Við hvað ættu Íslendingar að vinna í framtíðinni? Hvað vilja þeir vinna við? Hvers konar atvinnugreinum ættum við að hlúa að, ýta undir að fólk mennti sig í og undirbúa jarðveginn fyrir?
Eigum við að keppa við Hvíta Rússland í útflutningi á jarðvegi? Hvíta Rússland er stærsti áburðarframleiðandi Evrópu, en ég veit ekki hvort það er afleiðing af vandlega úthugsaðri stefnumótun eða bara einn af þessum hlutum sem gerist af tilviljun. Og þó Framsókn vildi blása minni kynslóð von í brjóst með áburðarverksmiðju.
Reyndar er þegar búið að kjósa um þetta, alveg óháð því sem stjórnmálamenn ákveða. Mín kynslóð hefur þegar kosið atvinnustefnu næstu ára á Íslandi með því að mennta sig. Hún stefnir augljóslega á vinnu í skapandi greinum, í hugviti, mögulega vísindastarfi eða hugbúnaðarþróun. Stjórnmálafólkið ræður bara hvar við vinnum í þessum greinum.
Hvort við gerum það í hinum Norðurlöndunum, einhvers staðar í Evrópu eða jafnvel Kanada, eða hvort við gerum það hér heima. Þetta heitir spekileki og spekilekinn hefur verið 13% síðasta áratug. (Sama hlutfall af Íslendingum flutti til Noregs og flutti frá Mexíkó til Bandaríkjanna, ef Ísland væri fjölmennara ríki væru Norðmenn sennilega að byggja vegg í miðju norðuratlantshafi).
Það er ekki bara hrunið. Það er atvinnustefna sem hugsar í plástrum eins og er oft tilhneigingin í þriðja heiminum. Þá fara pólitíkusar til Alþjóðabankans og biðja um risalán til að byggja einn risaplástur eins og risastíflu. Í stað þess að einblína á að styrkja innviði eins og samgöngukerfi, bæta samskipti með ljósleiðarakerfi og halda þjónustustigi uppi um allt land (með skólum og heilbrigðisþjónustu til dæmis) er verið að fókusa á eina stíflu og eina verksmiðju.
Svoleiðis atvinnustefna á ekki á heima á 21. öldinni. Við þurfum að móta okkur heildræna stefnu í þessum málum og setja langtímamarkmið. Ein góð leið til þess væri að halda þjóðfund þar sem atvinnulífið og almenningur eiga samtal um hvert við viljum stefna. Er það hugbúnaðargeirinn? Er það lyfjatækni? Er það hönnun eða aðrar skapandi greinar?
Tökum samtalið. Mótum langtímaáætlun. Enga plástra, ekki eina lausn heldur margar, og eitthvað sem raunverulega blæs von í brjóst ungu kynslóðarinnar.
Höfundur er frambjóðandi Pírata í Reykjavík norður.