Menning er rímorð sem þeir nota fyrir sunnan til að ríma við orðið þrenning sagði Steinn Steinnarr fóstru sína hafa sagt sér aðspurð um merkingu orðsins. Tæpri öld síðar lifum við á Íslandi í breyttum heimi þar sem umsvif og mikilvægi skapandi greina í hagkerfinu eru sívaxandi og um 20.000 manns hafa atvinnu sína af þeim. Þegar Katrín Jakobsdóttir, fomaður Vinstri grænna, var Mennta- og menningarmálaráðherra lét hún gera úttekt á umsvifum skapandi greina á Íslandi. Þetta var árið 2009 og í ljós kom að skapandi greinar, kvikmyndagerð, myndlist, hönnun, tónlist og sviðslistir tæplega 200 milljörðum á ári. Nú, sjö árum síðar má gera ráð fyrir þónokkurri aukningu á þessum umsvifum.
Þess vegna eiga skapandi greinar að vera hluti af íslenskri atvinnustefnu. Það er löngu orðið tímabært að hið opinbera viðurkenni veruleikann þegar kemur að umsvifum og mikilvægi lista og menningarlífs í landinu og hlúi að þessum sívaxandi, kvika og mikilvæga málaflokki.
Vinstri græn líta á listir og menningu sem slíkan kjarna í samfélagi okkar að ekki má láta hjá líða að ræða þennan málaflokk þegar samfélagið allt er til umfjöllunar. Menningararfur þjóðarinnar og listsköpun samtímans eru ekki aðeins mikilvæg fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar, hagkerfið og andlegt líf okkar heldur líka aðdráttarafl fyrir stærstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustuna. Sífellt fleiri ferðamenn koma til landsins til að njóta listviðburða enda er hróður Íslands að miklu leyti borinn uppi af listamönnum.
Undirstaðan í þróun skapandi greina á Íslandi er öflugur Listaháskóli. Vinstri græn vilja styðja myndarlega við starfsemi Listaháskóla Íslands og tryggja þar viðunandi framlög á nemanda og möguleika á raunverulegri uppbyggingu og framþróun skólans, bæði kennslu og rannsókna. Sterkur Listaháskóli er mikilvægasti þáttur í þróun og uppbyggingu á sviði lista í landinu. Okkur ber að virða framlag listamanna til samfélagsins og styðja við starfsemi þeirra og þróun á öllum sviðum með því að hlúa að Listaháskólanum.
Listir og menning að skipa mikilvægan sess í öflugu samfélagi og eiga mikið erindi á öllum sviðum þess ekki síst þegar sífellt meiri áherslu þarf að leggja á nýsköpun og hugvit í þróun atvinnulífsins. Vinstri græn vilja halda þessu til haga alla daga og allt árið um kring en ekki síst nú í aðdraganda kosninga með skýrum kosningaáherslum í menningarmálum.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.