Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég haft andstyggð á öllu stríði og hernaðarbrölti. Mér verður líkamlega flökurt þegar ég les fréttir af stríðsátökum og ímynda mér þjáningar fólksins sem eru fórnarlömbin. Yfirleitt eru þessi stríð háð á vafasömum forsendum, einhverju er haldið fram af stjórnmálamönnum eða herforingjum en yfirleitt er hinn raunverulegi tilgangur annar. Stríð eru gjarnan háð undir formerkjum frelsis og sjálfstæðis – það á að frelsa fólk undan oki einhvers. En það gerist sjaldnast. Fólkið sem átti að frelsa er hneppt í nýja ánauð ófriðar. Ofbeldi og stríð eru bæði dýr og léleg aðferð til að leysa ágreining. Þeir sem græða mest á stríðsrekstri eru ekki fólkið sem átti að frelsa heldur þeir sem selja vopnin. Það eru þeir sem hagnast mest á stríðum. Allir aðrir tapa.
Ísland byggir á langri friðarhefð. Hér hefur okkur þótt skynsamlegra að leysa ágreining með umræðum eða öðrum friðsamlegum aðferðum. Það eru ekki allar þjóðir sem eru þeirrar gæfu aðnjótandi. Jafnvel í nágrannalöndum okkar hafa geysað stríð og stundum í langan tíma. Ég tel mjög mikilvægt að friðelskandi þjóðir leggi sitt af mörkum til að stuðla að friði í heiminum. Í því sambandi gegna borgir lykilhlutverki. Borgir eru leiðandi í því að reyna að greiða úr þeim vandamálum sem helst ógna heilsu okkar og öryggi. Borgir standa þjóðríkjum langtum framar þegar kemur að mannréttindamálum og loftslagsmálum til dæmis. Eðli borga er annað en þjóðríkja. Borgir fara til dæmis aldrei í stríð við aðrar borgir.
Þegar ég var borgarstjóri reyndi ég eftir fremsta megni að beita mér í friðar- og mannréttindamálum. Ég komst að því að það getur verið erfitt að skipuleggja frið. Manni fallast stundum hendur. Að auki er maður oft sakaður um barnaskap en friðarbarátta krefst þess að maður sé í ákveðinni andstöðu við hefðbundin og ríkjandi gildi.
Hvert skref frá ófriði er skref í átt til friðar. Ég óska HÖFÐA Friðarsetri Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands innilega til hamingju. Megi þessi stofnun efla frið og friðarumræðu bæði hér heima og erlendis.