Um mitt sumar sem leið ritaði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, athyglisverða grein í Kjarnann um markaðslausn í sjávarútvegi þar sem hann leggur til að hluti veiðiheimilda verði settur á markað á ári hverju, með þeim hætti að afskrifa ákveðið hlutfall úthlutaðra veiðiheimilda og bjóða þann hluta heimildanna upp á almennum tilboðsmarkaði ár hvert.
Í grein sinni – Viðreisn vill markaðslausn í sjávarútvegi - Hluti kvóta árlega á markað – tekur Benedikt annars vegar mið af leigumarkaði húsnæðis, þar sem ekki sé óalgengt að 8 til 12% af verðmæti fasteignar sé greitt í húsaleigu, og ávöxtun hlutabréfa hins vegar, sem sé að jafnaði um 7% af markaðsverði til lengri tíma litið, til samanburðar við markaðslausn í sjávarútvegi:
„V/H-hlutfallið svonefnda (verðmæti félags deilt með árshagnaði) virðist yfirleitt enda nálægt 15 þó að sveiflur séu auðvitað miklar. Þetta svarar til um 6,7% ávöxtunar. „Rétt tala“ er eflaust nær arðinum en húsaleigunni. Við getum miðað við að ríkið geti fengið milli 5 og 8% arð af auðlindinni. Talan yrði ekki fastákveðin frá ári til árs heldur réðist af markaðsaðstæðum og verði á aflaheimildum. Framboð og eftirspurn ráða sem sagt för en ekki stjórnmálamenn.“
Með hliðsjón af þessu leggur Benedikt síðan til að úthlutaðar veiðiheimildir, eins og við höfum átt þeim að venjast frá ári til árs, yrðu skertar á hverju fiskveiðiári um 5 til 8%, sem svaraði þá jafnframt til þess hlutfalls heimilda sem settar yrðu á tilboðsmarkað ár hvert. Hver og ein útgerð ætti þá tveggja kosta völ á hverju fiskveiðiári – að sætta sig við 5 til 8% skerðingu aflamarks eða að ná skerðingunni til baka að hluta eða öllu leyti með því að kaupa veiðiheimildir á tilboðsmarkaðinum, auk þess að eiga jafnframt kost á að auka við sig heimildir með kaupum á enn meira ef því væri að skipta. Og eðlilega ætti hver og einn nýliði í útgerð þess þá ekki síður kost að kaupa heimildir að svo miklu marki sem hann treysti sér til, á því verði sem markaðurinn mótaði, svo lengi sem eitthvað væri í boði.
Handhafar aflamarks – kvóta – á hverjum tíma, myndu því ávallt greiða „leigu“ fyrir úthlutun á hverju fiskveiðiári, annað hvort með skerðingu um 5 til 8% miðað við aflamarkshlutdeild síðasta árs eða með kaupum á samsvarandi aflamarkshlutdeild á tilboðsmarkaði, eða að hluta til á annan hvorn veginn.
Nýliðar og vaxtarsprotar í útgerð væru á hinn bóginn ofurseldir 100% kaupum á hverju kílói eða tonni aflamarkshlutdeildar og veiðiréttar til frambúðar og mættu því glíma við afskriftir og vexti af kaupunum um langt árabil – en horfa jafnframt upp á rýrnun hlutdeildarinnar um 5 til 8% á ári hverju vegna þess hluta veiðiréttarins sem af væri tekinn og settur á tilboðsmarkað.
Réttur eða forgangsréttur?
Eignarréttur er friðhelgur og styðst við margra alda gamla þinglýsingarhefð sem öllu jöfnu tryggir ævarandi rétt til eignar og erfða svo lengi sem eigandi hefur vilja til að að greiða gjöld, skatta og skyldur af eigninni, svo lengi sem eignarnám er ekki knúið fram í krafti almannaþarfar að fyrirmælum laga og þó gegn sannvirði að bestra manna og laga mati. Handhafar aflamarkshlutdeildar á Íslandsmiðum eiga á hinn bóginn ekki og hafa aldrei átt neinn fisk í krafti hlutdeildar sinnar, hvað þá heilu fiskstofnana, heldur hafa þeir einungis öðlast mjög umdeildan forgangsrétt til veiða á fiski og þó aldrei lengur en eitt ár í senn. Gildir þá einu hvort þeim hefur upphaflega hlotnast rétturinn við úthlutun án endurgjalds eða að þeir hafi keypt hlutdeildarréttinn í skjóli áratugagamalla og vægast sagt vafasamra gjafagjörninga, sem jafnvel brjóta í bága við ákvæði hegningarlaga um þá hluta ríkisins sem séu ráðnir undan forræði þess og stjórnarskrárákvæði um að fullt verð, m.ö.o. sannvirði, vegi réttilega móti eign, eða nýtingarheimild fyrir eign, er látin sé af hendi í krafti lagafyrirmæla – og þá að sjálfsögðu að engum eignum undanskyldum, hvorki ríkisins né annarra.
Því skyldu aflamarkshandhafar liðinna áratuga njóta réttar umfram nýliða? Eða því skyldi Jón nýbúi þurfa að kaupa nýtingarrétt til langframa í æðarvarpinu fullu verði og staðgreiða, e.t.v. í krafti 16 ára láns með 8% vöxtum eða bindingu jafnvel alls eigin fjár til viðlíka tíma, og þó með 5 til 8% afföllum nýtingarréttarins á ári hverju – sem svarar til upptöku alls réttarins á nær sömu 16 árum – á meðan séra Jón skyldi nú einungis greiða 5 til 8% af sannvirði nýtingarréttar hverrar kollu í ársleigu, og væri þó jafnvel búinn að fá að sitja að stórum hluta varpsins frítt áratugum saman?
Eða hvort væru þá rýrari dúntekjur Jóns eða allar eftirtekjur séra Jóns?
„I Have a Dream“
Í ræðu sinni á landsþingi Viðreisnar 24. september s.l. lýsti Benedikt formaður hugmyndum sínum um Ísland, m.a. með þessum orðum:
„Ég á mér draum um Ísland þar sem leikreglurnar eru þær sömu fyrir alla. Ísland, þar sem allir njóta sanngjarns afraksturs af sameiginlegum auðlindum. Ísland, þar sem jafnrétti gildir á öllum sviðum. Ísland, þar sem landsmönnum er ekki skipt í lið eftir búsetu, kyni, aldri, menntun, stjórnmála- skoðunum eða eignum.“
Hver er þá hugmynd eða draumur Benedikts um leigurétt – eða eign leiguréttar, nákvæmlegar orðað? Að þeir sem sitji að rétti, jafnvel að afar óskilgreindum rétti, sem jafnvel kann að stangast á við lög og rétt, t.d. til afnota af auðlind, dúntekju eða hvers lags veiði í þjóðlendu eða í viðurkenndri fiskveiðilögsögu, greiði einungis ígildi leigu á meðan aðrir fá ekki komist að kötlunum nema að kaupa þann rétt fullu og dýru verði – eða m.ö.o. að greiði fyrir öll afnot til fjölmargra ára áður en veiðarfærum sé dýft í sjó, en horfi engu að síður upp á 5 til 8% afföll réttarins á ári hverju er fram líði stundir?
