Einu hefur fráfarandi ríkisstjórn hægriflokkanna orðið nokkuð góð í. Hún er frekar flink við að finna hjáleiðir til að ná umdeildum málum fram án þess að fara með þau í gegnum þingið. Þetta er hæfileiki sem umdeildum stjórnarflokkum finnst örugglega eftirsóknarverður, en er ekki jafngóður fyrir lýðræðið. Dæmin um það hvernig hefur verið svindlað á þinginu á þessu kjörtímabili eru orðin óþægilega mörg.
Græna hagkerfinu og ESB sópað burt
Þannig lét Sigmundur Davíð aðgerðaráætlun um eflingu græna hagkerfisins gufa upp fljótlega eftir að hann settist í forsætisráðuneytið. Áætlunin var samþykkt í þverpólitískri sátt allra flokka á sínum tíma. En af því að það gerðist í tíð fyrri ríkisstjórnar fannst hægristjórninni hún ekki vera bundin af ályktuninni og skrúfaði fyrir fjárveitingu til græna hagkerfisins í sínum fyrstu fjárlögum.
Svipaðri aðferð var beitt við þegar Gunnar Bragi lét hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Fyrst reyndi hann að fara með málið í gegnum þingið og ætlaði að fá það til að samþykkja formlega að slíta viðræðum. Þegar hann sá hversu umdeild sú tillaga var, m.a. vegna þess að ekki var gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, dró hann það til baka. Ári seinna læddist hann svo til að rétta ráðamönnum í Brussel bréf um að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki – algjörlega án aðkomu Alþingis.
Rammaáætlun og raflínur næst
Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða hefur ekki farið varhluta af þessu. Kannski hefur það eitthvað dregið kraftinn úr starfi verkefnastjórnar að með fyrstu verkum Sigurðar Inga sem umhverfis- og auðlindaráðherra var að tala um að mætti fara að leggja umhverfisráðuneytið niður. Það metnaðarleysi ráðherrans hefur kannski orðið þess valdandi að tveir faghópanna sem áttu að fjalla um landsvæði í rammaáætlun voru ekki skipaðir fyrr en vorið 2014 – þ.e. ári eftir kosningar – en hinir tveir voru ekki skipaðir fyrr en í kringum sumarið 2015.
Enda kemur á daginn að stór hluti gagnrýninnar á tillögu umhverfisráðherra um rammaáætlun snýr akkúrat að því að verkefnastjórn rammaáætlunar hafi ekki fjallað nógu vel um virkjanakosti. Þetta er bein afleiðing þess tímahraks sem var búið til með pólitískri forgangsröðun – en var síðan notað af Jóni Gunnarssyni til að réttlæta að klippa rammaáætlunina í sundur og samþykkja bara þann hluta rammaáætlunar sem snýr að nýtingu. Sem betur fer lét þingið ekki stýrast af þessari heimatilbúnu tímapressu stjórnarflokkanna. Hægt verður að fjalla um rammaáætlun af yfirvegun eftir kosningar.
Og þá erum við komin að einu stærsta álitamáli þessarar ríkisstjórnar. Frumvarpi iðnaðarráðherra um raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Hefði frumvarpið náð fram að ganga hefði það kippt úr sambandi ótal mikilvægum ferlum sem tryggja aðkomu almennings og sveitarstjórna að mikilvægum málum. En hvaðan kom tímapressan?
Þegar iðnaðarráðherra lagði frumvarpið um Bakka-línurnar fram á þingi sagði hún ástæðuna vera þá að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála myndi ekki ljúka við málið fyrr en í árslok. Lagasetning væri eina leiðin til að klára málið hraðar. Nokkru síðast kom í ljós að úrskurðanna væri að vænta innan tíðar þannig að þau rök urðu léttvæg. Þegar upp var staðið lá úrskurður í málinu fyrir áður en þingið gat afgreitt frumvarp iðnaðarráðherra.
Dæmin hrannast upp
Tína mætti til ótalmörg dæmi til viðbótar.
Þannig var t.d. gríðarleg stefnubreyting í menntamálum, þegar framhaldsskólum var lokað fólki yfir 25 ára aldri, afgreidd í gegnum fjárlög. Ekki með sérstöku frumvarpi um aldurstakmörk í framhaldsskólum, sem hefði tryggt eðlilega umræðu um stefnuna.
Engin samgönguáætlun var samþykkt framan af kjörtímabili, þannig að ákvarðanir um fjárveitingar voru teknar án heildarsýnar í gegnum fjárlög hvers árs. Loksins þegar samgönguáætlun var samþykkt nú í október 2016 var ríkisstjórnin fallin svo rosalega á tíma að áætlunin gildir 2015-2018!
Og hvernig stendur á því að ekki er búið að friðlýsa eitt einasta svæði í verndarflokki rammaáætlunar, rúmum þremur árum eftir að hún var samþykkt á Alþingi? Skyldi það vera vegna þess að umhverfisráðherrar Framsóknarflokksins hafa enga áherslu lagt á náttúruvernd?
Einn stærsti lærdómurinn sem við áttum að draga eftir hrunið samkvæmt leiðsögn rannsóknarnefndar Alþingis var sá að leitast við að bæta lagasetningu og efla sjálfstæði Alþingis. Hvorugt hefur gengið eftir í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ítrekað koma mál vanbúin frá ríkisstjórninni og ætlast er til þess að Alþingi þrýsti málum í gegn á meirihlutaafli. Ef það dugar ekki, þá leita ráðherrarnir hjáleiða til að þurfa ekki að sannfæra þingið um ágæti eigin mála.
Mantran hjá stjórnarliðinu er skýr: Árangur áfram, ekkert stopp! Drífa málin í gegn, sérstaklega þegar styttist í kosningar. Ekki hlusta á rök sérfræðinga. Ekki hleypa almenningi að málum. Ekki vanda sig.
Er ekki komið nóg af fúski inni á þingi?
Höfundur skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður.