Í nýafstaðinni kosningabaráttu voru þjóðaratkvæðagreiðslur nokkuð til umræðu, sérstaklega þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Að mörgu leyti var þessi umræða mjög sérstök. Frambjóðendur Viðreisnar, svo dæmi sé tekið, lögðu mikla áherslu á að slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram, en töluðu næsta lítið um kosti þess að vera aðilar að Evrópusambandinu. Kostir aðildar hljóta þó að vera forsenda aðildarviðræðna. Svipaða sögu má segja af Pírötum og Bjartri framtíð, þjóðaratkvæðagreiðslan um áframhaldandi aðildarviðræður var mun mikilvægara umræðuefni en hvers vegna aðild væri æskileg. Vinstri græn, sem alfarið segjast á móti aðild, vilja samt endilega þjóðaratkvæðagreiðslu ef til áframhaldandi aðildarviðræðna kemur. Formaður VG vill reyndar nota ferðina og „leita leiðsagnar“ þjóðarinnar um skyld mál, t.d. hvort þjóðin sé hlynnt því að ganga í ESB! Það yrði sannarleg saga til næsta bæjar ef þjóðin samþykkti að halda áfram aðildarviðræðum en væri á móti aðild í einni og sömu kosningunni.
Viðkvæði stjórnmálamanna er gjarnan að þjóðin eigi að ráða för, frekar en stjórnmálaflokkar eða stjórnmálamenn. Og hver vill ekki að þjóðin ráði? Er það ekki kjarni lýðræðisins? Þetta á alveg sérstaklega við, eins og dæmin sanna, þegar maður sjálfur er í stjórnarandstöðu. Gallinn við popúlísk rök af þessu taginu er, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins þreytist ekki að minna á, að jafnvel þó þjóðin vilji halda áfram samningaviðræðum þá er það ekki þjóðin sjálf sem sér um samningaviðræðurnar. Það gerir ríkisstjórnin. Hér er kominn kjarni hinnar þekktu kenningar um „pólitískan ómöguleika“. Kannski er formaður Sjálfstæðisflokksins almennt pólitískt seinþroska. Í það minnst getur maður spurt hvað lá að baki því loforði Bjarna Benediktssonar fyrir kosningarnar 2013 að þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skyldi áfram viðræðum færi fram „snemma á næsta kjörtímabili“. Vissi Bjarni anno 2013 ekki að ríkisstjórnin sér um samningaviðræður? Fattaði hann vandamálið fyrst þegar hann settist í ríkisstjórn sjálfur? Líklegasta skýringin er þó sú að Bjarni hafi hér verið að „drulluredda“ eða „bjarga í horn“. Þegar langvarandi innanflokksdeilur og órói í samfélaginu almennt útaf tilteknu deilumáli gerir stjórnmálaleiðtogum lífið leitt er tilvalið að kalla „þjóðaratkvæðagreiðsla“. Þetta eru þekkt viðbrögð víða um lönd. Þegar deilur um kjarnorku gerðu sænskum krötum lífið leitt, svo tekið sé frægt dæmi, boðuðu þeir til þjóðaratkvæðagreiðslu 23. mars 1980. Niðurstaðan í þeirri atkvæðagreiðslu var síðan hunsuð, enda engin samstaða um hvernig túlka bæri niðurstöðuna. Nú 36 árum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna framleiða sænsk kjarnorkuver ennþá ragmagn. Þjóðaratkvæðagreiðslur „leysa mál“ stundum tímabundið, en kannski bara tímabundið eins og Davið kallinn Cameron komst að nýverið.
Fjölmörg ríki hafa í gegnum tíðina sótt um aðild að ESB, ekkert þeirra hefur viðhaft þjóðaratkvæðagreiðslu áður en að umsókn er lögð fram. Noregur hefur fjórum sinnum sótt um aðild að ESB og aldrei haldið þjóðaratkvæðagreiðslur um umsókn. Tvisvar hafa samningar náðst, tvisvar hafa þeir verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslum. Er eitthvað óeðlilegt við þetta? Ef eitthvað er að marka orðræðu íslenskra stjórnmálamanna hafa Norðmenn verið úti að aka áratugum saman. Öll umræða um aðildarumsókn Íslands að ESB og meinta nauðsyn á þjóðaratkvæðagreiðslu ber því miður öll merki „drullureddinga“. Flokkar eru innbyrðis ósamstíga og geta ekki komið sér saman um málið sín í millum og því er gripið til þess ráðs að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Staðreyndin er hins vegar sú að stjórnmálaflokkar sem telja aðild að ESB æskilega og vilja þess vegna halda áfram viðræðum, njóta lítils stuðning hjá þjóðinni. Viðreisn er smáflokkur, Björt framtíð og Samfylkingin örflokkar. Enginn þessara flokka getur borið uppi ríkisstjórn og tryggt eðlilegar samningaviðræður. Við þessar aðstæður er sérstakt að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður, nema þeir sem boði til hennar telji sig vissa um að þjóðin segi nei.
Höfundur er stjórnmálafræðingur