„Þjóðarsátt“ er orð sem gjarnan ber á góma í stjórnmálaumræðunni. Pælingin er jafnan sú að ná fram víðtækri samstöðu um tiltekin málefni. En stundum virðist reyndar sem vilji þeirra stjórnmálamanna sem mest mæra sáttahuginn, standi ekki til annars eða meira en að allir aðrir felli sig að þeirra eigin skoðun. Allt um það er hugmyndin falleg.
Hún varð fyrst á allra vörum árið 1989 þegar aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld gerðu með sér samkomulag um nokkurs konar stöðugleikaáætlun, sem byggði á festu í stjórn peningamála. Bæði launþegahreyfingin og vinnuveitendur kröfðust þess að böndum yrði komið á verðbólgu svo hægt yrði að framkalla raunverulega kaupmáttaraukningu. Forsenda þess var að stjórnvöld létu af stöðugum gengisfellingum krónunnar. Niðurstaðan var að tekin var upp fastgengisstefna sem var við líði til ársins 2001 þegar krónunni var fleytt.
Nýsköpun: sátt eða ósátt
Í aðdraganda kosninga gerist það stundum að flokkar keppast við að lýsa háleitum markmiðum í tilteknum málaflokkum. Flestir flokkar gefa sig t.d. út fyrir að standa fyrir nýsköpun og atvinnulíf sem reist er á þekkingu. Færri segja til um hvernig megi byggja upp nýsköpunarhagkerfi, þótt eðlilega sé oft bent á ótvírætt mikilvægi menntakerfisins. En iðulega er horft fram hjá því, sem þó á að vera öllum ljóst, að nýsköpunarfyrirtæki þurfa stöðugt umhverfi til þess að dafna. Því er ekki til að dreifa við núverandi stöðu í gjaldeyrismálum. Enginn flokkur annar en Viðreisn hefur sett fram raunhæfar hugmyndir um framtíðarskipan peningamála, fæstir hafa svo mikið sem viðrað skoðun í þeim efnum. Það ríkir sem sagt engin sátt um eina grunnforsendu nútímalegs og framsækins atvinnulífs. Og þetta eiga frumkvöðlar ekki að þurfa að sætta sig við.
Sagt er að engar takmarkanir séu á því að nýta hugvit til þess að auka framleiðni, stuðla að hagvexti og bæta lífsgæði. En staðreyndin er sú að sveiflurnar og óstöðugleikinn sem fylgja íslensku krónunni reynast nýsköpunarfyrirtækjum þungbær. Nýlega birtist frétt á vef RÚV þar sem því var lýst að í núverandi uppsveiflu mætti nýsköpunarfyrirtækið Nox Medica búa við ígildi 22% verðbólgu vegna gengishækkunar krónunnar. Þetta ástand hefur augljóslega neikvæð áhrif á vöxt fyrirtækja. Það hefur neikvæð áhrif á sköpun eftirsóknarverðra starfa sem krefjast menntunar og sérþekkingar.
Fjármögnun og brottflutningar
Hár fjármagnskostnaður er líka böl fyrir frumkvöðlastarf. Það er í eðli sínu áhættusamt að fjárfesta í frumkvöðlastarfsemi og óstöðugt umhverfi hefur enn meiri fráhrindandi árif. Það fælir erlenda fjárfesta, sem eiga úr ótal kostum að velja, frá því að veðja á íslenska frumkvöðla. Þeir geta líka beitt óstöðugleikanum fyrir sig í samningaviðræðum og knúið niður verð á íslensku hugviti. Og þeir geta líka farið fram á að fyrirtækin flytji starfsemi sína úr landi og í stöðugra umhverfi. Allt þetta er íslensku samfélagi dýrkeypt. Þarna eru glötuð tækifæri. Sprotar festa ekki rætur í rokgjörnum jarðvegi.
Ef við erum öll sammála um þjóðhagslegt mikilvægi nýsköpunar, þá þurfum við að sammælast um að bæta starfsumhverfið og koma á varanlegum stöðugleika. Það þýðir lítið að vera einhuga um markmið ef forsendurnar eru að engu hafðar. Getur þjóðin komist að einhverri sátt í þessu efni? Myntráðshugmynd Viðreisnar er innlegg í samtal um nýja þjóðarsátt.
Höfundur er í 3. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi Norður.