Síðastliðinn aldarfjórðung hefur verið mikill uppgangur í sjávarútvegi á Íslandi. Þeir sem yngri eru muna lítið eftir barlómnum sem hljómaði með reglulegu millibili hér á árum áður. Við sem komin erum yfir miðjan aldur munum hinsvegar vel eftir tali um gengisfellingar og mikla erfiðleika í rekstri fyrirtækja um allt land. Þessi breyting hefur þó sínar dökku hliðar.
Til að ná fram hagræði í sjávarútvegi varð mikil samþjöppun sem leiddi til byggðaröskunar. Blómlegir bæir töpuðu atvinnutækjum sínum og fólkið flutti burt. Aðallega í uppganginn á Reykjavíkursvæðinu þar sem verulegur hluti afleiddra stærða af hagræðingunni endaði. Þetta var okkur flestum sárt sem vorum í forystu íslensks sjávarútvegs á þessum tíma og beittum okkur í þessum málum. Aðgerðirnar voru nauðsynlegar til að íslenskur sjávarútvegur yrði samkeppnishæfur á alþjóðavísu og atvinnugreinin fengi stöðugleika. Ótal tilraunir voru gerðar með nýja atvinnustarfsemi í byggðunum með misjöfnum árangri. Ekkert okkar sá fram á að tækifæri til endurreisnar væru í augsýn. Við vorum ekki sérfræðingar í ferðamennsku.
Ótrúlegur hraði í fjölgun ferðamanna til Íslands hefur nú breytt landslaginu. Samkvæmt skoðanakönnunum þá koma flestir ferðamenn til Íslands til að sjá náttúru landsins. Fegurðar sem ekki er eingöngu að finna á þröngu svæði á Suðurlandinu og Suðvesturhorninu þar sem troðningur á náttúruauðlindir nálgast nú þolmörk. Með áframhaldandi stefnu þyrfti að takmarka fjölgun ferðamanna til landsins. Við sem komum úr útgerðinni eigum erfitt að með að sætta okkur við að stoppa skip okkar á miðri vertíð ef vinnslustöðvarnar hafa ekki undan. Við förum og endubætum vinnsluna til að réttur taktur fáist í virðisaukakeðjuna og auðlindir verði skynsamlega nýttar. Aðgangur ferðamanna að fallegum litlum byggðum út um allt land er mjög takmarkaður. Mjóir vegir yfir oft erfiða fjallgarða gerir ferðina erfiða og jafnvel fráhrindandi. Um allt land eru litlir flugvellir sem voru aflagðir þegar vegakerfið skánaði og innanlandsflug varð ekki samkeppnishæft. Fólkið keyrði frekar til höfuðborgarinnar en að greiða fyrir dýrt flugfargjald. Nú er hinsvegar markhópurinn annar. Ferðamenn sem vilja fá að njóta fjölbreyttrar náttúru Íslands.
Ég þakka stundum fyrir að sumir þeir sem eru að fjalla um flugvallamál á Íslandi voru ekki í útgerðinni á umbrotatímunum. Sjávarútvegurinn væri ekki kominn á þann stað sem hann er í dag með slíkum vinnubrögðum. Fyrir nokkrum árum var sett á nefnd til að meta hvort til væri önnur staðsetning fyrir flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Nefndin vann gott starf og skilaði inn niðurstöðu. Mat þeirra var að heppilegast væri að nýr flugvöllur yrði í Hvassahrauni rétt fyrir sunnan álverið í Straumsvík. En eins og oft áður komu upp efasemdaraddir sem varð til þess að málinu hefur lítt verið sinnt síðan. Gerðir hafa verið samningar milli ríkis og borgar sem smátt og smátt þrengja að möguleikanum á að Reykjavíkurflugvöllur eigi sér framtíð þar sem hann er.
Sem nýliði í ferðamennsku hef ég lagt mig fram við að skilja hverjir séu langtímahagsmunir okkar sem erum í þeirri atvinnugrein á landsbyggðinni.
Mín niðurstaða er sú að beint flug frá alþjóðaflugvelli með öflugu innanlandsflugi tryggi best hagsmuni ferðamennsku á landsbygðinni. Með tengiflugi út á land aukast möguleikar til að selja áfangastaði í fegurð minni byggða. Við verðum að læra að horfa á landið allt sem eina auðlind sem okkur ber að nýta á skynsamlegan hátt.
Ég get ekki leynt aðdáun minni á krafti stjórnenda flugfélaganna Icelandair og WOW. Frumkvæði, áræðni og hæfileikar til að lesa stöðuna rétt ásamt mikilli vinnu hjá Íslandsstofu hefur leitt af sér hjarðhegðun þar sem önnur flugfélög og ferðaskrifstofur hafa fylgt á eftir með ferðum til Íslands. Ef að rýnt er í áform þessara félaga til framtíðar þá ættu menn að gera sér grein fyrir að hugmyndum þeirra um vöxt verða sett takmörk á illa undirbúnum Keflavíkurflugvelli. Það er því einfalt mat að óraunhæft sé að láta þann flugvöll byggjast upp á skynsamlegum hraða án verulegra truflana á flugrekstri samhliða því að þróa tengiflug út á land.
Lausnin liggur því í því að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni sem þjónar bæði innanlands- og alþjóðaflugi, öllum til hagsbóta. Aðflugstilraunir verða gerðar á næstu misserum og munu skera úr um hvort að um raunhæfan möguleika sé að ræða.
Nefnt hefur verið að kostnaður við nýjan flugvöll yrði of mikill fyrir litla þjóð.
Ef að skoðaður er kostnaður fyrir Reykjavíkurborg að þurfa að þróa ný svæði fyrir byggð þá munu menn komast að því að tölur fyrir nýjan flugvöll eru ekki óyfirstíganlegar. Landið undir flugvellinum í Vatnsmýrinni er að tveimur þriðju í eigu borgarinnar og einum þriðja í eigu ríkisins. Samkvæmt framreiknuðum útreikningum sem gerðir voru fyrir nokkrum árum má ætla að verðmæti þessa lands sé um eitt hundrað milljarðar hið minnsta. Langleiðina sú upphæð sem áætlað er að nýr flugvöllur í Hvassahrauni muni kosta. Framtíðarhagsmunir Reykjavíkur liggja í að fá að byggja í Vatnsmýrinni en ekki að selja og þróa landið í bútum eða að þenja núverandi byggð enn frekar út með tilheyrandi óhagræði og neikvæðum umhverfisáhrifum. Það eru ekki hagsmunir landsbyggðarinnar að byggð í Reykjavík þróist á óhagkvæman hátt. Á þessu þarf því að finna lausn. Reykjavík og ríkissjóður verða að leggja til landið í Vatnsmýrinni sem framlag án gagngreiðslu. Landið verði selt til lífeyrissjóðanna með afhendingu eftir sex til átta ár þegar búið yrði að taka nýjan flugvöll í notkun. Fjárfesting sem ætti að vera lífeyrisjóðunum kærkomin á tímum þar sem erfitt er að finna ásættanlega ávöxtun fyrir lífeyri landsmanna.