Kosningaloforðin eru byrjuð að streyma frá frambjóðendum, Jói á Facebook birtir færslu um að þú eigir ekki að kjósa þennan því hann gerði þetta. Annar minnir okkur á að hér er allt svo frábært. Aðrir byrja að birta myndir af því hvaða flokk þeir ætla að kjósa líkt og um fótboltalið sé að ræða.
Í storminum sem fylgir því að innan við vika er í kosningar er gott að halda sér fast í jörðina og skoða hvaða hugmyndir og manngildi við viljum halda okkur við og hvað við viljum alls ekki.
Fær hrútur þitt atkvæði?
Hrútur er tegund stjórnmálamanns sem styður við stjórnmálamenningu gamla skólans. Eitt algengasta einkenni hrúta er að hrútskýra fyrir konum um hvað umræður snúast. Fleiri einkenni hrúta sem ættu að vera orðin útdauð í stjórnmálum:
Hollusta við flokkinn. Heldur tryggð við flokksforystuna jafnvel þó eigin samviska og eða gildismat verði undir.
Reiði. Það geta allir orðið reiðir en hrútar eru oftast reiðir nema þegar þeir segja þúsund ára gamla staðalímynda og kynhlutverks brandara þá hlægja þeir háværum hlátri.
Útvalinn: Viðhorfið er ég einn get siglt skipinu í höfn. Það kemur ekki til greina að stíga til hliðar í vafamálum til að sýna ábyrgð. Það á frekar að sýna styrk.
Typpakeppni. Hrútur hreykir sér af öllu því sem vel hefur farið. Það er auðvitað allt hrúti að þakka.
Umburðarleysi. Það er innbyggður valdahroki. Hrútur veit best hvernig samfélagið á að vera og hikar ekki við að beita boðum og bönnum. Hans smekkur er hið eina rétta.
Rógburður: Tekur gagnrýni sem árás og bendir á að einhver annar gerði mun verri hlut og réttlætir þannig rangt með röngu. Hrútur heldur að þessi aðferð sé gott PR því þá muni fólk gleyma því sem upprunalega gagnrýnin snerist um.
Eiginleikar stjórnmálamanns framtíðar
Skýr forgangsröðun og hefur almannahagsmuni að leiðarljósi: Um 80% þjóðarinnar vilja setja hærra hlutfall landsframleiðslu í heilbrigðismálin. Dæmi um aðra forgangsröðun er til að mynda allur sá fjöldi sem keyrir Reykjanesbrautina og fjöldi alvarlegra slysa, ætti að setja tvöföldun vegarins efst í forgangsröðun á samgönguáætlun. Spurningin er starfar viðkomandi á Alþingi fyrir þjóðina eða sem fulltrúi sérhagsmuna?
Heiðarleiki. Deilir með okkur hvernig viðkomandi komst að niðurstöðu og hvernig niðurstaðan er í takt við gildi og stefnu. Sleppir ölllum pólitískum hringskýringum og talar hreint út.
Auðmýkt. Það er í lagi að breyta um skoðun og í því er fólginn sjaldséður styrkur. Leitast er við að ræða málin og komast að niðurstöðu eftir að hafa skoðað allar hliðar málsins. Nýjar upplýsingar eru alltaf að berast og því þarf ekki að vera að þú hafir haft rangt fyrir þér þó þú breytir um skoðun. Svo er líka allt í lagi að segja ég hafði rangt fyrir mér.
Kærleikur: Stofnanir eru ekki fullkomnar þó þeim sé ætlað að veita úrlausn á ýmsum málum. Vera kann að einstaklingur í stjórnmálum þurfi að grípa inn í með manngæsku og kærleik að vopni ef mál einstaklinga þróast á rangan hátt.
Umhverfisvitund. Við eigum bara eina jörð og Ísland hefur allt til þess að bera til að vera í fararbroddi í umhverfismálum.
Ótengdur atvinnulífi: Til að hafa skýrt umboð og til að hafa sannarlega almannahagsmuni að leiðarljósi. Það er aldrei gott fyrir neinn að sitja beggja megin við borðið.
Ótengdur trúarbrögðum: Trúarbrögð og stjórnmál eiga að vera aðskilin. Þú getur alveg átt þér persónulega trú en þú blandar henni ekki saman við stjórnmál.
Greiningarhæfni: Færni til að setja sig inn í flókin mál, geta séð heildarmyndina og gagnrýnt þær upplýsingar sem eru rangar eða misvísandi.
Gott siðferði: Setur gott fordæmi, gerir ekki neitt sem viðkomandi myndi ekki vilja að aðrir gerðu. Notast við víðtækari skilgreiningu á siðferði sem leitast við að gjörðir beri með sér góðan karakter og áttar sig á að siðferði nær lengra en yfir lög og reglur. Ber pólitíska ábyrgð í siðferðilegum álitamálum.
Það er óumflýjanlegt að þitt eigið gildismat komi fram þegar þú spáir í því hvernig stjórnmálamenn eigi að vera. Hugsaðu því endilega um hvað þú viljir sjá og taktu það með þér í kjörklefann. Stjórnmálamenningin verður aldrei betri en stjórnmálamennirnir sem á þingi sitja.
Höfundur er með BA gráðu í stjórnmálafræði og MS gráðu í markaðsfræði.