Auglýsing

Í gær voru samþykkt lög á Alþingi sem fella niður fjármagnshöft á almenning að mestu. Frumvarpið var lagt fram 17. ágúst og var samþykkt einróma í gær. Þó ennþá verði fyrir hendi takmarkanir á fjármagnsflutningum, þá er þetta stórt og sögulegt augnablik fyrir land og þjóð og er áhrifamikill vitnisburður um að við séum á réttri leið eftir hið einstaka efnahagshrun dagana 7. til 9. október 2008.

Seðlabankinn hefur nú áhrifameiri tól en áður til að tryggja fjármálastöðugleika, meðal annars með reglu um bind­ingu reið­u­fjár vegna nýs inn­­­­­streymis erlends gjald­eyris sem á að draga úr hættulegum afleiðingum vegna svokallaðra vaxta­muna­við­­­skipa. Þá eru allar meiriháttar fjármagnshreyfingar og fjárfestingar úr landi háðar samþykki Seðlabankans, en almenningur getur farið að fjárfesta erlendis og hefur meira frelsi til ráðstöfunar á sínum fjármunum en áður.

Nú er það ekki bara elítan sem getur átt sparnað sinn erlendis.

Full ástæða til að hrósa

Það kann að vera að það sé ekki til mikilla vinsælda fallið hjá fólki, að hrósa stjórnmálamönnum og sérfræðingum sem starfa með þeim, innan og utan ráðuneyta og stofnanna ríkisins, en nú er full ástæða til þess að gera það. Stjórnmálamenn og sérfræðingar sem unnið hafa með þeim hafa staðið sig vel á undanförnum átta árum við að rétta af þjóðarskútuna, eða í það minnsta stuðla að því með aðgerðum sem að þeim snúa. Losun hafta er stórmál og var tæknilega flókið viðfangsefni, viðamikið og um margt spennuþrungið, enda miklir ólíkir hagsmunir í húfi.

Auglýsing

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, getur verið ánægður með stöðuna og þau verk sem unnin hafa verið á árinu sem tengjast þessari mikilvægu vinnu, að losa um höftin. Það sama má segja um Má Guðmundsson seðlabankastjóra.

Skuldastaða þjóðarbússins gagnvart útlöndum er um þessar mundir með ólíkindum góð, og hefur ekki verið betri í áratugi. Skuldir í erlendri mynt við útlönd eru litlar sem engar hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, og nær eingöngu bundnar við fyrirtæki með tekjur í erlendri mynt. Má þar nefna orkufyrirtækin, stærstu sjávarútvegsfyrirtækin og síðan íslensk fyrirtæki sem starfa á erlendum mörkuðum eins og Marel og Össur.

Fjármálakerfið í höndum almennings

Íslenska fjármálakerfið er nú að mestu fjármagnað af almenningi, sem jafnframt á kerfið að mestu leyti. Um 80 prósent af því er í eigu ríkisins, og eigið féð – mun traustara en það var fyrir hrun – er tæplega 500 milljarðar króna.

Löngu tímabært er að leiða til lykta rökræður um hvernig fjármálakerfið á að vera skipulagt, og á hvaða þáttum á að bera bakábyrgð ríkisins og hverjum ekki. 

Átta árum eftir að íslenskur almenningur var ráðþrota og hræddur, í kjölfar einstaks efnahagshruns, er Ísland nú með sterka stöðu í samanburði við flest þróuð ríki heimsins.

Neyðarlögin og fjármagnshöftin reyndust Íslandi áhrifamikil hjálpartæki á ögurstundu. Til slíkra ráðstafana gátu önnur ríki ekki gripið til með sambærilegum hætti. Hrunið var svo stórt og umfangsmikið að neyðaraðgerðir voru óumflýjanlegar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fengið sitt til baka, og ríkið skuldar honum ekkert. 

Þegar ég er að tala við fólk hér í útlöndum, sem spyr hvernig Íslandi gengur núna, þá verður það nær undantekningalaust hissa á því hversu staðan er sterk.

Fjórir punktar eru sérstaklega jákvæðir.

  1. Ríkið skuldar nú innan við 60 prósent af árlegri landsframleiðslu, sem telst lítið í samanburði við flest önnur þróuð ríki. Skuldirnar voru hærri en 100 prósent eftir hrunið.
  2. Verðbólga er 1,8 prósent og hefur verið undir 2,5 prósent markmiðinu í á þriðja ár. Þetta hefur verið lykilatriði í efnahagsbatanum undanfarin misseri. 
  3. Fjármagnshöft hafa verið losuð og tól leidd í lög sem gera Seðlabanka Íslands mögulegt að bregðast við erfiðleikum og ójafnvægi.
  4. Skuldir íslenskra fyrirtækja, heimila og hins opinbera (ríki og sveitarfélög) eru að litlu leyti í erlendri mynt eða við útlönd. Þetta er stórt mál í mínum huga, eins og áður sagði, sem hjálpar til við að taka á málum þegar efnhagsþróun erlendis fer að hafa mikil áhrif á Íslandi, eins og gerist reglulega.

Alltaf má þó gera betur, og það á við um Ísland eins og önnur ríki.

Sérstaklega þurfa að stjórnmálamenn að ákveða hvernig fjármálakerfið á að virka til framtíðar litið, og reyna að hindra að fífldirfska geti ráðið ferðinni aftur með miklu tjóni fyrir almenning. Dómar hafa nú endurtekið staðfest það, að lögbrot voru framin um langt skeið á fjármálamarkaði fram að hruninu. 

Eins er full ástæða til að þess fyrir stjórnvöld að huga að innviðum landsins, ekki síst vegna þeirrar miklu sóknar sem hefur verið hingað til lands frá erlendum ferðamönnum. Á innan við fimm árum hefur ferðaþjónusta í landinu umturnast og spár benda til þess að gjaldeyrisinnspýting vegna hennar verði yfir 500 milljarðar á næsta ári, og á þessu ári yfir 400 milljarðar. Þetta eru miklar stærði og full ástæða til að spyrja að því hvort ekki sé nauðsynlegt að styrkja samgöngur, aðstöðu í þjóðgörðum og á sama tíma styrkja tekjustofna sveitarfélaga vítt og breitt um landið, til að innviðirnir verði betri og sterkari.

Kosningarnar 29. október ættu ekki að snúast um tiltektina eftir hrunið. Henni er lokið að mestu, og ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar geta verið stolt af því hvernig til tókst.

Miklu frekar ættu kosningarnar að snúast um framtíðarsýnina. Hvernig er eðlilegt að haga auðlindanýtingu? Hvernig ætlar Ísland að uppfylla Parísarsáttmálann? Samrýmist það honum að vera að bora eftir olíu í íslenskri lögsögu? Hvernig á takast á við misskiptingu auðs? Hvernig verður nýsköpun efld? Og síðast en ekki síst; hvernig á að standa að uppbyggingu heilbrigðis- og menntaþjónustu í landinu? Þaðan hafa borist hálfgerð neyðaróp að undanförnu sem full ástæða er til að taka alvarlega. 

Hið almenna deilumál um hvernig eigi að forgangsraða í ríkisrekstrinum verður einnig jafn krefjandi næstu misserin og það hefur verið til þessa. 

Krefjandi hagstjórn

Eins og alltaf er raunin með Ísland, þá mun þróun erlendis hafa mikil áhrif og okkar örsmáa einangraða hagkerfi. Olíuverð hefur til dæmis hækkað um 100 prósent á hálfu ári á erlendum mörkuðum. Tunnan af hráolíu hefur farið úr 26 Bandaríkjadölum í 52, og útlit fyrir að það geti farið hækkandi á næstunni. Það mun skila sér í aukinni verðbólgu á Íslandi.

OPEC ríkin munu eiga formlegan fund í nóvember og verður þar tekin ákvörðun um, hvort draga eigi úr olíuframleiðslu og í hversu miklu mæli. Ákvörðunin getur haft mikil áhrif á eignaverð á mörkuðum, og stuðlað að mikilli verðhækkun á olíu ef ákveðið verður að draga úr framleiðslu. Sádí-Arabía er stærsti olíuframleiðandinn innan OPEC og hefur mest áhrif á það hvað ákveðið verður að gera. 

Allra augu á genginu

Gengi krónunnar er líka áhættuþáttur fyrir Íslenska hagkerfið. Má þar nefna, að stærstu skráðu fyrirtæki landsins, Icelandair, Marel og Össur, eru öll með efnahag í erlendri mynt og styrking krónunnar getur haft mikil áhrif á verðmæti þeirra í krónum talið. Að undanförnu hefur verðmæti félaga fallið nokkuð, og styrking krónunnar á vafalítið sinn þátt í því. Þá hafa þau viðhorf komið fram að undanförnu, að gengi krónunnar hafi lengi verið „falskt“ vegna inngripa Seðlabankans á gjaldeyrismarkað. Nú eru þau mun minni, og vel hugsanlegt að krónan muni styrkjast töluvert á næstunni. Kannski fer evran í átt að hundrað krónum, en hún kostar nú 127 krónur. Fyrir ári síðan kostaði hún 150 krónur.

Sjávarútvegurinn er einnig viðkvæmur fyrir gengisþróuninni.

Í ljósi sögunnar er full ástæða til að fylgjast vel með genginu. Í raun ættu allra augu að vera á því.

Afnám hafta eru merkileg tímamót og ástæða til að gleðjast yfir þeim. Staðan á Íslandi er að mörgu leyti góð í augnablikinu, en hún getur breyst á skömmum tíma til hins verra eins og sagan geymir mörg dæmi um. Deilurnar um hvernig samfélag við viljum búa til fyrir kynslóðir framtíðinnar verða vafalítið áfram harðar, en vonandi þokast hlutirnir í rétta átt eins og þeir hafa gert á undanförnum árum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari
None