Ráði frjáls markaður veiðiheimildum – eða fákeppni?

Auglýsing

Um mitt sumar sem leið rit­aði Bene­dikt Jóhann­es­son, for­maður Við­reisn­ar, athygl­is­verða grein í Kjarn­ann um mark­aðs­lausn í sjávar­út­vegi þar sem hann leggur til að hluti veiði­heim­ilda verði settur á markað á ári hverju, með þeim hætti að afskrifa ákveðið hlut­fall út­hlut­aðra veiði­heim­ilda og bjóða þann hluta heim­ild­anna upp á almennum til­boðs­mark­aði ár hvert.

Í grein sinni – Við­reisn vill mark­aðs­lausn í sjávar­út­vegi - Hluti kvóta ár­lega á markað – tekur Bene­dikt ann­ars vegar mið af leigu­mark­aði húsnæð­is, þar sem ekki sé óal­gengt að 8 til 12% af verð­mæti fast­eignar sé greitt í húsa­leigu, og ávöxtun hluta­bréfa hins veg­ar, sem sé að jafn­aði um 7% af mark­aðs­verði til lengri tíma lit­ið, til sam­an­burðar við mark­aðs­lausn í sjávar­út­vegi:

V/H-hlut­fallið svo­nefnda (verð­mæti félags deilt með árs­hagn­aði) virð­ist yfir­leitt enda nálægt 15 þó að sveiflur séu auð­vitað mikl­ar. Þetta svarar til um 6,7% ávöxtunar. „Rétt tala“ er eflaust nær arðinum en húsa­leig­unni. Við getum miðað við að ríkið geti fengið milli 5 og 8% arð af auð­lind­inni. Talan yrði ekki fastákveðin frá ári til árs heldur réð­ist af mark­aðs­að­stæðum og verði á afla­heim­ild­um. Fram­boð og eft­ir­spurn ráða sem sagt för en ekki stjórn­mála­menn.

Auglýsing

Með hlið­sjón af þessu leggur Bene­dikt síðan til að út­hlut­aðar veiði­heim­ild­ir, eins og við höfum átt þeim að venj­ast frá ári til árs, yrðu skertar á hverju fisk­veiði­ári um 5 til 8%, sem svar­aði þá jafn­framt til þess hlut­falls heim­ilda sem settar yrðu á til­boðs­markað ár hvert. Hver og ein út­gerð ætti þá tveggja kosta völ á hverju fisk­veiði­ári – að sætta sig við 5 til 8% skerð­ingu afla­marks eða að ná skerð­ing­unni til baka að hluta eða öllu leyti með því að kaupa veiði­heim­ildir á til­boðs­mark­að­in­um, auk þess að eiga jafn­framt kost á að auka við sig heim­ildir með kaupum á enn meira ef því væri að skipta. Og eðli­lega ætti hver og einn nýliði í út­gerð þess þá ekki síður kost að kaupa heim­ildir að svo miklu marki sem hann treysti sér til, á því verði sem mark­að­ur­inn mótaði, svo lengi sem eitt­hvað væri í boði.

Hand­hafar afla­marks – kvóta – á hverjum tíma, myndu því ávallt greiða „leig­u“ fyrir út­hlutun á hverju fisk­veiði­ári, annað hvort með skerð­ingu um 5 til 8% miðað við afla­marks­hlut­deild síð­asta árs eða með kaupum á sam­svar­andi afla­marks­hlut­deild á til­boðs­mark­aði, eða að hluta til á annan hvorn veg­inn.

Nýliðar og vaxt­ar­sprotar í út­gerð væru á hinn bóg­inn ofur­seldir 100% kaupum á hverju kílói eða tonni afla­marks­hlut­deildar og veiði­réttar til fram­búðar og mættu því glíma við afskriftir og vexti af kaup­unum um langt ára­bil – en horfa jafn­framt upp á rýrnun hlut­deild­ar­innar um 5 til 8% á ári hverju vegna þess hluta veiði­rétt­ar­ins sem af væri tek­inn og settur á til­boðs­mark­að.

Réttur eða for­gangs­rétt­ur?

Eign­ar­réttur er frið­helgur og styðst við margra alda gamla þinglýs­ing­ar­hefð sem öllu jöfnu tryggir ævar­andi rétt til eignar og erfða svo lengi sem eig­andi hefur vilja til að að greiða gjöld, skatta og skyldur af eign­inni, svo lengi sem eign­arnám er ekki knúið fram í krafti almanna­þarfar að fyr­ir­mælum laga og þó gegn sann­virði að bestra manna og laga mati. Hand­hafar afla­marks­hlut­deildar á Ís­lands­miðum eiga á hinn bóg­inn ekki og hafa aldrei átt neinn fisk í krafti hlut­deildar sinn­ar, hvað þá heilu fisk­stofn­ana, heldur hafa þeir ein­ungis öðl­ast mjög umdeildan for­gangs­rétt til veiða á fiski og þó aldrei lengur en eitt ár í senn. Gildir þá einu hvort þeim hefur upp­haf­lega hlotn­ast rétt­ur­inn við út­hlutun án end­ur­gjalds eða að þeir hafi keypt hlut­deild­ar­rétt­inn í skjóli ára­tuga­gam­alla og væg­ast sagt vafa­samra gjafagjörn­inga, sem jafn­vel brjóta í bága við ákvæði hegn­ing­ar­laga um þá hluta rík­is­ins sem séu ráðnir undan for­ræði þess og stjórn­ar­skrárá­kvæði um að fullt verð, m.ö.o. sann­virði, vegi rétti­lega móti eign, eða nýt­ing­ar­heim­ild fyrir eign, er látin sé af hendi í krafti laga­fyr­ir­mæla – og þá að sjálfsögðu að engum eignum und­an­skyld­um, hvorki rík­is­ins né ann­arra.

Því skyldu afla­marks­hand­hafar lið­inna ára­tuga njóta réttar umfram nýliða? Eða því skyldi Jón nýbúi þurfa að kaupa nýt­ing­ar­rétt til lang­frama í æðar­varp­inu fullu verði og stað­greiða, e.t.v. í krafti 16 ára láns með 8% vöxtum eða bind­ingu jafn­vel alls eigin fjár til við­líka tíma, og þó með 5 til 8% afföllum nýt­ing­ar­rétt­ar­ins á ári hverju – sem svarar til upp­töku alls rétt­ar­ins á nær sömu 16 árum – á meðan séra Jón skyldi nú ein­ungis greiða 5 til 8% af sann­virði nýt­ing­ar­réttar hverrar kollu í ársleigu, og væri þó jafn­vel búinn að fá að sitja að stórum hluta varps­ins frítt ára­tugum sam­an?

Eða hvort væru þá rýr­ari dún­tekjur Jóns eða allar eft­ir­tekjur séra Jóns?

I Have a Dream

Í ræðu sinni á lands­þingi Við­reisnar 24. sept­em­ber s.l. lýsti Bene­dikt for­maður hug­myndum sínum um Ís­land, m.a. með þessum orð­um:

Ég á mér draum um Ís­land þar sem leik­regl­urnar eru þær sömu fyrir alla. Ís­land, þar sem allir njóta sann­gjarns afrakst­urs af sam­eig­in­legum auð­lind­um. Ís­land, þar sem jafn­rétti gildir á öllum svið­um. Ís­land, þar sem landsmönnum er ekki skipt í lið eftir bú­setu, kyni, aldri, mennt­un, stjórn­mála- skoð­unum eða eign­um.

Hver er þá hug­mynd eða draumur Bene­dikts um leigurétt – eða eign leigurétt­ar, ná­kvæm­legar orð­að? Að þeir sem sitji að rétti, jafn­vel að afar óskil­greindum rétti, sem jafn­vel kann að stang­ast á við lög og rétt, t.d. til afnota af auð­lind, dún­tekju eða hvers lags veiði í þjóð­lendu eða í við­ur­kenndri fisk­veiði­lögsögu, greiði ein­ungis ígildi leigu á meðan aðrir fá ekki kom­ist að kötl­unum nema að kaupa þann rétt fullu og dýru verði – eða m.ö.o. að greiði fyrir öll afnot til fjölmargra ára áður en veið­ar­færum sé dýft í sjó, en horfi engu að síður upp á 5 til 8% afföll rétt­ar­ins á ári hverju er fram líði stund­ir?

Það var draumur Mart­ins Luthers Kings að ekki ein­ungis skyldu hvítir menn virða blökku­menn heldur blökku­menn jafn­framt þá hvítu – að alls burt­séð frá lit­ar­hætti og raunar kyn­þætti einnig og trú, fjöl­skyldu­bönd­um, við­skipta­hags­munum eða hvað­eina, skyldu allir vera jafnir fyrir lögum og rétti. Að sjálf­gefnu skyldu leik­regl­urnar vera þær sömu fyrir alla – án und­an­tekn­inga: We hold these truths to be sel­f-evident, that all men are created equ­al.

Nema að til sé hálf­gert jafn­ræði? Að sumir séu jafn­vel ofur­lítið jafn­ari en aðr­ir? That only some men were created equ­al?

Eða því skyldu nýliðar og vaxta­sprotar vera settir skör lægra en þeir sem löngum hafa setið að soð­kötl­un­um? Og hvers mega þeir gjalda sem keypt hafa þennan vafa­sama fisk­veiði­rétt dýrum dómum hin síð­ari ár án nokk­urrar með­gjaf­ar, ein­fald­lega af því að þeir áttu engra ann­arra kosta völ nema þá að þjóna sem leigu­liðar í skjóli hand­hafa gjafagjörn­ing­anna, en eiga þó enn langt í land með að afskrifa kaup­in?

