Ég flutti til Íslands átta ára gamall, árið 1988. Ég fór Melaskóla í annan bekk D. Pabbi kenndi mér nokkur orð í íslensku. “Klósettið” var þeirra fremst. Íslensku kennararnir höfðu líka lært að segja „klósettið“ á pólsku. Það er „toaleta“ sem en þau báru það reynda alltaf fram sem „tojletta“. Einhvern veginn voru allir meðvitaðir um að þessi mál mættu ekki vera í ólagi.
Fyrsta skóladaginn var farið með bekkinn í skoðunarferð um skólann, fyrir nýju krakkana. Þegar gengið var fram hjá klósettunum, var stoppað, kennslukonan leit á mig, benti á klósettin og sagði glaðbeitt: „Tojletta!“.
Ég man að mér fannst fas hennar benda til að ég þyrfti að gera eitthvað, bregðast einhvern veginn við þessum upplýsingum. Líklegast hefði verið best og nóg að svara þessu með „Já, ég skil. Takk fyrir þetta.“ En ég kunni ekki íslensku. Ég kunni ekki segja neitt.
Einhvern veginn fannst mér á þessum tíma, að eina leiðin til að koma því til skila að ég hafi móttekið skilaboðin væri að… nota klósettið.
Ég labbaði því inn á klósettið, læsti að mér, gerði mitt, sturtaði niður, labbaði út og þvoði á mér hendurnar. Meðan bekkurinn og kennarinn biður þolinmóð fyrir utan. Sem var alls ekki vandræðalegt. Alls ekki.
Pólsk börn 15 árum áður
Mér var mjög vel tekið í Melaskóla og ég á góðar minningar þaðan. Það höfðu verið pólsk börn í skólanum einhverjum 15 árum áður, það voru börn pólska sendifulltrúans á Íslandi. Eitt þeirra, Jacek Godek er í dag afkastamikill þýðandi sem snarað hefur fjölda Íslendingasagna íslenskra krimma og annarra fagurbókmennta yfir á pólsku.
Systkinin höfðu greinilega verið vel þokkuð af starfsfólkinu því minntist stundum á þau við mig, og alltaf með hlýju. En þetta segir auðvitað eitthvað um Ísland þess tíma. Erlend börn, pólsk börn, var eitthvað sem fólk mundi eftir. Á þessum tíma voru engar „aðgerðaáætlanir í málefnum barna af erlendum uppruna“. Mitt fyrsta verk var að læra „Heyrðu snöggvast Snati minn“ utanbókar.
Breytt samfélag
Margt hefur auðvitað breyst. Árið 1998 bjuggu 4 þúsund útlendinga á Íslandi, flestir þeirra Danir. Nú eru þeir 24 þúsund og flestir Pólverjar. En lögin hafa líka breyst. Það er orðið auðveldara fyrir Pólverja, og aðra EES-borgara, að koma til Íslands en það er eiginlega orðið talsvert erfiðara fyrir alla aðra.
Á þessum tíma voru í gildi lög sem hétu hinu mjög svo geðþekka nafni „lög um eftirlit með útlendingum“. En þrátt fyrir hið hreinskilna en vafasama nafn laganna var innihaldið í raun ekki svo slæmt. Pabbi kom til Íslands til að læra íslensku, ári síðar komum við fjölskyldan.
Námsmaður utan EES þyrfti í dag að koma til landsins á grundvelli dvalarleyfis vegna náms. Slíkt dvalarleyfi veitir fólki í dag ekki leyfi til að taka börn með sér til landsins, og það aflar fólki ekki sjálfkrafa leyfis til að setjast hér að eftir ákveðinn tíma. Sumt af þessu er lagað með nýju lögunum en alls ekki allt.
Löglegum leiðum lokað
Það er fullkomlega náttúrleg og mennsk þörf að ferðast á milli staða og flytja búferlum, hvort sem það er til þess að leita að betra lífi en hreinnar forvitni eða ævintýraþrár. Það er svo skrýtið að meðan ferðalög eru orðin tiltölulega ódýr hefur landamæraeftirlit, ferða- og flutningsfrelsi orðið mjög skert. Við höfum í raun öll sætt okkur við að vera komið fram við eins og brotamenn á ferðalagi.
Mörg lönd hafa gert fólki erfiðara fyrir að flytja löglega milli landa. Fyrir vikið gerir fólk það ólöglega eða nota hælis- og flóttamannaleiðina, þá einu leið sem skilin hefur verið eftir opin. Og umræðan fókusar mikið á fólk sem nýtir sér þessa leið. En í raun ætti að gera aðrar leiðir auðveldari.
Það er ekki erfitt að verja þá stefnu að örlítið meira frelsi fólks til að ferðast milli landa og blanda geði við annað fólk sé af hinu góða. Bókmenntaverk þýðast ekki yfir á framandi tungumál af sjálfu sér. Barn diplómata sem fer í íslenskan grunnskóla opnar heilan risamarkað fyrir íslenskum bókmenntum. Við sjáum það. Við sjáum ekki allt hitt sem varð ekki. Við sjáum ekki bækurnar sem ekki voru þýddar því foreldrum barnsins var snúið við í Leifsstöð.
Betri innflytjendastefnu fyrir okkur öll
Ég gekk nýverið til liðs við Viðreisn. Viðreisn er frjálslyndur, alþjóðasinnaður, innflytjendavænn flokkur sem vill hafa landið opið fólki frá löndum innan Evrópu sem utan.
Við eigum að halda í EES, norrænt samstarf og annað sem eykur möguleika fólks til að flytja milli landa. Við eigum að opna á löglegar leiðir annarra til að koma til Íslands til að læra, búa og vinna. Til að gera samfélagið okkar betra.
Því þannig tryggjum við frelsi.
Frelsi einstaklinga.
Besta frelsið.
Höfundur er í öðru sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík Suður.