Um helgina fór ég ásamt fleiri fulltrúum Bjartar framtíðar af stað til að safna undirskriftum fyrir framboðið okkar sem og að kynna okkur fyrir gangandi vegfarendum. Allir þeir sem ég spjallaði voru mjög jákvæðir gagnvart framboðinu og voru tilbúnir að styðja okkur til góðra verka á Alþingi. Ég átti þó tvö samtöl sem mér finnst þess verðug að setjast hér niður og skrifa stuttan greinarbút í von um að hann og boðskapurinn dreifist sem víðast.
Hið fyrra var „Æjjj, ég nenni ekki að kynna mér þetta. Það breytist aldrei neitt. Ég nenni ekki að eyða tíma mínum í að reyna kynna mér framboðin og kjósa“. Ég svaraði þessum yndislega og hreinskilna einstaklingi, með þeim orðum sem ég vil að þú kæri lesandi leggir vel á minnið.
Í fyrsta lagi þá þurftu forfeður okkar að berjast fyrir lýðræði og það má aldrei smána með því að nýta ekki kosningaréttinn. Í öðru lagi þá breytist ekkert ef við stöndum ekki saman og trúum að breytingar séu afleiðing eigin ákvarðana. Stærstu stjórnmálaflokkar Íslands, sem hafa verið oftast og lengst við líði fá betri kosningu eftir því sem kosningaþátttaka minnkar því þeir flokkar eru með stóra „hollustu“hópa sem vilja ekki breytingar. Björt framtíð hefur ítrekað sýnt að hún er stjórntækt stjórnmálaafl sem hefur staðið fyrir miklum og góðum breytingum þar sem við fáum tækifæri til að vera með. Það er enginn skyldugur til að kjósa Bjarta framtíð en ef þið viljið sannarlega breytingar, trúið þá á eigin „gut feeling“ og kjósið það sem hjartað býður ykkur. Kjósið breytingar.
Annar vegfarandi benti mér góðfúslega á að Björt framtíð væri algjörlega frábært stjórnmálaafl. Við værum búin að standa okkur frábærlega á þingi og í þeim sveitarfélögum sem við eru starfandi í. Fólki gæti samt þótt erfitt að kjósa okkur því við værum ekki flokkur átaka, sem einkennir íslensk stjórnmál. Þingmenn og sveitastjórnarfólk Bjartrar framtíðar hefur sýnt það skýrt síðustu ár að það þarf ekki átök til þess að standa fyrir breytingum. Það þarf bara vinnusamt fólk með mikinn metnað fyrir því að standa sig vel við að verja almannahagsmuni. Björt framtíð ræður því ekki hvað það er sem fjölmiðlar velja að fjalla um enda ekki markmið flokksins að vekja sem mesta athygli, sem því miður fæst oftast með upphrópunum. Markmið Bjartar framtíðar er Meiri fjölbreytileiki, Minni sóun, Minna vesen og Meiri sátt. Björt framtíð er „.... lýðræðisafl sem vill breyta stjórnmálum á Íslandi þannig að þau einkennist af meiri yfirvegun, meiri trú á lýðræðislegri og upplýstri ákvarðanatöku og meiri áherslu á ábyrgð og skyldu hvers og eins til þessa að leggja fram hugmyndir og lausnir“.
Allir þeir sem eru óvissir, áhugasamir eða bara forvitnir, gefið ykkur tíma, kíkið inn á www.bjortframtid.is, snapchattið bjortframtið, twitter eða facebook síðu flokksins. Lofið mér einu, ekki gera ekki neitt.
Höfundur situr í þriðja sæti á lista Bjartar framtíðar í Suðvesturkjördæmi.