Afnám sérafla­marks – upp­taka veiði­rétt­ar­gjalds

Því skyldi skrefið þá ekki vera tekið til fulls og öllum boðið að sitja jafnt að kötl­un­um? Eða til hvers að út­hluta sérafla­marki, mis­miklum kvóta, til ein­stakra aðila, til þess eins að skerða að hluta og bjóða til baka til kaups eða hverjum þeim öðrum sem frekar vildu kaupa, nýliðum eða gömlum og grónum í grein­inni – þegar eðli­leg­ast væri sam­kvæmt jafn­ræð­is­reglu að bjóða allan veiði­rétt, og þá und­an­tekn­ing­ar­laust allan, á kjörum sem ein­fald­lega réð­ust af fram­boði og eft­ir­spurn, líkt og gengi gjald­miðla ræðst á pen­inga­mark­aði, líkt og stýri­vextir ráð­ast af löngun okkar í krón­ur, líkt og verð hluta­bréfa ræðst í kauphöll­inni eða verð á baunum í Bónus eða Iceland, allt eftir fram­boði og eft­ir­spurn, alls burt­séð frá lit­ar­hætti, bú­setu, pólit­ík, trú?

Heild­ar­afla­mark ein­stakra fisk­teg­unda ræðst af ákvörðun stjórn­valda á hverjum tíma, með hlið­sjón af fiski­fræði­legri ráð­gjöf. Þannig hefur heild­ar­fram­boðið verið ákvarðað um langt ára­bil með góðum árangri, án þess að veru­lega hafi um það hafi verið deilt hin síð­ari ár. Bendir enda margt til að hin fiski­fræði­lega ráð­gjöf sé almennt á tals­verðum rökum reist.

Í stað þess að veiði­rétt­inum væri út­hlutað á mjög svo umdeildan hátt líkt og verið hefur und­an­farna ára­tugi, væri allt sérút­hlutað afla­mark upp­haf­ið, öll afla­marks­hlut­deild felld nið­ur, og allur sér­stakur stuðn­ingur í formi kvótaút­hlut­ana til ein­stakra byggða eða sókn­ar­marks í nafni strand­veiða aflagð­ur, en öll­um, sem á annað borð upp­fylltu almenn skil­yrði um búnað veiði­skipa sinna, væri heim­iluð frjáls veiði gegn greiðslu fyrir veiði­réttin þegar afla væri land­að, eðli­lega að teknu til­liti til reglu­gerða um tíma­bundnar lok­anir svæða og ann­arra slíkra tak­mark­ana. Veiði­rétt­ar­gjald­ið – krónur pr. kíló land­aðs afla – myndi ein­fald­lega mót­ast af heild­ar­fram­boði fisk­teg­undar sam­kvæmt ákvörðun stjórn­valda en á hinn bóg­inn af eft­ir­spurn, sókn í hverja fisk­teg­und á hverjum tíma.

Jafn­framt væri lagt strangt mat á raun­veru­leg kaup ein­stakra út­gerð­ar­manna á veiði­heim­ildum ákveð­inn ára­fjölda aftur í tí­mann, að frá­dregnum heim­ildum sem þeir kynnu að hafa selt frá sér á sama tíma, til grund­vallar hugs­an­legum sann­girn­is­bótum vegna nið­ur­fell­ingar sérút­hlut­aðs afla­marks, og kæmu þá ein­ungis til álita heim­ildir sem sann­ar­lega hefðu gengið beinum kaupum og sölum milli óskyldra aðila. Væri þá sér­stak­lega horft til þess hve sérafla­marks­kerfið hefur verið andsnúið nýliðum í út­gerð og þeim sem kosið hafa að vaxa innan grein­ar­innar án þess að hafa til þess for­skot gjafagjörn­inga eða á hinn bóg­inn langan tíma til að afskrifa gömul kaup á sérafla­marki, afla­marks­hlut­deild, í skjóli fákeppni. Verða þessum atriðum um sann­girn­is­bætur gerð frek­ari skil í síð­ari köflum grein­ar­inn­ar.

Við­mið veiði­rétt­ar­gjalds

Hér að neðan er sýndur mán­að­ar­legur þorskafli á ár­unum 2005 til 2016. Hlut­falls­leg skipt­ing afla frá einum mán­uði til ann­ars er nokkuð áþekk öll ár­in – er veiðin yfir­leitt mest þegar nokkuð er liðið á vetur en minnst um mitt sumar en eykst síðan á ný á haustin þar til að úr henni dregur í des­em­ber og jan­ú­ar. Á hverjum tíma árs er því nokkuð greini­legt hvað má kall­ast hlut­falls­lega lítil eða miðl­ungs eða mikil veiði sam­an­borið við veiði­hlut­föll á hinum ýmsu tíma­bilum hinna ýmsu ára eða ein­hvers sem kalla mætti með­al­ár.

Heimild: Hagstofa Íslands Ljóst má vera að vert­íð­ar­göngur og fiski­gengd almennt, veð­ur­far og gæftir hafa áhrif á afla­brögð, auk þess sem t.d. neta­veiði­tak­mark­anir á hrygn­ing­ar­t­ím­anum og sum­ar­frí og jóla­frí fisk­vinnslu­fólks og sjó­manna hamla veið­um, en meg­in­línur eru svip­aðar frá ári til árs í grófum drátt­um.

