninu. Ef bara er litið á endurreisn bankanna þá hefur hún fært ríkissjóði tugi milljarða. Tap vegna ástarbréfaviðskipta og hagnaður vegna stöðugleikaframlaga er þar fyrir utan.
***
Hvað er nýtt núna í skýrslu Vigdísar Hauksdóttur? Í fyrsta lagi voru það persónulegu ávirðingarnar sem fjallað hefur verið nokkuð um í fjölmiðlum síðustu vikuna og virðast vera horfnar úr nýjasta eintaki skýrslunnar. Í öðru lagi eru ályktanir skýrsluhöfundar í fimm punktum í upphafi skýrslunnar sem ég vil gera hér að umtalsefni:
1. Stjórnvöld tóku fram fyrir hendur Fjármálaeftirlitsins og breyttu ákvörðunum þannig að þær byggðust ekki á neyðarlögunum eingöngu.
Nei, svo var ekki. Uppgjör á verðmæti þeirra eigna sem fluttar voru í nýju bankanna byggðu á sameiginlegu mati gömlu og nýju bankanna. Um þetta segir Fjármálaeftirlitið í yfirlýsingu frá 29. janúar 2015: „Niðurstaða matsins staðfesti að mikil óvissa væri um verðmæti eignanna. Ætla mátti að alvarlegur lagalegur ágreiningur myndi rísa ef uppgjörið færi fram einvörðungu með útgáfu skuldabréfs. Af þeim sökum meðal annars hófust samningaviðræður milli gömlu og nýju bankanna um uppgjörið sem lauk með samningum á milli aðila, 14. ágúst 2009 í tilviki Glitnis banka og Kaupþings banka og í desember 2009 í tilviki Landsbanka Íslands. Fyrir hönd nýju bankanna var samningaviðræðunum stýrt af bönkunum sjálfum, en að því verki kom einnig fjármálaráðuneytið sem var handhafi hlutafjár nýju bankanna fram að uppgjörinu milli aðilanna. FME var upplýst um gang samningaviðræðnanna og taldi þær samræmast ákvörðunum þess.“
2. Gengistryggðu lánin voru „endurvakin“ með sérstökum uppgjörum í bönkunum þremur undir stjórn Ríkisendurskoðanda. Þetta virðist ganga þvert á ákvörðun? Fjármálaeftirlitsins í október 2008.
Nei, það var ekki einu einasta láni breytt. Eins og neyðarlögin kveða á um er hægt að ráðstafa eignum (lánum) til annarra banka en það er ekki hægt að breyta lánaskilmálum í leiðinni. Fjármálaeftirlitið segir sjálft um þetta: „Samræmd gengisviðmiðun (m.v. 30. september 2008) breytti engu um kröfuvirði einstakra útlána og virði þeirra.“ Ímyndið ykkur til dæmis hvernig fyrirtæki í sjávarútvegi hefði brugðist við ef lánum þess í erlendum myntum hefði allt í einu, án samráðs við fyrirtækið, verið breytt í krónulán með háum íslenskum vöxtum.
3. Seðlabankinn var látinn leysa húsnæðislán einstaklinga úr veðböndum svo að þrotabú gömlu bankanna gætu innheimt þau. Óupplýst er hvert tjón Seðlabankans af þessum aðgerðum varð.
Þetta er allt rangt. Seðlabankinn átti veð í nokkru magni fasteignalána vegna eldri fyrirgreiðslu við gömlu bankanna. Seðlabankinn fékk greiðslu frá nýju bönkunum fyrir að leysa veðböndin af þessum lánasöfnum. Þau gengu síðan inn í nýju bankana sem héldu þannig áfram viðskiptasambandinu við þá sem höfðu tekið lán. Þessu er nánar lýst í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis frá mars 2011 á bls. 49 (um Íslandsbanka) og 58 (um Arion banka) og hefur alla tíð legið fyrir. Mér vitanlega innheimtu gömlu bankarnir engin húsnæðislán. Tjón Seðlabankans vegna uppgjörs á endurhverfum lánum og veðlánum (ástarbréfaviðskiptum) er þessu ótengt, en því er blandað saman í skýrslunni.
4. Þegar Arion banki og Íslandsbanki voru afhentir kröfuhöfum virðist hafa verið gefinn eftir 40 milljarða kr. ávinningur af verðmætaaukningu í áætluðum vaxtagreiðslum, virðisauka og endurhverfum lánum og veðlánum hjá Seðlabanka Íslands.
Ég átta mig ekki alveg á þessari fullyrðingu. Í meginatriðum snerust samningar um að ríkið fékk til baka fjárfestingu sína í Arion banka og Íslandsbanka ásamt áföllnum vöxtum. Ekki þó að fullu í Arion banka eins og gerð er grein fyrir í skýrslu fjármálaráðherra frá árinu 2011 (bls. 33). Í stað þess að Arion greiddi ríkissjóði vexti var greiddur arður að fjárhæð kr. 6,5 milljarður króna sem tók mið af af afkomu Arion banka á eignarhaldstíma ríkisins, fjárhagslegri getu bankans til að greiða arð og þeirrar staðreyndar að ríkið hélt áfram 13% eignarhlut í bankanum. Hinu varfærna mati sem gömlu bankarnir féllust á á yfirfærðum eignum var ætlað að skapa skilyrði fyrir eignauppfærslu í nýju bönkunum og þar með styrkingu fjármálakerfisins en ekki til útborgunar á eignaaukningunni til ríkissjóðs. Ef það hefði verið ætlunin hefði aldrei samist um hið varfærna yfirfærslumat.
5. Við afhendinguna var jafnframt látið hjá líða að reikna upp áfallna vexti á RIKH ríkisskuldabréfunum sem bankarnir höfðu fengið til fjármögnunar. Kröfuhafar fengu ríkisskuldabréfin afhent með þessum áföllnu vöxtum og fór uppgjör fram að einhverju leyti síðar með milljarða tapi ríkissjóðs.
Nei, eins og greinir undir lið 4. hér að framan fékk ríkissjóður einmitt endurgjald fyrir vaxtagreiðslur sínar sem nam þeim sömu vaxtagreiðslum. Kröfuhafar fengu aldrei þessi ríkisskuldabréf heldur voru þau hlutafé í nýju bönkunum sem ríkið fékk svo afhent til baka þegar það dró sig út.
Ég hef hér reynt að útskýra í stuttu máli þær ályktanir sem dregnar eru í skýrslu Vigdísar Hauksdóttur. Niðurstaða mín er sú að þær séu haldnar miklum ágöllum og í raun stendur ekki steinn yfir steini. Það er heldur ekki rúm til þess að fjalla um allar rangfærslurnar í meginmáli skýrslunnar í stuttri dagblaðsgrein.
***
Að lokum vil ég minnast á að ýmislegt í skýrslunni ber með sér að höfundur hennar (og þeir aðilar sem aðstoðuðu hana við gerð hennar) virðast líta á endurreisn viðskiptabankanna þriggja sem hrein fyrirtækjaviðskipti milli tveggja jafnstæðra aðila, áhugasams kaupanda og áhugasams seljanda og þar sem ríkið sem seljandi græddi ekki nóg.
Endurreisnin var hins vegar miklu víðtækara verkefni þar sem meginverkefni ríkisins var að koma upp traustu bankakerfi á Íslandi sem gæti tekið til við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og heimila. Fyrir ríkissjóð var þetta risavaxið verkefni. Við endurreisn viðskiptabankanna þriggja var aðallega beitt tveim aðferðum til að koma upp traustu fjármálakerfi og minnka fjárhagslega áhættu ríkissjóðs: 1) Fá gömlu bankana til að fallast á varfærið mat á eignum sem færðar voru til nýju bankanna og 2) Fá gömlu bankana til að taka þátt í eiginfjármögnun nýju bankanna, en þeir lögðu fram samtals 156 ma.kr.
Sanngjarnir menn og konur sem líta til traustrar stöðu fjármálakerfisins í dag og jákvæðra áhrifa endurreisnarinnar á stöðu ríkissjóðs hljóta að taka undir þá skoðun að vel hafi til tekist.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður og kom að gerð samninga við kröfuhafa föllnu bankanna sem ráðgjafi.