Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn boðað almannavæðingu bankanna, að öllum landslýð verði gefin hlutabréf í bönkunum „til að tryggja dreifða eignaraðild“. Þetta gerist auðvitað í framhaldi af því að ofurtrúin á einkavæðingu og nýfrjálshyggju Davíðs Oddssonar (13,7%) og Hannesar Hólmsteins er þrotin innan flokksins og fjármálaráðherrann þorir ekki að gefa Engeyjarættinni bankana beint . Skemmst er að minnast einkavæðingu Síldarverksmiðja Ríkisins, Bankanna og Símans. Fræg er sagan um einkavæðingu Áburðarverksmiðju ríkisins, en sagt er að tryggir flokksmenn hafi boðið 300 milljónir í aðstöðuna og verksmiðju, þegar kunnur athafnamaður bauð 800 milljónir króna. Flokksdyndlarnir buðu þá 500 milljónir kr og fengu. Einn dindlanna hringdi á í athafnamanninn og sagði dimmum rómi: “Þú ert búin að vera okkur dýr“.
Auðvitað er langt síðan allir málsmetandi menn gerðu sér grein fyrir svikamyllu Einkavæðingarinnar, sem snýst fyrst og fremst um að féfletta almenning og ríkissjóð en ekki hagkvæmni. Meira að segja höfundur ósýnilegu handarinnar, Adam Smith, segir í sinni bók um auðlegð þjóðanna, að menn í viðskiptalífinu séu ekki mikið fyrir félagslíf en þegar þeir hittist, sé stutt í að samtal þeirra snúist upp í samsæri gegn almenningi. Eftir að Ronald Coase ritaði sína grein um Eðli Fyrirtækja 1937, þar sem hann skilgreinir viðskiptakostnað, hélt maður að fagnaðarerindið um fullkomna eða frjálsa samkeppni væri búið að vera, ekki síst eftir að hann fékk Nóbelsverðlaun 1992. Villimannleg skaðsemi frjálshyggjunnar hefur kostað okkur Íslendinga talsvert og ekki virðist endir á, jafnvel þó svo enn einn hagfræðingurinn sem ekki er í frjálshyggjukórnum skulu nú á Nóbelsverðlaun 2016.
Í Rússlandi var þessi aðferð reynd 1992-4undir stjórn einkavæðingarráðherrans Anatolií Tsjubais, Öllum almenningi voru gefin hlutabréf í öllum ríkisfyrirtækjum. Afleiðingin var sú að hákarlarnir og flokksmenn í Kommúnistaflokknum keyptu hlutabréfin (vouchera) af félitlum almenningi fyrir slikk. Þannig urðu til svonefndir oligarkar, fákeppnisrisar sem eiga nú bróðurpartinn af því sem samfélagið átti sameiginlega. Allt var þetta gert í nafni frelsis og lýðræðis undir stjórn og ráðgjöf hjarða af amerískum hagfræðiprófessorum.
Sama er nú í ráði hér samkvæmt ráðagerð Sjálfstæðisflokksins sem er líkari flokki Pútíns , Rússneskri Einingu, en allir aðrir stjórnmálaflokkar á Vesturlöndum. Í nafni dreifðrar eignaraðildar, frelsis og lýðræðis ætla þessir menn að gefa öllum hlutabréf í bönkunum, þannig að auðvelt verður fyrir íslenska oligarka að ná meirihlutavaldi í íslenskum bönkum fyrir slikk. Þannig er komið aftan að kjósendum, það er kölluð almannavæðing sem er í raun einkavæðing aftan frá.
Höfundur er lektor í hagfræði.