Veiði­rétt­ar­gjald – krónur pr. kíló land­aðs afla – myndi vera ákvarðað á hverjum tíma, frá degi til dags eða viku til viku eða frá einum mán­uði til ann­ars, allt eftir því hver sóknin væri á hverjum tíma, en ekki síður að teknu til­liti til hinna ýmsu ofan­greindu þátta. Væri veiði óvenju lítil þrátt fyrir góðar gæftir og afla­brögð væri það vís­bend­ing um að gjaldið væri of hátt, en á hinn bóg­inn að það væri of lágt ef land­aður afli teg­undar stefndi í að verða meiri en út­hlutað heild­ar­afla­mark veiði­t­íma­bils.

Úfærsla veiði­rétt­ar­gjalds

Útfærsla veiðiréttargjalds.Myndin sýnir ímyndað framtíð­ar­ár eða við­mið­un­ar­t­íma­bil, með þorsk­veiði sem dæmi. Við ímynd­um okkur að dökk­blái fer­ill­inn sé settur fram í upp­hafi árs (eða tíma­bils sem gæti verið styttra eða lengra eða náð yfir venju­legt fisk­veiði­ár), sem spá um lík­lega eða venju­bundna skipt­ingu þorskafla frá mán­uði til mán­aðar að teknu til­liti til heild­ar­afla­marks árs­ins og með­al­lags ár­stíða­bund­inna sveiflna fyrri ára, sbr. súlu­ritið hér ofar er sýnir afla í ein­stökum mán­uðum ár­anna 2005 til 2016. Ljós­bláu súl­urnar sýna á hinn bóg­inn raun­veru­legan afla hvers mán­að­ar – og veit þá eng­inn í lok hvers mán­aðar hvernig veiðin mun þró­ast það sem eftir er árs­ins.

Afl­inn í febrúar og þó sér í lagi í mars umfram með­al­lagið kann að stafa af góðum gæftum og fiski­gengd en hafi á hinn bóg­inn ekki svo verið má ætla að veiði­rétt­ar­gjaldið hafi verið of lágt. Gerum ráð fyrir hinu síð­ar­nefnda og hefur veiði­rétt­ar­gjaldið því verið hækk­að. Þegar kemur fram í júní er ljóst að veiði er undir því sem vænta mætti að gefnum ágætum gæftum og ekki slakri fiski­gengd miðað við ár­stíma. Veiði­rétt­ar­gjaldið er því lækkað og kann það að vera skýr­ingin á því að veiðin nær jafn­vægi í júlí miðað við með­al­ár en er hlut­falls­lega heldur umfram hið venju­bundna í ág­úst. Það sem eftir er árs­ins er hlut­falls­leg veiði frá einum mán­uði til ann­ars nálægt hlut­falls­legu með­al­lagi við­mið­un­aráranna, sem bendir til þess að veiði­rétt­ar­gjaldið hafi verið ákvarðað sem næst rétt, þá e.t.v. með því að hækkað hafi verið eða lækkað frá einum tíma til ann­ars þetta haust fram á vet­ur, og kann þess þó ekki endi­lega að hafa verið þörf. En mark­miðið með breyti­legu gjaldi er einmitt að stemma veiði hverrar teg­undar svo af – á hverjum tíma árs­ins, að teknu til­liti til alls – að heild­ar­afli árs­ins verði sem næst út­hlut­uðu heild­ar­afla­marki.

Með þessum hætti má auð­veld­lega stýra sókn í allar eða all­flestar fisk­teg­und­ir, og mætti raunar með mis­háu/mis­lágu veiði­rétt­ar­gjaldi fyrir mis­mun­andi stærðir eða þunga fisks, t.d. fyrir stór­þorsk, miðl­ungs­þorsk, smáþorsk og und­ir­mál, eða stórlúðu og smálúðu, eða stóran humar og smáan, eða nán­ast fyrir hvaða fisk­teg­und sem væri, hafa áhrif á sókn í hina ýmsu stærð­ar­flokka eða ár­ganga teg­und­anna, allt eftir því hvað fiski­fræð­ingar teldu æski­legt til efl­ingar eða við­halds hinna ýmsu fiski­stofna, og þó ávallt eftir ákvörðun eða heim­ild stjórn­valds.

Vegna þess hve heild­ar­afla­mark upp­sjávar­teg­unda er ákvarðað með ólíkum hætti miðað við botn­fisk, oft með stuttum fyr­ir­vara eða fyrir stutt tíma­bil í senn, jafn­vel oft á hverju fisk­veiði­ári og út frá for­sendum sem geta breyst mjög hratt hvenær sem er á veiði­t­íma­bili, ein­fald­lega vegna nátt­úru­legs eðlis og við­kvæmni upp­sjávar­fiska fyrir umhverf­is­breyt­ing­um, kann að vera að veiði­rétt­ar­gjald fyrir upp­sjávarafla væri betur ákvarðað með öðrum hætti en hér hefur verið lýst, e.t.v. með reglu­legum upp­boðum í kjölfar ákvörð­unar um afla­mark hverrar teg­undar eða breyt­ingu þess á hverjum tíma.

Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvaða aðferð myndi henta best til gjald­töku af upp­sjávarafla en fyrst og fremst miðað við að gjaldið væri í hlut­falls­legri sam­svörun við annan sjávarafla – að helg­að­ist af fram­boði og eft­ir­spurn. En væri veiði­rétt­ar­gjald fyrir upp­sjávarafla út­fært á þann veg sem hér hefur verið lýst, líkt og fyrir annan sjávarafla, þá væri m.a. sá mögu­leiki fyrir hendi að bjóða tíma­bund­ið nei­kvætt gjald fyrir land­aðan afla, m.ö.o. greiðslu fyrir hvert landað tonn, þegar svo hátt­aði til að t.d. loðna væri til í miklu magni að áliti fiski­fræð­inga en hún væri ein­hvers staðar týnd í hafi. Greiðslan væri þá hvatn­ing til út­gerð­ar­manna, þeim væri þá bein­línis greitt fyrir að leita loðn­unn­ar – en þegar hún væri fundin og farin að veið­ast í umtals­verðu magni þá sner­ist dæmið við og gjald­takan tæki mið af eft­ir­sókn­inni. Myndi þessi aðferð­ar­fræði að sjálfsögðu gilda um allan vand­fund­inn fisk þegar svo hátt­aði til að hann hlyti engu að síður að halda sig ein­hvers staðar í vel veið­an­legu magni að áliti fiski­fræð­inga.

Fyrstu mán­uði og miss­eri eftir upp­töku veiði­rétt­ar­gjalds má gera ráð fyrir að það myndi sveifl­ast nokkuð á meðan stöð­ug­leika væri leit­að. Það kynni jafn­vel að taka fáein ár að ná góðu jafn­vægi og þó því skemmri tíma sem ljósar lægi fyrir hvers eðlis slíkt gjald er. Frelsi til veiða væri sann­ar­lega ekki algjört, a.m.k. ekki fjár­hags­lega, enda héldi eng­inn út­gerð­ar­maður það út til lengdar að greiða hærra veiði­rétt­ar­gjald en afkoma út­gerðar hans heim­il­aði í bráð og lengd. Það má því telja lík­legt að veiði­rétt­ar­gjaldið tæki fremur litlum breyt­ingum frá einum ár­stíma til ann­ars eftir að jafn­vægi væri náð, hvað þá frá degi til dags, en að sveiflur myndu fremur mót­ast af langt­íma­áhrifum mark­aðs­verðs á fiski og fiskaf­urð­um, olíu­verði, skipta­kjörum sjó­manna og öðrum áhrifa­þáttum út­gerð­ar­kostn­aðar frá ári til árs eða einu ára­bili til ann­arra.

Slæmar horfur á afurða­mörk­uð­um, hátt olíu­verð eða erf­iðir kjara­samn­ingar myndu leiða til minni fjárráða út­gerð­ar­manna og þar með minnk­andi áhuga á veið­um – nema gjaldið lækk­aði til mót­væg­is. Að öðrum kosti væri hætta á að veiði næði ekki að vega á móti út­hlut­uðu afla­marki. Á sam­svar­andi máta myndi góð afkoma og vax­andi veiði­áhugi leiða til hækk­unar gjalds­ins, allt eftir því hver væri eft­ir­spurn í hina ýmsu veiði­stofna, eða þyngd­ar- og stærð­ar­flokka stofn­anna, til mót­vægis fram­boðnum veiði­heim­ildum stjórn­valda.

Ákvörðun veiði­rétt­ar­gjalds

Stjórn­ar­skráin heim­ilar ekki að neitt gjald megi leggja á né breyta né af taka nema með lög­um, ekki frekar en að neitt gjald megi greiða af hendi nema heim­ild sé til þess í fjár­lögum eða fjárauka­lög­um. Veiði­rétt­ar­gjald yrði því á einn eða annan veg að vera ákvarðað með lögum út frá skýrum, skil­greindum mark­mið­um. Fram­kvæmda­vald­inu væri þá falin nán­ari ákvörðun gjalds­ins innan lag­ara­mmans. Hvort löggjaf­inn ákvarð­aði jafn­framt að sér­stök stofnun hefði hlut­verkið með hönd­um, t.d. veiði­rétt­ar­stofa, er væri þá undir þar til bært ráðu­neyti sett, eða að löggjaf­inn setti þar til bæru ráðu­neyti þá skyldu að fela við­ur­kenndri fjár­mála­stofnun umsjón með reikni­verki gjalds­ins, það væri alfarið í höndum löggjafans að ákvarða. Á hvorn veg sem væri þá væri það ávallt hlut­verk fram­kvæmd­ar­að­il­ans að ákvarða veiði­rétt­ar­gjaldið frá einum tíma til annars – innan lag­ara­mmans – með þeim hætti að veiðar mynd­uðu því sem næst jafn­vægi mót út­hlut­uðu heild­ar­afla­marki hvers veiði­t­íma­bils – ekki ólíkt og þegar pen­inga­stefnu­nefnd seðla­banka er falið að ákvarða stýri­vexti með hlið­sjón af nánar skil­greindum mark­mið­um.

