Undanfarin ár hafa hinar ótrúlegustu tækninýjungar litið dagsins ljós. Aukin gervigreind og sjálfvirkni auðveldar okkur öllum lífið. Snjallsímar gefa okkur aðgang að gífurlegu magni upplýsinga og aukin nettækni tryggir að við séum alltaf tengd. Orkugeirinn færir okkur nær sjálfbærari heimi á hverjum degi og við lifum lengur og lengur.
Samtímis höfum við upplifað stórkostlegar samfélagsbreytingar. Samfélagsmiðlar hafa haft gríðarleg áhrif á flæði upplýsinga og þeir hafa umbylt samskiptum okkar. Fjórða bylgja kvenréttindahreyfingarinnar og #FreeTheNipple. Fjármálakreppan, yfirstandandi stjórnmálakreppa og aukin mótmæli. Alþjóðavæðing og flóttamenn.
Hvort sem það sé til hins betra eða ekki, þá hafa mikið af þessum breytingum og nýjungum nú þegar haft töluverð áhrif hér á landi - en hafa þessi áhrif dreifst jafnt á alla Íslendinga? Fyrir nokkru kom út áhugaverð skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra þar sem staða aldamótakynslóðarinnar á Íslandi er borin saman við stöðu annara aldurshópa, sem og stöðu eldri kynslóða undanfarna tvo til þrjá áratugi. Þar kemur fram að aldamótakynslóðin er í verri hlutfallslegri fjárhagsstöðu en fyrri kynslóðir voru á sama aldursbili, að ávinningur af háskólanámi hefur minnkað verulega og að ungu fólki reynist erfiðara að eignast húsnæði en áður. Hvaða önnur vandamál lenda á herðum unga fólksins í dag?
Aðrar nýjungar hafa ekki haft mikil áhrif enn sem komið er. Þó má draga líkur að því að einhverjar þeirra leggja grunninn að miklum vandamálum í framtíðinni. Hvaða áhrif mun aukin sjálfvirkni hafa? Hver er framtíð norðurskautsins? Hvernig á að bregðast við uppgangi öfgasamtaka úti í heimi? - En á íslandi?
Mikið af vandamálum Íslands í dag lenda á herðum aldamótakynslóðarinnar og sjálfsagt þurfum við einnig að lifa við þau vandamál sem síðar koma upp lengst núverandi kjósenda. Hagstofan gaf í fyrsta, og hingað til eina, skiptið út gögn um kjörsókn eftir aldri í sveitarstjórnarkosningunum 2014. Samkvæmt þeim gögnum var kjörsókn verst hjá aldurshópum yngri en 40 ára. Þetta er áhyggjuefni fyrir allt ungt fólk sem vill taka þessum málum hörðum höndum.
Hvernig eigum við á Íslandi að takast á við þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag? Hvernig ætlum við að undirbúa okkur undir áskoranir framtíðarinnar? Aldamótakynslóðin þarf að líta inn á við. Hver eru okkar gildi? Hvaða aðgerðir samræmast þeim? Endurspegla loforð stjórnmálaflokkanna okkar hugmyndum og munu þeir standa við gefin loforð? Þessum spurningum verðum við að svara. Því ljóst er að hvort sem við mætum á kjörstað eða ekki, mun næsta kjörtímabil leggja grunninn að lífskjörum Íslendinga í áranna rás.