Það var draumur Martins Luthers Kings að ekki einungis skyldu hvítir menn virða blökkumenn heldur blökkumenn jafnframt þá hvítu – að alls burtséð frá litarhætti og raunar kynþætti einnig og trú, fjölskylduböndum, viðskiptahagsmunum eða hvaðeina, skyldu allir vera jafnir fyrir lögum og rétti. Að sjálfgefnu skyldu leikreglurnar vera þær sömu fyrir alla – án undantekninga: We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal.
Nema að til sé hálfgert jafnræði? Að sumir séu jafnvel ofurlítið jafnari en aðrir? That only some men were created equal?
Eða því skyldu nýliðar og vaxtasprotar vera settir skör lægra en þeir sem löngum hafa setið að soðkötlunum? Og hvers mega þeir gjalda sem keypt hafa þennan vafasama fiskveiðirétt dýrum dómum hin síðari ár án nokkurrar meðgjafar, einfaldlega af því að þeir áttu engra annarra kosta völ nema þá að þjóna sem leiguliðar í skjóli handhafa gjafagjörninganna, en eiga þó enn langt í land með að afskrifa kaupin?
Afnám séraflamarks – upptaka veiðiréttargjalds
Því skyldi skrefið þá ekki vera tekið til fulls og öllum boðið að sitja jafnt að kötlunum? Eða til hvers að úthluta séraflamarki, mismiklum kvóta, til einstakra aðila, til þess eins að skerða að hluta og bjóða til baka til kaups eða hverjum þeim öðrum sem frekar vildu kaupa, nýliðum eða gömlum og grónum í greininni – þegar eðlilegast væri samkvæmt jafnræðisreglu að bjóða allan veiðirétt, og þá undantekningarlaust allan, á kjörum sem einfaldlega réðust af framboði og eftirspurn, líkt og gengi gjaldmiðla ræðst á peningamarkaði, líkt og stýrivextir ráðast af löngun okkar í krónur, líkt og verð hlutabréfa ræðst í kauphöllinni eða verð á baunum í Bónus eða Iceland, allt eftir framboði og eftirspurn, alls burtséð frá litarhætti, búsetu, pólitík, trú?
Heildaraflamark einstakra fisktegunda ræðst af ákvörðun stjórnvalda á hverjum tíma, með hliðsjón af fiskifræðilegri ráðgjöf. Þannig hefur heildarframboðið verið ákvarðað um langt árabil með góðum árangri, án þess að verulega hafi um það hafi verið deilt hin síðari ár. Bendir enda margt til að hin fiskifræðilega ráðgjöf sé almennt á talsverðum rökum reist.
Í stað þess að veiðiréttinum væri úthlutað á mjög svo umdeildan hátt líkt og verið hefur undanfarna áratugi, væri allt sérúthlutað aflamark upphafið, öll aflamarkshlutdeild felld niður, og allur sérstakur stuðningur í formi kvótaúthlutana til einstakra byggða eða sóknarmarks í nafni strandveiða aflagður, en öllum, sem á annað borð uppfylltu almenn skilyrði um búnað veiðiskipa sinna, væri heimiluð frjáls veiði gegn greiðslu fyrir veiðiréttin þegar afla væri landað, eðlilega að teknu tilliti til reglugerða um tímabundnar lokanir svæða og annarra slíkra takmarkana. Veiðiréttargjaldið – krónur pr. kíló landaðs afla – myndi einfaldlega mótast af heildarframboði fisktegundar samkvæmt ákvörðun stjórnvalda en á hinn bóginn af eftirspurn, sókn í hverja fisktegund á hverjum tíma.
Jafnframt væri lagt strangt mat á raunveruleg kaup einstakra útgerðarmanna á veiðiheimildum ákveðinn árafjölda aftur í tímann, að frádregnum heimildum sem þeir kynnu að hafa selt frá sér á sama tíma, til grundvallar hugsanlegum sanngirnisbótum vegna niðurfellingar sérúthlutaðs aflamarks, og kæmu þá einungis til álita heimildir sem sannarlega hefðu gengið beinum kaupum og sölum milli óskyldra aðila. Væri þá sérstaklega horft til þess hve séraflamarkskerfið hefur verið andsnúið nýliðum í útgerð og þeim sem kosið hafa að vaxa innan greinarinnar án þess að hafa til þess forskot gjafagjörninga eða á hinn bóginn langan tíma til að afskrifa gömul kaup á séraflamarki, aflamarkshlutdeild, í skjóli fákeppni. Verða þessum atriðum um sanngirnisbætur gerð frekari skil í síðari köflum greinarinnar.
Viðmið veiðiréttargjalds
Hér að neðan er sýndur mánaðarlegur þorskafli á árunum 2005 til 2016. Hlutfallsleg skipting afla frá einum mánuði til annars er nokkuð áþekk öll árin – er veiðin yfirleitt mest þegar nokkuð er liðið á vetur en minnst um mitt sumar en eykst síðan á ný á haustin þar til að úr henni dregur í desember og janúar. Á hverjum tíma árs er því nokkuð greinilegt hvað má kallast hlutfallslega lítil eða miðlungs eða mikil veiði samanborið við veiðihlutföll á hinum ýmsu tímabilum hinna ýmsu ára eða einhvers sem kalla mætti meðalár.
Ljóst má vera að vertíðargöngur og fiskigengd almennt, veðurfar og gæftir hafa áhrif á aflabrögð, auk þess sem t.d. netaveiðitakmarkanir á hrygningartímanum og sumarfrí og jólafrí fiskvinnslufólks og sjómanna hamla veiðum, en meginlínur eru svipaðar frá ári til árs í grófum dráttum.
Veiðiréttargjald – krónur pr. kíló landaðs afla – myndi vera ákvarðað á hverjum tíma, frá degi til dags eða viku til viku eða frá einum mánuði til annars, allt eftir því hver sóknin væri á hverjum tíma, en ekki síður að teknu tilliti til hinna ýmsu ofangreindu þátta. Væri veiði óvenju lítil þrátt fyrir góðar gæftir og aflabrögð væri það vísbending um að gjaldið væri of hátt, en á hinn bóginn að það væri of lágt ef landaður afli tegundar stefndi í að verða meiri en úthlutað heildaraflamark veiðitímabils.
Úfærsla veiðiréttargjalds
Myndin sýnir ímyndað framtíðarár eða viðmiðunartímabil, með þorskveiði sem dæmi. Við ímyndum okkur að dökkblái ferillinn sé settur fram í upphafi árs (eða tímabils sem gæti verið styttra eða lengra eða náð yfir venjulegt fiskveiðiár), sem spá um líklega eða venjubundna skiptingu þorskafla frá mánuði til mánaðar að teknu tilliti til heildaraflamarks ársins og meðallags árstíðabundinna sveiflna fyrri ára, sbr. súluritið hér ofar er sýnir afla í einstökum mánuðum áranna 2005 til 2016. Ljósbláu súlurnar sýna á hinn bóginn raunverulegan afla hvers mánaðar – og veit þá enginn í lok hvers mánaðar hvernig veiðin mun þróast það sem eftir er ársins.
Aflinn í febrúar og þó sér í lagi í mars umfram meðallagið kann að stafa af góðum gæftum og fiskigengd en hafi á hinn bóginn ekki svo verið má ætla að veiðiréttargjaldið hafi verið of lágt. Gerum ráð fyrir hinu síðarnefnda og hefur veiðiréttargjaldið því verið hækkað. Þegar kemur fram í júní er ljóst að veiði er undir því sem vænta mætti að gefnum ágætum gæftum og ekki slakri fiskigengd miðað við árstíma. Veiðiréttargjaldið er því lækkað og kann það að vera skýringin á því að veiðin nær jafnvægi í júlí miðað við meðalár en er hlutfallslega heldur umfram hið venjubundna í ágúst. Það sem eftir er ársins er hlutfallsleg veiði frá einum mánuði til annars nálægt hlutfallslegu meðallagi viðmiðunaráranna, sem bendir til þess að veiðiréttargjaldið hafi verið ákvarðað sem næst rétt, þá e.t.v. með því að hækkað hafi verið eða lækkað frá einum tíma til annars þetta haust fram á vetur, og kann þess þó ekki endilega að hafa verið þörf. En markmiðið með breytilegu gjaldi er einmitt að stemma veiði hverrar tegundar svo af – á hverjum tíma ársins, að teknu tilliti til alls – að heildarafli ársins verði sem næst úthlutuðu heildaraflamarki.
Með þessum hætti má auðveldlega stýra sókn í allar eða allflestar fisktegundir, og mætti raunar með misháu/mislágu veiðiréttargjaldi fyrir mismunandi stærðir eða þunga fisks, t.d. fyrir stórþorsk, miðlungsþorsk, smáþorsk og undirmál, eða stórlúðu og smálúðu, eða stóran humar og smáan, eða nánast fyrir hvaða fisktegund sem væri, hafa áhrif á sókn í hina ýmsu stærðarflokka eða árganga tegundanna, allt eftir því hvað fiskifræðingar teldu æskilegt til eflingar eða viðhalds hinna ýmsu fiskistofna, og þó ávallt eftir ákvörðun eða heimild stjórnvalds.
Vegna þess hve heildaraflamark uppsjávartegunda er ákvarðað með ólíkum hætti miðað við botnfisk, oft með stuttum fyrirvara eða fyrir stutt tímabil í senn, jafnvel oft á hverju fiskveiðiári og út frá forsendum sem geta breyst mjög hratt hvenær sem er á veiðitímabili, einfaldlega vegna náttúrulegs eðlis og viðkvæmni uppsjávarfiska fyrir umhverfisbreytingum, kann að vera að veiðiréttargjald fyrir uppsjávarafla væri betur ákvarðað með öðrum hætti en hér hefur verið lýst, e.t.v. með reglulegum uppboðum í kjölfar ákvörðunar um aflamark hverrar tegundar eða breytingu þess á hverjum tíma.
Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvaða aðferð myndi henta best til gjaldtöku af uppsjávarafla en fyrst og fremst miðað við að gjaldið væri í hlutfallslegri samsvörun við annan sjávarafla – að helgaðist af framboði og eftirspurn. En væri veiðiréttargjald fyrir uppsjávarafla útfært á þann veg sem hér hefur verið lýst, líkt og fyrir annan sjávarafla, þá væri m.a. sá möguleiki fyrir hendi að bjóða tímabundið neikvætt gjald fyrir landaðan afla, m.ö.o. greiðslu fyrir hvert landað tonn, þegar svo háttaði til að t.d. loðna væri til í miklu magni að áliti fiskifræðinga en hún væri einhvers staðar týnd í hafi. Greiðslan væri þá hvatning til útgerðarmanna, þeim væri þá beinlínis greitt fyrir að leita loðnunnar – en þegar hún væri fundin og farin að veiðast í umtalsverðu magni þá snerist dæmið við og gjaldtakan tæki mið af eftirsókninni. Myndi þessi aðferðarfræði að sjálfsögðu gilda um allan vandfundinn fisk þegar svo háttaði til að hann hlyti engu að síður að halda sig einhvers staðar í vel veiðanlegu magni að áliti fiskifræðinga.
Fyrstu mánuði og misseri eftir upptöku veiðiréttargjalds má gera ráð fyrir að það myndi sveiflast nokkuð á meðan stöðugleika væri leitað. Það kynni jafnvel að taka fáein ár að ná góðu jafnvægi og þó því skemmri tíma sem ljósar lægi fyrir hvers eðlis slíkt gjald er. Frelsi til veiða væri sannarlega ekki algjört, a.m.k. ekki fjárhagslega, enda héldi enginn útgerðarmaður það út til lengdar að greiða hærra veiðiréttargjald en afkoma útgerðar hans heimilaði í bráð og lengd. Það má því telja líklegt að veiðiréttargjaldið tæki fremur litlum breytingum frá einum árstíma til annars eftir að jafnvægi væri náð, hvað þá frá degi til dags, en að sveiflur myndu fremur mótast af langtímaáhrifum markaðsverðs á fiski og fiskafurðum, olíuverði, skiptakjörum sjómanna og öðrum áhrifaþáttum útgerðarkostnaðar frá ári til árs eða einu árabili til annarra.
Slæmar horfur á afurðamörkuðum, hátt olíuverð eða erfiðir kjarasamningar myndu leiða til minni fjárráða útgerðarmanna og þar með minnkandi áhuga á veiðum – nema gjaldið lækkaði til mótvægis. Að öðrum kosti væri hætta á að veiði næði ekki að vega á móti úthlutuðu aflamarki. Á samsvarandi máta myndi góð afkoma og vaxandi veiðiáhugi leiða til hækkunar gjaldsins, allt eftir því hver væri eftirspurn í hina ýmsu veiðistofna, eða þyngdar- og stærðarflokka stofnanna, til mótvægis framboðnum veiðiheimildum stjórnvalda.
Ákvörðun veiðiréttargjalds
Stjórnarskráin heimilar ekki að neitt gjald megi leggja á né breyta né af taka nema með lögum, ekki frekar en að neitt gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Veiðiréttargjald yrði því á einn eða annan veg að vera ákvarðað með lögum út frá skýrum, skilgreindum markmiðum. Framkvæmdavaldinu væri þá falin nánari ákvörðun gjaldsins innan lagarammans. Hvort löggjafinn ákvarðaði jafnframt að sérstök stofnun hefði hlutverkið með höndum, t.d. veiðiréttarstofa, er væri þá undir þar til bært ráðuneyti sett, eða að löggjafinn setti þar til bæru ráðuneyti þá skyldu að fela viðurkenndri fjármálastofnun umsjón með reikniverki gjaldsins, það væri alfarið í höndum löggjafans að ákvarða. Á hvorn veg sem væri þá væri það ávallt hlutverk framkvæmdaraðilans að ákvarða veiðiréttargjaldið frá einum tíma til annars – innan lagarammans – með þeim hætti að veiðar mynduðu því sem næst jafnvægi mót úthlutuðu heildaraflamarki hvers veiðitímabils – ekki ólíkt og þegar peningastefnunefnd seðlabanka er falið að ákvarða stýrivexti með hliðsjón af nánar skilgreindum markmiðum.
Hver sem sá viðurkenndi aðili væri sem hefði með höndum að reikna álagningu gjaldsins á hverjum tíma, þá væru það fyrst og fremst líkindafræðingar sem ynnu hin daglegu störf. Reiknimeistarar er ynnu á ekki ólíkum forsendum og tryggingafræðingar sem reikna iðgjöld út frá líkindum atburða, og þá eðlilega að teknu tilliti til margvíslegra orsakavalda og ráðgjafar á hinum ýmsu sviðum fiskifræði, fiskveiða, fiskvinnslu og sjávarafurðamarkaða. Það væri þeirra hlutverk að horfa yfir allt sviðið og meta á hverjum tíma alla þá þætti sem hafa áhrif á veiði, áhrif á sókn, og ákvarða veiðiréttargjaldið á þann veg að veiði hverrar tegundar, og e.t.v. eftir þyngdar- og stærðarflokkum jafnframt, myndi vera sem næst í jafnvægi við úthlutun stjórnvalda á heildaraflamarki hvers fiskveiðiárs eða veiðitímabils.
Lagalegur réttur og rómantík
Hvers mega þeir þá gjalda sem keypt hafa fiskveiðirétt, séraflamark, kvóta, án nokkurrar meðgjafar, og eiga enn langt í land með að afskrifa kaupin? Raunar hefur enginn átt slíkan rétt nema til árs í senn, svo skýrt sem það hefur verið samkvæmt lögum, þó að áratugum saman hafi hann gengið kaupum og sölum, líkt og treysta mætti því að rétturinn yrði smám saman og jafnvel af sjálfum sér ævarandi. Líkt og eignarrétt mætti öðlast fyrir einhvers konar hefðarrétt í rómantískum skilningi, líkt og leigjandi gæti eignast íbúð fyrir áratuga hefð og vanafestu, jafnvel erfðafestu, og selt frá sér fasteignina eða leigt út frá sér að vild af því að íbúðareigandinn hefði ekki hirt um að gæta réttar síns, jafnvel varla réttarins til að taka leigu.
Því verður ekki í móti mælt að undanfarna áratugi hafa ýmsir af áhrifamestu ráðamönnum þjóðarinnar einmitt ljáð máls margítrekað á slíkum skoðunum í ræðu og riti sem túlka mætti á þann veg, líkt og aldagamlar laga- og þinglýsingarhefðir ættu sér nú enga stoð gagnvart nýuppfundinni kvótahefðinni, og fóru slík sjónarmið allsnemma að skjóta rótum jafnvel innan lagastofnana. Hefur fáum tekist betur að lýsa þessu rómantíska viðhorfi í hnotskurn en Sigurði Líndal, lögfræðingi og löngum prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, í greinarkorni í Fréttablaðinu í tilefni af fyrirhuguðu stjórnlagaþingi 2011:
„Með veiðireynslu öfluðu menn sér upphaflega veiðiréttinda með námi eða töku á eigendalausum verðmætum - fiski - sem síðar voru nánar afmörkuð með lögum þegar nauðsynlegar reyndist að takmarka sókn í nytjastofnana.“
Þannig var rót tískuorðsins kvóta, rót allrar rómantíkurinnar, rakin nánast aftur í árdaga, með þeim rökstuðningi að menn, sem sagt útgerðarmenn, hefðu upphaflega aflað sér veiðiréttinda á viðlíka hátt og fornmenn er þeir námu hér land og tóku sér eigendalaus verðmæti með friði og spekt. Líkt og íslenska ríkið hefði aldrei staðið að námi eða töku veiðiréttarins á hafsvæðinu kringum Ísland með einhliða útfærslu fiskveiðilögsögu fyrst frá 3 mílum út að 4 mílum eða þaðan út að 12 mílum. Hvað þá út að 50 mílum eða loks að 200 mílum. Hvað þá að það sama ríki hefði átt í þrálátum deilum, hvað þá staðið í ströngum stríðum, við ríki er einmitt töldu sig eiga þennan veiðirétt og tilkall til verðmætanna ekkert síður, ekki síst í krafti langvarandi veiðireynslu, jafnvel margra alda reynslu.
Líkt og það hefðu verið þeir sömu menn, útgerðarmenn, sem rituðu undir Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna til alþjóðlegrar þinglýsingar og staðfestingar á efnahagslögsögu og óskoruðum veiðirétti allt út að 200 mílum, en ekki íslenska ríkið, hinn raunverulegi handhafi verðmætanna.
Líkt og Alþingi hefði aldrei afmarkað nein þrjú ár veiðireynslu – allrar þúsaldar gamallar fiskveiðisögu þjóðarinnar – til grundvallar útdeilingu á hlutdeild í fiskveiðirétti til eins árs í senn, í senn – heldur hefðu útgerðarmenn einungis aflað sér réttindanna með námi eða töku verðmætanna í friði og spekt, líkt og þorskinum mætti jafna til Dafnis en Klói til gamla LÍÚ, eða á hvorn veginn sem það nú væri.
Þversögn laga og réttar
Hvert er þá viðhorf löggjafarsamkomunnar til þeirra er í tímans rás hafa keypt séraflamark, kvóta, með allt traust sitt á hinum ýmsu ráðamönnum þjóðarinnar, hinum ýmsu stjórnmálaleiðtogum allra flokka, er leitt hafa ríkisstjórnir undanfarinna áratuga? Á meðan lögin sögðu eitt, og aðeins eitt – eitt ár í senn – létu þeir að allt annarri túlkun liggja eða létu iðulega kyrrt liggja, eða létu sér jafnvel í léttu rúmi liggja, og jafnvel með fulltingi virtustu lögspekinga þjóðarinnar, svo sem hér hefur verið rifjað upp, að fiskveiðirétturinn hlyti með tíð og tíma að öðlast ævarandi gildi, að væri jafnvel búinn að öðlast sitt séreignarréttargildi, líkt og um nám fornmanna á eigendalausum verðmætum væri að ræða. Alls burtséð frá hvað lögin annars segðu. Lögin sem þeir höfðu þó flestir ýmist ljáð atkvæði sitt beinlínis eða samþykkt í áranna rás með þegjandi þögninni, með þau þó vokandi yfir sér.
Eða hvert var viðhorf banka þjóðarinnar – ríkisbankanna gömlu – Landsbankans, Útvegsbankans (síðar Íslandsbanka/Glitnis/Íslandsbanka), Búnaðarbankans (síðar Kaupþings/Arionbanka), til löggjafarinnar? Að úthlutuð aflamarkshlutdeild til eins árs í senn gæti sannarlega jafngilt margföldu veðhæfi jafnvel fúnustu fleyja og ryðkláfa, enda skipti veðstofninn, fleyið, litlu, heldur fyrst og fremst veiðirétturinn, aflamarkið, veðhæfi kvótans, sem að samdóma áliti bankastjóra og stjórnarmanna allra bankanna jafngilti a.m.k. langvarandi eign ef ekki ævarandi – alls burtséð frá því hvað lögin segðu. Voru þeir þó flestir hrein afsprengi Alþingis, sjálfrar löggjafarsamkomunnar sem lögin hafði sett, sumir jafnvel fyrrum ráðherrar eða hreinræktaðir flutningsmenn lagafrumvarpa, nema hvorttveggja væri, þar sem ótvírætt var kveðið á um að úthlutun veiðiheimilda myndaði ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir verðmætunum. Mátti því engum vera ljósara en einmitt þeim, að heimildum var aldrei úthlutað að lögum nema til eins árs í senn – hvað þá að nokkur banki hefði raunverulegar lagalegar stoðir til að hreppa slíkar heimildir lögtaki á einhverjum tímapunkti fiskveiðisögunnar.
