Staðan í íslenskum stjórnmálum nú er sérstök. Eftir fordæmalausa atburðarrás frá vordögum ganga íslenskir kjósendur að kjörborðinu nú í lok október til þess að kjósa nýja ríkisstjórn.
Á hægri væng stjórnmálanna er staðan þannig að hann er klofinn í tvennt. Miðjan er eitt flakandi sár eftir það sem má kalla ,,Sturlungaöld hina síðari“ innan Framsóknarflokksins, bræðravíg, botnlausa fýlu og almenn leiðindi. Fylgi jafnaðarmannaflokksins er í sögulegu lágmarki og stendur Samfylkingin ekki undir nafni, enda fylgistalan samkvæmt könnunum komin í eins stafs tölu.
Því hljóta kjósendur að leita í nýjar áttir. Dögun er stjórnmálaafl sem á rætur að rekja til banka og efnahagshrunins árið 2008, þegar óheft frjálshyggju og spillt fjármálaöfl og einstaklingar kollkeyrðu næstu þjóðarskútuna.
Einkunnarorð Dögunar eru sanngirni, réttlæti og lýðræði. Þessi orð ramma inn hugmyndafræði flokksins, sem berst fyrir almannahagsmunum og gegn sérhagsmunum.
Umbætur á fjármálakerfi
Ein af grunnhugmyndum Dögunar er að gera róttækar umbætur á fjármálakerfi landsins, sem ekki vinnur með hag almennings að leiðarljósi, heldur hag hluthafanna og eigendanna. Gróði bankanna frá Hruni er ævintýralegur, eða um 500 milljarðar króna. Það um 30% af þjóðarframleiðslu Íslands á einu ári. Hefur þessi hagnaður farið í að lækka vexti? Svarið er nei. Hann hefur farið eitthvað allt annað, mikið í vasa eigendanna og bónusgreiðslur sem vekja velgju meðal almennings.
Nýr Samfélagsbanki fyrir fólk og fyrirtæki
Stofnun Samfélagsbanka er ein af megin hugmyndum Dögunar. Í sem stystu máli gengur hún út á stofnun banka sem hefur það að markmiði að vinna að hag almennings og fyrirtækja landsins. Grunnhugmyndin er að hagnaði af bankastarfseminni verði veitt aftur úr í atvinnulífið og til viðskiptavina bankanna, til þess að byggja upp og rækta atvinnustarfsemina í landinu. Í Þýskalandi er til dæmis bankastarfsemi af þessu tagi með um 50 milljónir viðskiptavina, en þýskt atvinnulíf byggir að mestu leyti á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Þetta er hugmynd sem svo sannarlega er vert að skoða á bankamarkaði, þar sem þrír (nánast alveg eins bankar) drottna yfir markaðnum og hafa viðskiptavini sín gjörsamlega í vasanum. Þess ber að geta að samfélagsbankar hafa það að markmiði að stunda ekki ,,spilavítis“ eða áhættustarfsemi, en það er einmitt sá þáttur sem fór hvað verst með okkur Íslendinga í Hruninu.
Blandaðar lausnir
Á heildina litið er Dögun afl sem berst fyrir blönduðum lausnum, bæði opinberum og einkamarkaðslausnum. Dögun vill til dæmis að allur fiskur verði seldur á markaði, en flokkurinn vill líka tryggja hágæða menntun og heilsugæslu, sem hvort tveggja er fjármagnað með sköttum almennings.
Þá leggur Dögun mikla áherslu á fjölbreyttari úrræði í húsnæðismálum, en segja má að sú séreignastefna sem verið hefur við lýði sé gengin sér til húðar, enda menn teknir við að iðka ýmsar skottulækningar á því sviði.
Húsnæðisöryggi = mannréttindi
Til dæmis að setja á kerfi þar sem fólk notar séreignasparnað (sem ætlaður er til ellilífeyris að starfsferli loknum) til að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Auðvitað á ungt fólk að kaupa sér sína fyrstu íbúð á alt öðrum forsendum en þessum. Dögun vill til skapa heilbrigðan leigumarkað (sem einkennist í dag af okri) og skapa rými fyrir samvinnufélög sem eru óhagnaðardrifinn, til dæmis á sviði leiguréttar. Húsnæðisöryggi er mannréttindamál að mati Dögunar, en fjölmargir hafa miklar áhyggjur af möguleikum ungs fólks á húnsæðismarkaði framtíðarinnar, enda verð á húsnæði gríðarhátt. Sem er að hluta til vegna svimandi vaxtastigs í landinu, en það er í raun efni í aðra grein.
Lesandi góður. Í þessari stuttu grein hef ég reynt að gera örlitla grein fyrir nokkrum veigamiklum stefnumálum Dögunar, samtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu okkar, www.xdogun.is. Hvet ég til þess að skoða hana vel og velta alvarlega fyrir þér því sem þar stendur. Listabókstafur Dögunar er T. Góðar stundir.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og kennari og skipar þriðja sætið á lista Dögunar í Suðvesturkjördæmi (Kraganum).