Verðtryggingin er sögð vera rót alls ills, hún haldi fólki frá því að eignast nokkurn tímann íbúðina sína og haldi fólki í fátæktargildru lánastofnana. Hana verði að afnema hið snarasta.
Svo eru þeir sem segja að það sé ekkert hægt að afnema hana. En það var nú samt gert á einhvern hátt, en að vísu bara fyrir þau 25% af Íslendingum sem þurftu enga hjálp. Hinir mega halda áfram að taka verðtryggð lán.
Hvað er verra en verðtryggingin? Verðtryggingarumræðan!
En ef eitthvað er verra er verðtryggingin sjálf, er það sennilega verðtryggingarumræðan. Ég hata hana meira en ég hata Icesave-bollann.
Vextir! Verðbætur! Vísitala neysluverðs! Leiðréttingin! Verðbólgubál! Gjaldeyrishöft!
Viðreisn er með lausnina til að afnema verðtryggingarumræðuna með því að gera verðtrygginguna óþarfa. Þetta er gert með því að festa gengi íslensku krónunnar við evru. Við það lækkar verðbólga svo mikið að verðtryggingin hættir að skipta nokkru máli.
Þetta er enginn svartigaldur sem Viðreisn fattaði upp á. Seðlabankinn lagði þetta til sem eina lausn í 600 blaðsíðna bók sem skrifuð var fyrir nokkrum árum, en þar er þetta fyrirkomulag kallað myntráð. Mörg önnur lönd hafa gert þetta.
Lausnin krefst þess að fyrirtæki og launþegar séu með í ráðum, ríkið vandi sig við að stjórna buddunni og að Seðlabankinn eigi haug af evrum niðrí kjallara. Fyrirtæki og launþegar yrðu himinlifandi að fá betri krónu, ríkið er þrátt fyrir allt að verða betra í að stjórna peningunum sínum, og gjaldeyrisvaraforðinn er nú þegar orðinn svo stór að Jóakim Aðalönd fer hjá sér (takk túristar!).
Viðreisn er eini flokkurinn sem hefur tekið þessa hugmynd Seðlabankans upp á sína arma. Aðrir flokkar mega gjarnan taka upp hugmyndina. Seðlabankinn má meira að segja fá kreditið.
En það er meira
Til viðbótar við að losna við verðtryggingarumræðuna hefur myntráð í för með sér lægri vexti sem lækkar húsnæðiskostnað um tugi þúsunda króna á mánuði og auðveldar fyrirtækjum að byggja sig upp á Íslandi.
Svoleiðis er það á hinum Norðurlöndunum. Af hverju ætti það ekki að vera hægt hér líka?
Höfundur er oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.