Siðrofið var algjört. Sömu menn og settu lög er takmörkuðu veiðiréttarheimildir til einungis eins árs í senn í nafni ríkisvalds er ætti réttinn – eða með öðrum orðum skilgreindu svo nytjastofna á Íslandsmiðum að þeir væru sameign íslensku þjóðarinnar – þeir hikuðu ekki við að taka veð í sömu heimildum fyrir lánum er þeir veittu til margra ára í nafni ríkisbanka, án þess að Alþingi eða dómstólar gyldu minnsta varhug við þversögninni. Þannig voru línurnar lagðar af ráðamönnum og fylgdu með í kaupum er bankarnir voru einkavæddir, að í rauninni væri alls óhætt að versla með eignarrétt ríkisins líkt og séreignarréttur einstaklinga eða fyrirtækja væri, og virðist áhættan af þessum vægast sagt voguðu viðskiptum engu breyta þótt bankarnir séu nú að miklu leyti orðnir ríkiseignir á ný, engu líkara en að náttúruréttur villtasta dýraríkis gilti en ekki þúsaldargömul siðmenning þjóðar sem með lögum vildi land byggja.
Hvers mega þeir útgerðarmenn þá gjalda sem lögðu allt traust sitt á æðstu ráðamenn þjóðarinnar, innan þings eða berjandist bljúgir við þá í bönkum? Skyldi þeim þó síst vorkennt er í upphafi hrepptu gjafaforskotin og veitt hafa ómældum fjármunum til eflingar þversögninni, ekki síst með stuðningi við þá stjórnmálaflokka og fjölmiðla er mæra mest ráðsmenn hins lagalega tvískinnungs.
Sanngirnisbætur?
Vissulega eru dæmi þess að löggjafarsamkoma þjóðarinnar hafi beitt sér fyrir leiðréttingu á gjörðum sínum. Skemmst er að minnast Leiðréttingarinnar með stórum staf, þá er stjórnmálaflokkar með meirihluta á Alþingi haustið 2014, bakhjarlar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar, kusu að leiðrétta stórfelld mistök er ríkistjórnum, með stuðningi aðallega sömu stjórnmálaflokka og þó einum betur, hafði orðið á, á árunum fyrir hrun.
Stórfelldri fjáröflun ríkissjóðs, skatttekjum af gríðarlegum hrakvirðisgróða gömlu bankanna, var deilt út til fasteignaskuldara nær einna í stað þess, sem ýmsir hefðu e.t.v. talið sanngjarnara, að lækka skuldir ríkissjóðs, sem var þó líklega grátt leiknastur, og efla þá jafnframt þær stofnanir á ný sem verst urðu úti í hruninu. En á meðan stofnunum hélt áfram að blæða og innviðum ríkisins hrakaði og hrakar enn, fór fasteignamarkaðurinn á flug, að allnokkru leyti vegna um 100 milljarða króna stuðnings – leiðréttingar – ríkisins, að teknu tilliti til affalla vegna hliðaráhrifa. Afleiðingarnar eru m.a. þær að ungt fólk og eignalítið hefur sjaldan átt minni möguleika á að eignast þak yfir höfuðið, enda blómstrar leigumarkaðurinn sem aldrei fyrr. Fasteignaskuldarar hrunáranna fengu vissulega bætur, þó ekki síst væri í formi verulegrar eignaaukningar vegna síhækkandi fasteignaverðs frekar en að tillagið frá ríkissjóði hefði skipt sköpum eitt og sér, nema til að ýta undir hækkanirnar, en eftir sitja smælingjarnir, sjaldan lakar settir.
Til þess eru vítin að varast. Eða er gerlegt að leiðrétta áratuga gamalt misrétti lagalegs tvískinnungs, þá miklu þversögn lagasetningar og framkvæmdar laga um veiðirétt í íslenskri fiskveiðilögsögu, sem ráðið hefur lögum og lofum í íslenskri pólitík undanfarna þrjá áratugi? Eða verður spilling upprætt aftur í tímann? Eða verður einungis skorið fyrir rætur spillingarinnar þannig að blómstri ei meir?
Auður þeirra sem blómguðust í krafti gjafagjörninga verður ekki aftur tekinn. Sannast sagna, sem betur fer, auðnaðist þó fleirum en færri að spila svo úr auðfengnum gróðanum að skilað hefur þjóðarbúinu rentum á ýmsan máta. Þó að vitlaust væri gefið hefur mörgum meginmarkmiðum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins engu að síður verið náð, kannski ekki síst vegna þess, sem betur fer, hve margir þeirra sem hlotnaðist náðin í upphafi höfðu þó nógu sterk bein til að þola meðgjöfina og létu samfélag sitt njóta blómlegs rekstrar og a.m.k. hluta afrakstursins. Af hinum fer minni sögum sem seldu frá sér lífsafkomu jafnvel heilu byggðarlaganna og glutruðu svo niður auðnum í viðskiptabraski sem þeir höfðu ekki hundsvit á.
Hér verður ekki leitað sökudólga né heldur spurt hvort draga ætti fjölmarga ráðamenn undanfarinna áratuga fyrir dóm vegna óréttlætisins sem þeir hafa stuðlað að, ýmist með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi, hvað þá hvort taka ætti einn eða annan út úr og hengja svo bakara fyrir smið, jafnvel fyrir landsdómi. Heldur snýst spurningin um hvort gera megi slíka leiðréttingu á fiskveiðistjórnunarkerfi, sem á ýmsan hátt hefur þó jafnvel reynst vera það skásta í afar spilltum heimi sjávarauðlindanýtingar jarðar, að það gæti a.m.k. státað af slíkum leikreglum, að væru hinar sömu fyrir alla – án undantekninga.
Uppgjör/leiðrétting
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður séraflamark varla afnumið né veiðiréttargjald lagt á afla fyrr en samþykktar hafa verið uppgjörsreglur um sanngirnisbætur til handa þeim sem keypt hafa aflamarkshlutdeild, kvóta, á hinum síðari árum án þess að hafa haft tækifæri til að afskrifa kaupin, þannig að staða þeirra, við upptöku veiðiréttargjalds, væri leiðrétt gagnvart þeim sem litlar eða engar afskriftir hefðu að glíma við vegna kvótakaupa. Þetta væru í rauninni bætur til útgerðaraðila vegna viðskipta sem stjórnmálamenn og fjármálastofnanir hafa lagt blessun sína yfir og beinlínis hvatt til á margvíslegan máta, beint og óbeint, þrátt fyrir að flest lagaleg skilyrði skorti, enda um að ræða viðskipti, kaup- og sölugerninga, óskyldra aðila með eign er ávallt hefur þó verið á hendi ríkisvaldsins, án þess að það hafi þó nokkurn tímann afsalað sér eigninni á nokkurn hátt, heldur einungis úthlutað nýtingarrétti á henni til eins árs í senn hið lengsta.
