Íslenska krónan er komin á leiðarenda. Saga hennar er saga skarpra sveiflna, sem stundum skilja eftir sviðna jörð, stökkbreytt verðtryggð lán – og fólk í sárum. Í gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans frá 2012 segir hreint út að krónan sé bæði uppspretta og magnari sveiflnanna sem svíða af okkur brókina.
Komum krónunni í skjól
Á Íslandi eru hæstu vextir í heimi. Þjóðin býr við sligandi verðtryggingu. Margir sem kaupa sér skjól yfir höfuð eyða ævinni hoknir af skuldaoki næstum því fram á grafarbakkann. Fáum dylst að við þurfum á nýjum gjaldmiðli að halda. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég, og minn flokkur, viljum halda áfram umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu. Til lengri tíma gefur aðild okkur kost á að taka evruna upp sem gjaldmiðil. Til skemmri tíma gefur hún okkur færi á að koma krónunni í skjól í gegnum fyrsta fasa evrópska myntsamstarfsins.
Verðtryggingin hverfur
Evran er ekki fullkominn gjaldmiðill. En hún stóð af sér allar hrinur bankakreppunnar, og styrktist gegnum hana. Þó andstæðingar Evrópu hér á landi þreytist ekki á að boða fall hennar stendur evrusvæðið traustum fótum. Í ljósi reynslu bankakreppunnar voru margvíslegar breytingar gerðar til að treysta stoðir evrunnar. Hin síðasta var samevrópskt fjármálaeftirlit – sem Íslendingar hefðu betur haft sjálfir á árunum fyrir bankahrunið. Þær breytingar hafa tekist vel. Um það er markaðurinn traustasti dómarinn.
Langþráður stöðugleiki
Evrópska myntsamstarfið getur fært okkur mikilvægan og langþráðan stöðugleika. Vextir yrðu miklu lægri en nokkru sinni er hægt að vænta í hávaxtalandi krónunnar. Við losnum við helsi verðtryggingarinnar. Bæði fyrirtæki og heimili geta skipulagt sig fram í tímann. Fjölskyldur munu ekki þurfa að greiða íbúðarverðið margfalt.
RÚV birti í vikunni frétt um að 68 % þeirra sem taka kosningapróf RÚV vilja halda aðildarferlinu áfram. Jafnaðarmenn vilja uppfylla ósk meirihluta Íslendinga og leyfa þeim að kjósa um framhald aðildarferlisins. Við viljum nýjan gjaldmiðil.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.