Nútímanum fylgir aragrúi tölvukerfa sem eru samtengd með ýmsum hætti. Flest þessi kerfi eru stór, flókin, og oftar en ekki eru þau smíðuð án mikils tillits til öryggisþátta. Einnig eru kerfi forrituð miðað við aðstæður sem þá eru, en ekki uppfærð til að mæta nýjum kröfum eða verjast nýjum hættum í öryggi.
Eitt af tölvukerfum hins opinbera hér á landi er Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis sem stofnað var til með lögum árið 1994 og var kominn í fulla notkun árið 2005, með aðkomu Landlæknisembættisins, Tryggingastofnunar og Lyfjastofnunar.
Tæknileg kerfislýsing Lyfjagagnagrunnsins kemur fram í kerfishandbók, dagsettri 30. mars 2005. Ekki hefur undirrituðum tekist að fá nýrri útgáfu kerfishandbókar, og má því gera ráð fyrir því að hún sé að einhverju leyti úrelt, en að öðru leyti gild. Meðal þess sem kemur fram í kerfishandbók er að að notuð er ákveðin aðferð til að dulkóða kennitölur [svokallað MD5 tætifall] til að „tæta“ kennitölur svo hægt sé að sjá tölfræði yfir lyfjanotkun einstaklinga án þess að einstaklingarnir séu persónugreinanlegir.
Hér er tvennt sem veldur áhyggjum: Annars vegar hefur verið vitað síðan 1996 að hægt er að brjóta upp MD5 tætifallið, og því var lýst sem ónothæfu til dulkóðunar árið 2004. Hins vegar er fjöldi gildra kennitalna takmarkaður og því fræðilega mögulegt að búa til tveggja dálka lista, þar sem í öðrum dálknum eru kennitölur og hinum dálknum dulkóðaða útgáfan. Þá væri hægt að persónugreina alla í gagnagrunninum með því að fletta upp í töflunni því dulkóðunaraðferðin er ónýt og öllum ljós sem vilja.
Það tók undirrituð um fjórar mínútur að smíða forrit sem bjó til slíka töflu. Síðan tók innan við 20 mínútur að finna út hvaða kennitala leyndist bak við hverja dulkóðun. Sem betur fer hefur lyfjagagnagrunnurinn ekki lekið út á netið. Hins vegar hafa gögn úr honum, á dulkóðuðu formi, verið afhent ýmsum. Má þar nefna vísindamenn, lyfjafyrirtæki og opinberar stofnanir.
Þá að öðrum þætti kerfisins. Í kerfishandbókinni er því lýst að gagnagrunnurinn sé hýstur á tölvu sem notar Suse Enterprise Server 9 stýrikerfið. Það er vel mögulegt að annað stýrikerfi sé nú tekið við, en sé sama stýrikerfi enn notað blasir við ákveðið vandamál: Suse Enterprise Server 9 var síðast uppfært árið 2007. Öryggisuppfærslur fyrir kerfið hættu að berast árið 2011, en þá höfðu 1447 öryggisholur fundist í kerfinu á líftíma þess. Ótal nýir gallar hafa fundist í hugbúnaði sem fylgdi því kerfi síðan.
Nýrri útgáfa af lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis er nú sögð vera komin í notkun, smám saman frá árinu 2012. Á hana reyndi í mars þegar innkalla þurfti amfetamíntöflur íslensks lyfjaframleiðanda, af því að þær reyndust við magngreiningu innihalda ónægt magn af amfetamíni. Lyfjastofnun fékk þá úr lyfjagagnagrunninum lista yfir lækna sem ávísað höfðu umræddu amfetamíni og ætlunin var að fræða læknana fljótt og vel um mögulegar lausnir á vandamálum tengdum innkölluninni. Ekki vildi betur til en svo að listinn yfir 43 lækna sem sagðir voru hafa ávísað lyfinu innihélt nöfn 7 lækna sem ekki höfðu ávísað því, og á aðra 7 lækna var skráð rangt magn ávísaðs amfetamíns.
Þetta uppgötvaðist þegar einn læknanna 7 sem engu höfðu ávísað lét vita að amfetamíninu hefði hann ekki ávísað. Skýring Embættis landlæknis, sem send var til Lyfjastofnunar í apríl, var að um forritunarvillu og undantekningartilvik væri að ræða. Þar sem sú skýring hljómaði ekki mjög sennilega báðum við Embætti landlæknis um gögnin sem lægju til grundvallar skýringunni, og svohljóðandi svar barst þegar langt var liðið á september: „E(mbætti)L(andlæknis) er enn að rannsaka hvað fór úrskeiðis við umrætt atvik. Jafnskjótt og því er lokið mun embættið senda þér viðkomandi gögn.“ Þannig höfðu villur sem í apríl voru kallaðar „forritunarvillur“ þurft frekari rannsókna við, og þeim var enn ekki lokið undir lok september, eftir nærri hálfs árs vinnu.
Ekki er algengt að lyf á Íslandsmarkaði séu innkölluð vegna galla ─ slíkt má telja algjör undantekningartilvik, og líklega er einsdæmi að reynt sé að hafa not af lyfjagagnagrunninum í slíku samhengi. Hins vegar er afar áríðandi þegar innkalla þarf mikilvirk lyf (í þessu tilviki líka misnotanlegt lyf, og í hæsta eftirlitsflokki), að réttar upplýsingar fáist um ávísendur. Réttar upplýsingar geta í svipuðum tilvikum jafnvel skilið milli lífs og dauða.
Þar sem beiðnin er líklega einsdæmi er svarið við henni væntanlega einnig einsdæmi. Þegar svarið er með þessum hætti og að auki er vitað um fleiri villur og vandamál, jafnvel með svipaðri tíðni (~ 30% rangt), hlýtur sú spurning að vakna hvort Embættið geti fullyrt að svona forritunarvillur séu undantekningartilvik, eða hvort mögulega sé nær lagi að tala um almenna reglu, sé byggt á þessari einu hrapallega mislukkuðu afgreiðslu sem og vísbendingum um önnur kerfisvandamál í Lyfjagagnagrunni.
Lyfjagagnagrunnurinn er í rauninni bara eitt af fjölmörgum kerfum sem mismunandi ríkisstofnanir sjá um. Það er ekkert sem bendir til verra eða betra öryggis í honum en í en öðrum opinberum kerfum. Kerfið hefur líklega verið uppfært að einhverju marki umfram það sem er lýst í kerfishandbókinni. En Lyfjagagnagrunnurinn er mjög gott dæmi um kerfi sem eru miklir þjóðfélagslegir hagsmunir fólgnir í að vernda gegn innbrotum, árásum, hönnunargöllum, innstreymi rangra upplýsinga og úreltum forritunarlausnum.
Mikil þörf er á því að koma öryggis- og gæðamálum þeirra tölvukerfa sem ríkið notar í skynsamt horf. Mörg kerfi eru vel hönnuð og vel varin, en mörg önnur eru börn síns tíma. Ekkert heildstætt yfirlit er til yfir hvaða kerfi ríkið notar, hvenær þau voru síðast uppfærð, eða hver ber ábyrgð á þeim. Þetta þarf að laga.
Ingunn er dósent í lyfjafræði við Oslóarháskóla og Smári er oddviti Pírata í Suðurkjördæmi.