Strangt mat væri lagt á raunveruleg kaup einstakra útgerðarmanna á veiðiheimildum ákveðinn árafjölda aftur í tímann, að frádregnum heimildum sem þeir kynnu að hafa selt frá sér á sama tíma, og kæmu þá einungis til álita heimildir sem sannarlega hefðu gengið beinum kaupum og sölum milli óskyldra aðila.
Væri þetta mat vegið á margvíslegan máta með tilliti til ákveðins afskriftartíma, e.t.v. 16 ára, eða eftir því hvað sanngjarnt þætti. Með því væri ekki endilega viðurkennd lagaleg skylda hins opinbera til greiðslu skaðabóta, þrátt fyrir ósanngirni laga um séraflamark – en engu að síður væri komið til móts við sanngirniskröfur þeirra sem ekki hafa átt þess kost hin síðari ár að öðlast hlutdeild eða að auka við sig hlutdeild í árlegum, úthlutuðum veiðiheimildum nema með kaupum á séraflamarki, aflamarkshlutdeild.
Ef 16 ára afskriftartími væri lagður til grundvallar uppgjöri/leiðréttingu, kæmu einungis til álita viðskipti með aflamarkshlutdeild frá þessari öld. Þá væri litið svo á að útgerðarmenn sem keyptu kvóta fyrir aldamótin hefðu afskrifað kaupin og ættu því að vera vel í stakk búnir til að greiða veiðiréttargjald án þess að kvótakaup fyrri ára íþyngdu þeim. En væru kvótakaup t.d. helmingi yngri, eða um átta ár liðin frá þeim, væru þau einungis afskrifuð til hálfs og geta útgerðarmannsins til greiðslu veiðiréttargjalds eftir því lakari án leiðréttingar. Á samsvarandi máta myndi útgerðarmaður sem keypti kvóta fyrir ári síðan eiga hann næstum því allan óafskrifaðan, eða að 15/16 hlutum, og ætti því afar litla möguleika á að greiða veiðiréttargjald, nema fyrir tilstuðlan leiðréttingar, samanborið við þá sem hefðu skilið við sinn kvóta sem næst afskrifaðan.
Öll kvótakaup síðastliðinna 16 ára milli óskyldra aðila, að frádregnum kvótasölum til óskyldra aðila, yrðu þannig lögð til grundvallar og bæturnar reiknaðar því minni hlutfallslega sem lengra væri frá liðið, allt að 16 árum. Hver og einn yrði að leggja fram sönnur fyrir kaupum sínum, sbr. m.a. lög um bókhald, um varðveisluskyldu bókhaldsgagna a.m.k. 7 ár aftur í tímann, auk þess sem það má telja eðlilega kröfu til kaupenda kvóta að þeir geymdu gögn til sannindamerkja um kaupin væru þau eldri en það, enda um það veruleg áhættukaup að ræða að ávallt hefur mátt gera ráð fyrir að þau gætu orðið véfengd einhverntímann, allt frá upptöku kvótakerfis og séraflamarks.
Við uppgjör og útreikning leiðréttingar væri jafnframt horft til þess hve séraflamarkskerfið hefur ávallt verið andsnúið nýliðum í útgerð og þeim sem kosið hafa að vaxa innan greinarinnar án þess að hafa til þess forskot gjafagjörninga eða mjög langs tíma til að afskrifa gömul kaup á kvóta, aflamarkshlutdeild. Kaup byggð á slíku forskoti, þ.e.a.s kvótakaup sem styddust við höfuðstól gamallar hlutdeildar eða uppsafnaðrar aflamarkshlutdeildar á mjög löngum tíma, nytu eftir því minni leiðréttingar sem vægi höfuðstólsins gagnvart kaupunum væri meira – allt eftir nánari reglum þar um, hve þungt slíkt forskot skyldi vega til frádráttar leiðréttingu, að mati löggjafans, þó eðlilega að teknu tilliti til jafnræðisreglu.
Bætur hvers og eins væru reiknaðar alls óháð stöðu eða framtíð umsækjanda, hvort héldi áfram útgerð eða ekki, og væru greiddar út á jafnlengd þess tíma afskrifta sem eftir væri. Væru bæturnar einnig alls óháðar því hvort kvótakaup hefðu upphaflega verið fjármögnuð með lánum eða hreinu eigin fé, að hluta eða öllu leyti. Sá sem hefði keypt kvóta fyrir 12 árum fengi þannig eftirstöðvar af afskriftum greiddar út á næstu 4 árum, svo dæmi sé tekið, en eftirstöðvar afskrifta 8 ára gamalla viðskipta fengjust greiddar á 8 árum, en 1 árs gamalla viðskipta á 15 árum – ef miðað væri við 16 ára heildarafskriftartíma allra kaupanna – þó ávallt að teknu tilliti til forskots við kvótakaup, vægi höfuðstóls eldri og afskrifaðs kvóta gagnvart kaupunum.
Tekjur/gjöld
Leiðrétting stjórnvalda vegna misréttis af völdum vanstjórnar eða slæmrar efnahagsstjórnunar á liðinni tíð verður aldrei reiknuð svo aftur í tímann að full sátt náist, svo sem Leiðréttingin 2014 hefur sýnt og sannað. Slík stjórnvaldsleiðrétting getur heldur aldrei orðið annað en misgóð nálgun. Fjöldi þeirra aðila sem leiðrétting nær til og ekki síður margbreytileiki þess misréttis sem leiðrétta skal skiptir þó ekki síst sköpum um flækjustig réttlætisins. Leiðréttingin 2014 náði til tugþúsunda skuldara u.þ.b. áratug aftur í tímann og taka þurfti tillit til fjölmargra forma á lánssamningum, og voru þó ófá lánsformin útilokuð, fjölda skuldara til hrellingar og jafnvel dómsdags.
Leiðrétting vegna misréttis við úthlutun á aflaheimildum, eða í framhaldi af niðurfellingu útlána á slíkum heimildum ef svo má segja, tæki varla til nema örfárra hundraða aðila, rétt rúman einn og hálfan áratug aftur í tímann, miðað við 16 ára afskriftartíma, og þó með því meira vægi sem skemmra væri um liðið. Væru það þó varla nema örfáir tugir aðila sem gætu gert tilkall til verulegrar leiðréttingar í tugum eða hundruðum milljóna króna talið en því færri til milljarða króna, og myndu greiðslurnar þó dreifast yfir langt tímabil, eða yfir hálfan annan áratug.
Það sem skiptir þó sköpum við samanburð þessara tvennskonar leiðréttinga er tekjuhliðin. Leiðréttingin 2014 mun kosta ríkissjóð alls um 100 milljarða króna þegar upp verður staðið, en tekjur til mótvægis, af bankaskatti, vega þar a.m.k. nokkurn veginn á móti. Tekjur af veiðiréttargjaldi myndu hins vegar að öllu jöfnu hlaupa á tugum milljarða króna á ári, nema að íslensk útgerð væri því verr á vegi stödd, en útgjöld af völdum leiðréttingar vegna afnáms séraflamarks, samhliða upptöku veiðiréttargjalds, myndu einungis nema mjög litlum hluta þess og þó fara minnkandi frá ári til árs og heyra sögunni nær alfarið til að hálfum öðrum áratug liðnum.
