Ég man vel eftir 24. október 2005. Þá var ég í Háskólanum og kvenstúdentar fjölmenntu niður á Austurvöll. Við gengum saman frá HÍ kl. 14.08. Fæstar okkar voru með reynslu af vinnumarkaðnum og ég held að flestar okkar hafi gert ráð fyrir því að jafnréttismálin væru á réttri leið og að við ættum ekki eftir að þurfa að díla við launamuninn þegar við værum komnar í vinnu.
Því er alltaf haldið fram að Ísland sé best í heimi þegar kemur að jafnrétti. Við toppum einhvern lista sem mælir það ár eftir ár. En staðreyndin er sú að í engu ríki heims er jafnrétti. Það er því varla hægt að tala um að vera bestur í þessu. Ísland er í besta falli skást í heimi þegar kemur að jafnrétti en ekkert land er nógu gott til að vera best.
Einn angi jafnréttis sem á eftir að laga heilmikið er launamunur kynjanna. Konur eru með tæplega 30% lægri laun en karlar. Ég bjóst ekki við því að staðan yrði sú þegar ég gekk niður á Austurvöll fyrir 11 árum. Staðan er nánast sú sama og hún var þá. Við höfum grætt hálftíma, því konur ætla að ganga af vinnustöðum sínum kl. 14.38 þann 24. október næstkomandi. Ég nenni ekki einu sinni að reikna út hvenær launajafnrétti verður náð ef við spýtum ekki í lófana. Því við verðum að spýta í lófana. Mismunun er bönnuð og greiða skal sömu laun fyrir sambærileg störf. Samt verða konur fyrir mismunun og fá lægri laun. Þær leiðir sem beitt hefur verið hingað til hafa augljóslega ekki virkað. Við þurfum að gera meira og við þurfum að gera það strax. Hér eru nokkrar tillögur:
Stjórnendur fyrirtækja og stofnana! Endilega farið yfir launasetningu starfsfólks ykkar og leiðréttið ef þörf krefur. Afnemið launaleynd hjá ykkar fyrirtæki eða stofnun.
Þingmenn og ráðherrar! Kannið af hverju núverandi lög virka ekki og bætið úr. Setjið harðari viðurlög við brotum á jafnréttislögum.
Konur! Leggið niður störf á mánudaginn, 24. október kl. 14.38 og mætið á Austurvöll. Sýnum samstöðu og sýnum að við höfum fengið nóg.
Ég vona innilega að þær ungu konur sem mæta á mánudaginn þurfi ekki að standa í mínum sporum eftir 11 ár. Lögum þetta núna og færumst aðeins nær því að vera best í heimi í jafnrétti.
Höfundur er ritari Kvenréttindafélags Íslands og lögmaður Rafiðnaðarsambandsins.