Skilningur á alvarlegum afleiðingum hrellikláms hefur aukist mjög að undanförnu. Hugtakið hrelliklám er engu að síður frekar nýlegt í opinberri umræðu, þó að það sé reyndar ekki nýr veruleiki að viðkvæmu kynferðislegu myndefni sé deilt án samþykkis þess sem er á myndunum. Hrelliklám hefur hins vegar komist í kastljósið vegna aukinnar tíðni þessara brota og vegna alvarlegra afleiðinga brotanna. Með tilkomu samfélagsmiðla og jafnvel sérstakra heimasíðna sem miðla efninu hefur vandinn aukist verulega og orðinn sýnilegri. Þegar myndefni hefur verið deilt á netinu er erfitt að taka það úr birtingu og mjög erfitt að eyða slíku efni.
Alvarlegar afleiðingar
En hvað er hrelliklám? Hrelliklám hefur verið skilgreint þannig að um sé að ræða opinbera birtingu á kynferðislegu myndefni án samþykkis þess sem sýndur er eða kemur fram í myndefninu. Afleiðingar af myndbirtingum sem þessum geta verið mjög alvarlegar ekki síst í tilvikum þar sem þeim fylgja persónuupplýsingar um brotaþola. Reglulega berast fréttir af fólki sem hefur fyrirfarið sér í kjölfar þeirrar niðurlægingar að efni af þeim hefur verið birt á internetinu. Nýlega var sögð frétt af ítalskri konu sem fyrirfór sér í kjölfar þess að kynlífsmyndband af henni og kærasta hennar var dreift á netið. Afleiðingar þessa urðu þær að hún þurfti að flytja úr heimabæ sínum, skipta um starf, glímdi við alvarlegan kvíða og þunglyndi og svipti sig að lokum lífi. Mikilvæg skref hafa verið stigin í þá átt að vernda þolendur slíkra brota og stefna Google er til dæmis sú að að verða við óskum þolenda hefndarkláms um að kynferðislegt myndefni þeim tengt verið fjarlægt úr leitarvélum fyrirtækisins.
Hvað á að kalla brotin?
Ekki er langt síðan að talað var um brotin sem hefndarklám. Það hugtak er hins vegar villandi því hvatir geranda að baki brotinu eru alls ekki alltaf hefnd, þó dæmigerð birtingarmynd hrellikláms sé hefnd fyrrverandi kærasta gagnvart fyrrum kærustu. Á ensku hefur hugtakið non-consensual pornography verið notað yfir þessi brot. Þegar litið er á það hugtak er ljóst að jafnvel þó að kjarni þess sé vissulega skortur á samþykki að þá stendur hugtakið klám eftir. Og klám er ekki síður villandi hugtak en hefnd auk þess sem notkun þess sem notkun orðsins klám sendir röng skilaboð til þolenda brotanna og jafnframt til samfélagsins um það hvert eðli brotsins er.
Með því að dreifa kynferðislegu myndefni án samþykkis þess sem í hlut á, er gerandinn að brjóta gegn kynferðislegum sjálfsákvörðunarrétti brotaþola og rétti hans til friðhelgi einkalífs. Afleiðing brotanna er því alltaf alvarlegt brot á friðhelgi einkalífs, sjálfsákvörðunarrétti og kynfrelsi brotaþola. Í umræðunni er hugtakið hrelliklám hins vegar að festa sig í sessi. Eðlilegra væri að fjalla um þessi brot sem grófa áreitni en klám, en á meðan brotið hefur ekki fengið annað heiti í lögum verður hér talað um hrelliklám.
Fá mál kærð til lögreglu
Ekkert lagaákvæði skilgreinir þetta brot sérstaklega í íslenskum lögum. Það getur flækt málin þegar kemur að rannsókn lögreglu og saksókn fyrir dómi. Flest mál sem varða hrelliklám og hafa leitt til útgáfu ákæru hér á landi varða dreifingu á kynferðislegu myndefni án samþykkis þess sem í hlut á. Í flestum tilvikum voru myndirnar eða myndböndin hins vegar upphaflega tekin með vitund og vilja þolenda. Í langflestum tilvikum hefur verið um að ræða fólk sem hafði áður átt í kynferðislegu sambandi og gerandi er oftast karl og þolandi kona.
Ein alvarlegasta birtingarmynd þessara brota eru mál þar sem gerendur kynferðisbrota hafa tekið myndir eða myndbönd af því þegar þeir fremja kynferðisbrot gegn þolanda og nota svo myndefnið til að brjóta enn frekar gegn brotaþolanum með því að hóta að dreifa myndefninu ef hann ekki lætur að vilja gerandans. Á þetta hefur nú þegar reynt fyrir dómi hér á landi og héraðsdómur hefur samþykkt að slík háttsemi feli í sér nauðgun. Hæstiréttur hefur þó ekki fengið málið til meðferðar svo eftir er að sjá hver niðurstaðan verður. Hótunin um að dreifa myndefninu er þá verknaðaraðferð til þess að ná fram kynferðisbroti.
Mikilvæg refsipólitísk skilaboð
Hérlendis hefur nálgun lögreglu og ákæruvalds verið sú að brotin feli bæði í sér ærumeiðingar og kynferðisbrot. Í málum þar sem brotaþoli hefur verið yngri en 18 ára hefur jafnframt verið ákært fyrir brot á barnaverndarlögum og jafnvel fyrir dreifingu á barnaníðsefni. Það er mikilvægt að gera breytingu á almennum hegningarlögum og setja sérákvæði sem gerir hrelliklám sem slíkt refsivert. Þungamiðjan í refsivernd gegn hrelliklámi er að vernda fólk gegn því að viðkvæmu persónulegu myndefni sé dreift án samþykkis, óháð því hverjar hvatir gerandans voru. Það myndi auðvelda rannsókn og saksókn þessara brota ef fyrir lægi skýrt lagaákvæði með skilgreiningu á brotinu. Slík lagasetning fæli jafnframt í sér skýr skilaboð löggjafans að um alvarleg brot sé að ræða sem nauðsynlegt er að berjast gegn.
Höfundur er á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík.