Tíunda sæti á lífsgæðalista OECD er ekki svo slæmt. Ef marka má íhaldssama nálgun hefðbundinna stjórnmálaflokka á nauðsynlegar kerfisbreytingar sem myndu koma okkur ofar á listann, má ætla að þar séu menn bara nokkuð sáttir. En er þjóðin sátt?
OECD gefur árlega út lista, Better Life Index, yfir stöðu mála hjá hinum 38 ríkjum samtakanna. Til grundvallar liggja þættir á borð við tekjur, atvinnuleysi, menntun, heilsu, lýðræðislega þátttöku, jafnrétti, öryggi og húsnæðismál.
Skert lífsgæði vegna ofurvaxta
Það blikka eldrauð ljós þegar húsnæðismálin eru skoðuð nánar. Ekki vegna þess að Íslendingar búi almennt illa, heldur vegna þess gríðarlega kostnaðar sem fólk þarf að kosta til, til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Að meðaltali nota Íslendingar fjórðung af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði og sitja í fimmta neðsta sæti lífsgæðalista OECD. Þetta er staðreynd, þrátt fyrir að kostnaður við ýmsa þætti húsnæðiskostnaðar eins og rafmagn og hita sé lægri hér á landi en víðast annars staðar. Eins og staðan er í dag borgum við Íslendingar heilu húsi meira af fasteignalánum okkar en nágrannar okkar á Norðurlöndum.
Enn og aftur er það staðfest að óþarflega hár vaxtakostnaður skerðir lífsgæði Íslendinga fram úr öllu hófi. Það er jafn óskiljanlegt og það er óásættanlegt að stjórnvöld hafa um árabil kosið að stinga höfðinu í sandinn í stað þess að takast á við vandann.
Vaxtakostnaður er að sliga íslenskar fjölskyldur. Himinháir vextir eru fórnarkostnaður sjálfstæðrar peningastefnu í litlu landi. En þessi veruleiki er ekkert náttúrulögmál heldur afleiðing af pólitískri sýn. Lækkun vaxta er einfaldlega ein mesta kjarabót sem hægt er að færa íslenskum heimilum.
Ofurvextir eru ekki náttúrulögmál
Íslensk þjóð hefur um áratuga skeið mátt þola ofurvexti sem eru algjörlega úr samhengi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Nú búum við um 5-6% hærri vexti en önnur Norðurlönd. Þann mun má að lágmarki lækka um helming fyrir mitt næsta kjörtímabil ef samstaða næst um aðgerðir. Sú lækkun mun samsvara um 80.000 kr. launahækkun á mánuði til heimila með 20 milljón króna húsnæðislán. Aðrar tillögur stjórnmálaflokkanna til að auðvelda húsnæðiskaup komast ekki í hálfkvisti við þetta.
Hvað er myntráðsleiðin?
Viðreisn leggur til að gengi krónunnar fest við gengi annarrar myntar, t.d. evru. Þessi gengisfesting yrði síðan studd með myndarlegum gjaldeyrisvaraforða, sem við eigum nú þegar, og öruggri hagstjórn. Þessi leið, svokölluð myntráðsleið, er tillaga Seðlabanka Íslands sem hefur með henni útfært nákvæma áætlun í átt að lægri vöxtum, stöðugu gengi og útrýmingu verðtryggingar í kjölfarið.
Er ekki komið nóg af fréttum af Íslendingum sem flýja ofurvextina? Er ekki tími til kominn að peningastefna Íslands sé mótuð með hagsmuni íslensks almenning í huga?
Höfundar skipa efsta sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík suður og annað sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík norður.