Hver sem sá við­ur­kenndi aðili væri sem hefði með höndum að reikna álagn­ingu gjalds­ins á hverjum tíma, þá væru það fyrst og fremst líkinda­fræð­ingar sem ynnu hin dag­legu störf. Reikni­meist­arar er ynnu á ekki ólíkum for­sendum og trygg­inga­fræð­ingar sem reikna iðgjöld út frá líkindum atburða, og þá eðli­lega að teknu til­liti til marg­vís­legra orsaka­valda og ráð­gjafar á hinum ýmsu sviðum fiski­fræði, fisk­veiða, fisk­vinnslu og sjávar­af­urða­mark­aða. Það væri þeirra hlut­verk að horfa yfir allt sviðið og meta á hverjum tíma alla þá þætti sem hafa áhrif á veiði, áhrif á sókn, og ákvarða veiði­rétt­ar­gjaldið á þann veg að veiði hverrar teg­und­ar, og e.t.v. eftir þyngd­ar- og stærð­ar­flokkum jafn­framt, myndi vera sem næst í jafn­vægi við út­hlutun stjórn­valda á heild­ar­afla­marki hvers fisk­veiði­árs eða veiði­t­íma­bils.

Laga­legur réttur og róm­ant­ík

Hvers mega þeir þá gjalda sem keypt hafa fisk­veiði­rétt, sérafla­mark, kvóta, án nokk­urrar með­gjaf­ar, og eiga enn langt í land með að afskrifa kaup­in? Raunar hefur eng­inn átt slíkan rétt nema til árs í senn, svo skýrt sem það hefur verið sam­kvæmt lög­um, þó að ára­tugum saman hafi hann gengið kaupum og söl­um, líkt og treysta mætti því að rétt­ur­inn yrði smám saman og jafn­vel af sjálfum sér ævar­andi. Líkt og eign­ar­rétt mætti öðl­ast fyrir ein­hvers konar hefð­ar­rétt í róm­ant­ískum skiln­ingi, líkt og leigj­andi gæti eign­ast íbúð fyrir ára­tuga hefð og vana­festu, jafn­vel erfða­festu, og selt frá sér fast­eign­ina eða leigt út frá sér að vild af því að íbúð­ar­eig­and­inn hefði ekki hirt um að gæta réttar síns, jafn­vel varla rétt­ar­ins til að taka leigu.

Kristjanía í Kaupmannahöfn.Því verður ekki í móti mælt að und­an­farna ára­tugi hafa ýmsir af áhrifa­mestu ráða­mönnum þjóð­ar­innar einmitt ljáð máls marg­ítrekað á slíkum skoð­unum í ræðu og riti sem túlka mætti á þann veg, líkt og aldagamlar laga- og þinglýs­ing­ar­hefðir ættu sér nú enga stoð gagn­vart ný­upp­fund­inni kvóta­hefð­inni, og fóru slík sjón­ar­mið allsnemma að skjóta rótum jafn­vel innan laga­stofn­ana. Hefur fáum tek­ist betur að lýsa þessu róm­ant­íska við­horfi í hnot­skurn en Sig­urði Líndal, lög­fræð­ingi og löngum pró­fessor við laga­deild Háskóla Ís­lands, í grein­ar­korni í Frétta­blað­inu í til­efni af fyr­ir­hug­uðu stjórn­laga­þingi 2011:

Með veiði­reynslu öfl­uðu menn sér upp­haf­lega veiði­rétt­inda með námi eða töku á eig­enda­lausum verð­mætum - fiski - sem síðar voru nánar afmörkuð með lögum þegar nauð­syn­legar reynd­ist að tak­marka sókn í nytja­stofn­ana.

Þannig var rót tísku­orðs­ins kvóta, rót allrar róm­ant­ík­ur­inn­ar, rakin nán­ast aftur í ár­daga, með þeim rök­stuðn­ingi að menn, sem sagt út­gerð­ar­menn, hefðu upp­haf­lega aflað sér veiði­rétt­inda á við­líka hátt og forn­menn er þeir námu hér land og tóku sér eig­enda­laus verð­mæti með friði og spekt. Líkt og ís­lenska ríkið hefði aldrei staðið að námi eða töku veiði­rétt­ar­ins á haf­svæð­inu kringum Ís­land með ein­hliða út­færslu fisk­veiði­lögsögu fyrst frá 3 mílum út að 4 mílum eða þaðan út að 12 míl­um. Hvað þá út að 50 mílum eða loks að 200 míl­um. Hvað þá að það sama ríki hefði átt í þrálátum deil­um, hvað þá staðið í ströngum stríð­um, við ríki er einmitt töldu sig eiga þennan veiði­rétt og til­kall til verð­mæt­anna ekk­ert síð­ur, ekki síst í krafti langvar­andi veiði­reynslu, jafn­vel margra alda reynslu.

Líkt og það hefðu verið þeir sömu menn, út­gerð­ar­menn, sem rit­uðu undir Haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­ein­uðu þjóð­anna til alþjóð­legrar þinglýs­ingar og stað­fest­ingar á efna­hagslögsögu og óskor­uðum veiði­rétti allt út að 200 míl­um, en ekki ís­lenska rík­ið, hinn raun­veru­legi hand­hafi verð­mæt­anna.

Líkt og Alþingi hefði aldrei afmarkað nein þrjú ár veiði­reynslu – allrar þús­aldar gam­allar fisk­veiðis­ögu þjóð­ar­inn­ar – til grund­vallar út­deil­ingu á hlut­deild í fisk­veiði­rétti til eins árs í senn, í senn – heldur hefðu út­gerð­ar­menn ein­ungis aflað sér rétt­ind­anna með námi eða töku verð­mæt­anna í friði og spekt, líkt og þorsk­inum mætti jafna til Dafnis en Klói til gamla LÍÚ, eða á hvorn veg­inn sem það nú væri.

Þver­sögn laga og réttar

Hvert er þá við­horf löggjaf­ar­sam­kom­unnar til þeirra er í tímans rás hafa keypt sérafla­mark, kvóta, með allt traust sitt á hinum ýmsu ráða­mönnum þjóð­ar­inn­ar, hinum ýmsu stjórn­mála­leið­togum allra flokka, er leitt hafa ríkis­stjórnir und­an­far­inna ára­tuga? Á meðan lögin sögðu eitt, og aðeins eitt – eitt ár í senn – létu þeir að allt annarri túlkun liggja eða létu iðu­lega kyrrt liggja, eða létu sér jafn­vel í léttu rúmi liggja, og jafn­vel með full­tingi virt­ustu lög­spek­inga þjóð­ar­inn­ar, svo sem hér hefur verið rifjað upp, að fisk­veiði­rétt­ur­inn hlyti með tíð og tíma að öðl­ast ævar­andi gildi, að væri jafn­vel búinn að öðl­ast sitt sér­eign­ar­rétt­ar­gildi, líkt og um nám forn­manna á eig­enda­lausum verð­mætum væri að ræða. Alls burt­séð frá hvað lögin ann­ars segðu. Lögin sem þeir höfðu þó flestir ýmist ljáð atkvæði sitt bein­línis eða sam­þykkt í ár­anna rás með þegj­andi þögn­inni, með þau þó vok­andi yfir sér.

Eða hvert var við­horf banka þjóð­ar­inn­ar – rík­is­bank­anna gömlu – Lands­bank­ans, Út­vegs­bank­ans (síðar Ís­lands­banka/Glitn­is/Ís­lands­banka), Bún­að­ar­bank­ans (síðar Kaup­þings/­Arion­banka), til löggjaf­ar­inn­ar? Að út­hlutuð afla­marks­hlut­deild til eins árs í senn gæti sann­ar­lega jafn­gilt marg­földu veð­hæfi jafn­vel fún­ustu fleyja og ryð­kláfa, enda skipti veð­stofn­inn, fley­ið, litlu, heldur fyrst og fremst veiði­rétt­ur­inn, afla­mark­ið, veð­hæfi kvót­ans, sem að samdóma áliti banka­stjóra og stjórn­ar­manna allra bank­anna jafn­gilti a.m.k. langvar­andi eign ef ekki ævar­andi – alls burt­séð frá því hvað lögin segðu. Voru þeir þó flestir hrein afsprengi Alþing­is, sjál­frar löggjaf­ar­sam­kom­unnar sem lögin hafði sett, sumir jafn­vel fyrrum ráð­herrar eða hrein­rækt­aðir flutn­ings­menn laga­frum­varpa, nema hvorttveggja væri, þar sem ót­vírætt var kveðið á um að út­hlutun veiði­heim­ilda mynd­aði ekki eign­ar­rétt eða óaft­ur­kall­an­legt for­ræði ein­stakra aðila yfir verð­mæt­un­um. Mátti því engum vera ljós­ara en einmitt þeim, að heim­ildum var aldrei út­hlutað að lögum nema til eins árs í senn – hvað þá að nokkur banki hefði raun­veru­legar laga­legar stoðir til að hreppa slíkar heim­ildir lög­taki á ein­hverjum tíma­punkti fisk­veiðis­ög­unn­ar.