Fákeppnismarkaður/frjáls markaður
Úthlutað aflamark á yfirstandandi fiskveiðiári, án uppsjávarafla, nemur alls tæplega 430 þúsund tonnum, eða sem svarar til um 370 þúsund tonnum í þorskígildum talið. Meðaltalsverð fyrir leigu á aflamarki þorsks sl. áratug nemur um 223 krónum á kíló, samkvæmt vef Fiskistofu, og hefur mjög lítið sveiflast á þeim tíma. Þó ekki væri miðað við að veiðiréttargjald næmi til jafnaðar nema um helmingi þess leiguverðs fyrir heildarbotnfiskafla umreiknaðan í þorskígildiskíló, að næmi um 110 krónum á kíló, þá myndu tekjur af veiðiréttargjaldi fyrir samsvarandi botnfiskafla og þessa fiskveiðiárs engu að síður nema góðum 40 milljörðum króna.
Þorskígildisstuðlar hinna ýmsu fisktegunda gefa aðeins mjög grófa hugmynd um verð á einstökum fisktegundum, ekki síst þegar uppsjávarafli á í hlut, auk þess sem uppsjávarafli sveiflast oft verulega frá einu ári til annars, og þá ekki síður mælt í aflaverðmæti. Til einföldunar má e.t.v. mjög gróft á litið miða við að heildarafli botnfisks og uppsjávarfisks gæti numið um 500 þús. þorskígildistonnum til jafnaðar á ári, horft til óskilgreinds árabils fram og aftur í tímann og þá án þess að tekin sé afstaða til hins mjög svo breytilega hlutfalls verðmætis og magns tegundanna frá ári til árs, sérstaklega uppsjávarafla, og almennt með öllum fyrirvörum um áreiðanleika og gildi hrárra þorskígildisútreikninga. En samkvæmt því myndi 110 króna veiðiréttargjald að meðaltali fyrir þorskígildiskíló jafngilda 55 milljarða króna heildartekjum fyrir allan veiðirétt, en til frádráttar kæmu útgjöld vegna leiðréttingarinnar, þó tiltölulega lítil og lækkandi frá ári til árs.
Ekkert skal hér fullyrt um hver sé geta íslenskra útgerða til greiðslu veiðiréttargjalds, en samkvæmt þeirri aðferðarfræði sem hér hefur verið lögð til grundvallar, réðist gjaldið alfarið á markaði veiðiheimilda er stjórnaðist af vilja manna til að stunda útgerð á Íslandi, m.ö.o. stjórnaðist af afkomu útgerðar og útgerðarmanna, og þó í raun af afkomu sjávarútvegs á Íslandi í heild sinni. Innheimt veiðigjald ríkisins á síðustu fimm árum, 2012 til 2016, nemur á bilinu 7,4 til 9,8 milljörðum króna, eða til jafnaðar um 8,6 milljörðum króna – sem jafngildir rúmlega 15% af 55 milljörðunum í ofangreindu dæmi, eða um 17 krónum fyrir hvert þorskígildiskíló alls sjávarafla. En 17 krónu gjald til jafnaðar fyrir veiðirétt fyrir hvert kíló óslægðs þorsks, sem e.t.v. væri seldur á 300 kr kílóið á markaði, myndi samsvara um 1 krónu og 70 aurum í gjald af u.þ.b. 30 króna kílóverði t.d. loðnu, makríls eða kolmunna eða um 3 krónum og 40 aurum af 60 króna kílóverði síldar.
Hugsanlega er íslensk útgerð almennt svo illa á vegi stödd að ráði ekki við að greiða nema um 8 til 9 milljarða króna í veiðiréttargjald á ári, eða sem næst um 17 krónur fyrir hvert kíló þorskígildis. En hvernig má þá vera að leiguliðar sem litla eða enga aflamarkshlutdeild hafa fengið, flestir úr geira minni skipa og smábátaútgerðar, hafa þó getað greitt um 223 kr. í leigu til jafnaðar fyrir hvert veitt þorskkíló undanfarinn áratug án þess að fara umsvifalaust og beint á höfuðið?
Nokkuð ljóst má vera að íslensk útgerð í heild sinni myndi aldrei ráða við að greiða 223 kr í veiðiréttargjald fyrir hvert þorskígildiskíló alls sjávarafla, eða sem svaraði til um 110 milljarða króna á ári, enda tæki það þá til langsamlega stærsta hluta allra tekna útgerðarinnar! Enda er það svo að stærsti hluti séraflamarks sem framseldur er á hverju ári í formi leigu snýr fyrst og fremst að innbyrðis skiptingu afla milli útgerða – aðallega stórútgerða sem notið hafa gjafagjörninga eða/og afar langs tíma til afskrifta kvótakaupa í skjóli fákeppni. Framsalsheimildirnar eru þá nýttar til að jafna afla milli útgerða og ekki síst samsetningu mismunandi fisktegunda niður á einstök skip og einstakar veiðiferðir, einnig að teknu tilliti til ófyrirséðra frátafa frá veiðum vegna viðhalds eða ógæfta, þannig að dæmið gangi upp gagnvart heildarúthlutun séraflamarks á ári hverju.
Að öllum föstum kostnaði greiddum þykir það alveg vera þess virði að greiða hátt verð fyrir aflamarksviðbót, sérstaklega í ljósi þess að stærsti hluti breytilega kostnaðarins er fólginn í hlutaskiptum sjómanna sem miðast að drjúgum hluta við verð undir markaðsverði, samkvæmt ákvörðun Verðlagsstofu skiptaverðs – eða á hinn bóginn ekki síður gróðavænlegt að selja frá sér heimildir fyrir ofurverð þegar ekki næst að veiða upp í þær. Með samtökum – og jafnvel samráði – um að halda verðinu uppi, hefur hinum rótgrónu útgerðum kvótakerfisins tekist að halda nær öllum öðrum frá soðkötlum fiskveiðiheimildamiðlunar fákeppnismarkaðarins, nema þá helst örfáum trilluköllum sem hafa látið sig hafa það að greiða himinhátt leiguverðið fram í rauðan dauðann frekar en að leggja upp laupana og jafnvel fara að bíta gras.
Niðurlag
Þegar allt kemur til alls er það útflutningsverðmæti sjávarafurða sem ræður afkomu jafnt útgerðar sem fiskvinnslu. Kakan er ávallt ein og söm – að andvirði í kringum 250 milljarðar króna hin síðari ár – og spurningin því ávallt hin sama, hvernig á að skipta þessum verðmætum milli greinanna, og hvaða áhrif hefur auðlindagjald hins opinbera á sjávarútveginn í heild sinni.
Með veiðiréttargjaldi, líkt og hér hefur verið lýst, sem myndi stjórnast af framboði og eftirspurn og lyti reglum frjáls, opins markaðar, væri sjávarútveginum í raun í sjálfsvald sett að ákvarða getu sína til greiðslu gjalds fyrir afnotin af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar – eða e.t.v. lagatæknilegar betur orðað, fyrir afnot af veiðirétti íslenska ríkisins, hvort sem væri innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eða á veiðisvæðum utan hennar samkvæmt milliríkjasamningum sem íslenska ríkið er aðili að.
Að lokum skal varpað upp tveimur sviðsmyndum þar sem sama ímyndaða framtíðarár eða viðmiðunartímabil og fyrr var fjallað um í greininni er lagt til grundvallar. Dökkblái ferillinn táknar sem sagt spá um líklega eða venjubundna skiptingu þorskafla frá mánuði til mánaðar að teknu tilliti til heildaraflamarks ársins en ljósbláu súlurnar sýna á hinn bóginn raunverulegan afla hvers mánaðar – og veit þá enginn í lok hvers mánaðar hvernig veiðin mun þróast það sem eftir er ársins.
Hér er gert ráð fyrir að veiðiréttargjald fyrir þorsk er lægi nálægt 80 kr. til jafnaðar yfir árið, eða á bilinu 70 til 90 krónur, myndi stemma veiðina svo af að heildarþorskafli næmi u.þ.b. úthlutuðu heildaraflamarki. Samsvarandi gjald fyrir 500 þús. þorskígildistonn (þá e.t.v. um 40 kr. jafnaðarverð fyrir ufsakíló, um 80 aurar fyrir loðnukíló eða 1 króna og 60 aurar fyrir síldarkíló – og þó allt eftir framboðnum heimildum og eftirsókn í hverja tegund á hverjum tíma) myndi skila um 40 milljarða króna tekjum í heild fyrir veiðirétt að öllum sjávarafla.
Hér er á hinn bóginn gert ráð fyrir að veiðiréttargjald fyrir þorsk er lægi í kringum 35 til 40 kr. til jafnaðar yfir árið myndi stemma veiðina svo af að heildarþorskafli næmi u.þ.b. úthlutuðu heildaraflamarki. Samsvarandi gjald fyrir 500 þús. þorskígildistonn (þá e.t.v. um 18 kr. jafnaðarverð fyrir ufsakíló, um 35 aurar fyrir loðnukíló eða 70 aurar fyrir síldarkíló – og þó allt eftir framboðnum heimildum og eftirsókn í hverja tegund á hverjum tíma) myndi skila um 17 til 18 milljarða króna tekjum í heild fyrir veiðirétt að öllum sjávarafla.
Ljóst má vera, að veiðiréttargjaldið réðist alfarið af framboði og eftirspurn fyrir hverja fisktegund á hverjum tíma. Ljóst má líka vera að því hærra veiðiréttargjald sem stórútgerðir landsins treystu sér til að greiða fyrir hvert þorskkíló – enda myndu þær móta markaðsverðið – eða jafnvel allt að 223 krónum, eða samsvarandi fyrir hvert ígildiskíló annarra tegunda, eða hvernig skyldi orða það, að þá stæðu hinar ýmsu veikari sjávarútvegsbyggðir landsins svo höllum fæti gagnvart ofurgjaldinu að hlytu jafnvel að deyja út – nema því stórfelldari aðgerðir hins opinbera kæmu til.
Á hinn bóginn – réðu stórútgerðir landsins ekki við að greiða nema e.t.v. um 35 til 40 krónur fyrir veiðirétt hvers þorskígildiskílós, eða jafnvel ekki nema í kringum 17 krónur, líkt og má ætla að hafi mótað þolmörk þeirra undanfarin ár, miðað við álagt veiðigjald ríkisins árin 2012 til 2016, svo sem hér hefur verið rakið og rifjað upp, þá hlyti afar blómleg tíð að blasa við hinum ýmsu sjávarútvegsbyggðum landsins sem svo mörg undanfarin ár hafa staðið hvað höllumstum fæti gagnvart arðráninu, og jafnvel hafa mátt þola það að vera nánast á framfæri hins opinbera. Og það þrátt fyrir að plássin hefðu fyrir áratugum, eða samsvarandi sveitir og hreppar fyrir öldum síðan, aflað sér upphaflega veiðiréttinda með námi eða töku á sínum hluta einna auðugustu fiskimiða jarðkringlunnar er svo vildi jafnvel til að lágu nánast upp í túngarðinn hjá þeim.
Augljóslega væri þá sérstakur stuðningur við sjávarútvegsbyggðir landsins óþarfur. Hver sá sem treysti sér til að gera út skip eða bát myndi einfaldlega gera það alls óháð okurskilmálum, og enn síður undir verndarvæng hins opinbera í nafni náðarsamlegra kvótaúthlutana eða strandveiða. Samt sem áður og einmitt því frekar sem frelsi til veiða væri meira, því strangar skyldi fylgja eftir kröfum um meðferð alls afla – að harðsæknustu trillukörlum væri gert það jafn ljóst sem hinum stóru, að ekki væri heimilt að landa illa aðgerðum eða illa kældum afla, enda varðaði öll slæm meðferð afla veiðileyfissviptingu.
Eða er það annars virkilega svo, að stórútgerðir þessa eylands, sem ein auðugustu fiskimið jarðar liggja að, fái alls ekki þrifist nema fyrir stórfellda og sífellda leiðréttingu á rótgrónustu markaðslögmálum alls jarðríkisins, þeim er snúa að frjálsri verslun, framboði og eftirspurn? Hvað þá heldur nema fyrir sífellda leiðréttingu á hinum ýmsu efnahagsstærðum eyríkisins, ef ekki fyrir stórfelldan skatt á alla þjóðina í formi gengisfellinga, líkt og 100 ára saga íslensku stórútgerðanna sannar, þá a.m.k. fyrir stórfelldan skatt stórútgerða á smáútgerðir, eða eitthvað í kringum 223 kr. pr. hvert veitt þorskkíló, miðað við skattinn s.l. áratug til jafnaðar, eða samsvarandi fyrir aðrar tegundir í hinum ýmsu hlutföllum reiknað?
Eða hvort myndi Jón Sigurðsson nú kjósa, ætti hann þess völ? Frjálsa verslun eða fákeppni?
Höfundur er áhugamaður um fiskveiðistjórnun.
Helstu heimildir og ítarefni:
Benedikt Jóhannesson: Viðreisn vill markaðslausn í sjávarútvegi - Hluti kvóta árlega á markað, Kjarninn, skoðun – aðsendar greinar, 15. júlí 2016.
Mbl.is: Loforð er loforð – og loforðið var svikið, Morgunblaðsvefur, innlendar fréttir, 24. september, 2016.
Wikipedia: Martin Luther King, Jr.
Sigurður Líndal: Merkingarlaus stjórnarskrá, Fréttablaðið, skoðun – aðsendar greinar, 31. janúar 2011, bls. 13.
Árni B. Helgason: Þjóðaratkvæði um eignarrétt? Stjórnlagaráð 2011, almenn erindi, 6. júní 2011.
Leiðréttingin – samkvæmt lögum nr 35/2014.
Fiskistofa, frétt 1. sept. 2016: Úthlutun á aflamarki 2016/2017.
Fiskistofa > Veiðar > Aflaheimildir > Aflamarksviðskipti: Viðskipti með aflamark.