Sið­rofið var algjört. Sömu menn og settu lög er tak­mörk­uðu veiði­rétt­ar­heim­ildir til ein­ungis eins árs í senn í nafni rík­is­valds er ætti rétt­inn – eða með öðrum orðum skil­greindu svo nytja­stofna á Ís­lands­miðum að þeir væru sam­eign ís­lensku þjóð­ar­inn­ar – þeir hik­uðu ekki við að taka veð í sömu heim­ildum fyrir lánum er þeir veittu til margra ára í nafni rík­is­banka, án þess að Alþingi eða dóm­stólar gyldu minnsta var­hug við þver­sögn­inni. Þannig voru lín­urnar lagðar af ráða­mönnum og fylgdu með í kaupum er bank­arnir voru einka­vædd­ir, að í raun­inni væri alls óhætt að versla með eign­ar­rétt rík­is­ins líkt og sér­eign­ar­réttur ein­stak­linga eða fyr­ir­tækja væri, og virð­ist áhættan af þessum væg­ast sagt vog­uðu við­skiptum engu breyta þótt bank­arnir séu nú að miklu leyti orðnir ríkis­eignir á ný, engu líkara en að nátt­úruréttur villtasta dýr­aríkis gilti en ekki þús­ald­ar­gömul sið­menn­ing þjóðar sem með lögum vildi land byggja.

Hvers mega þeir út­gerð­ar­menn þá gjalda sem lögðu allt traust sitt á æðstu ráða­menn þjóð­ar­inn­ar, innan þings eða berj­and­ist bljúgir við þá í bönkum? Skyldi þeim þó síst vor­kennt er í upp­hafi hrepptu gjafa­for­skotin og veitt hafa ómældum fjármunum til efl­ingar þver­sögn­inni, ekki síst með stuðn­ingi við þá stjórn­mála­flokka og fjölmiðla er mæra mest ráðs­menn hins laga­lega tvískinn­ungs.

Sann­girn­is­bæt­ur?

Vissu­lega eru dæmi þess að löggjaf­ar­sam­koma þjóð­ar­innar hafi beitt sér fyrir leið­rétt­ingu á gjörðum sín­um. Skemmst er að minn­ast Leið­rétt­ing­ar­innar með stórum staf, þá er stjórn­mála­flokkar með meiri­hluta á Alþingi haustið 2014, bak­hjarlar ríkis­stjórnar Sig­mundar Dav­íðs og Bjarna Bene­dikts­son­ar, kusu að leið­rétta stór­felld mistök er ríki­stjórn­um, með stuðn­ingi aðal­lega sömu stjórn­mála­flokka og þó einum bet­ur, hafði orðið á, á ár­unum fyrir hrun.

Stór­felldri fjáröflun ríkis­sjóðs, skatt­tekjum af gríð­ar­legum hrakvirð­is­gróða gömlu bank­anna, var deilt út til fast­eigna­skuld­ara nær einna í stað þess, sem ýmsir hefðu e.t.v. talið sann­gjarn­ara, að lækka skuldir ríkis­sjóðs, sem var þó lík­lega grátt leikn­ast­ur, og efla þá jafn­framt þær stofn­anir á ný sem verst urðu úti í hrun­inu. En á meðan stofn­unum hélt áfram að blæða og innviðum rík­is­ins hrak­aði og hrakar enn, fór fast­eigna­mark­að­ur­inn á flug, að all­nokkru leyti vegna um 100 millj­arða króna stuðn­ings – leið­rétt­ing­ar – rík­is­ins, að teknu til­liti til affalla vegna hlið­ar­áhrifa. Afleið­ing­arnar eru m.a. þær að ungt fólk og eigna­lítið hefur sjaldan átt minni mögu­leika á að eign­ast þak yfir höf­uð­ið, enda blómstrar leigu­mark­að­ur­inn sem aldrei fyrr. Fast­eigna­skuld­arar hrunár­anna fengu vissu­lega bæt­ur, þó ekki síst væri í formi veru­legrar eigna­aukn­ingar vegna síhækk­andi fast­eigna­verðs frekar en að til­lagið frá ríkis­sjóði hefði skipt sköpum eitt og sér, nema til að ýta undir hækk­an­irn­ar, en eftir sitja smæ­lin­gj­arn­ir, sjaldan lakar sett­ir.

Til þess eru vítin að var­ast. Eða er ger­legt að leið­rétta ára­tuga gam­alt mis­rétti laga­legs tvískinn­ungs, þá miklu þver­sögn laga­setn­ingar og fram­kvæmdar laga um veiði­rétt í ís­lenskri fisk­veiði­lögsögu, sem ráðið hefur lögum og lofum í ís­lenskri pólit­ík und­an­farna þrjá ára­tugi? Eða verður spill­ing upp­rætt aftur í tí­mann? Eða verður ein­ungis skorið fyrir rætur spill­ing­ar­innar þannig að blóm­stri ei meir?

Djúpavogshöfn um miðja 20. öld. Auður þeirra sem blómg­uð­ust í krafti gjafagjörn­inga verður ekki aftur tek­inn. Sann­ast sagna, sem betur fer, auðn­að­ist þó fleirum en færri að spila svo úr auð­fengnum gróð­anum að skilað hefur þjóð­ar­búinu rentum á ýmsan máta. Þó að vit­laust væri gefið hefur mörgum meg­in­mark­miðum ís­lenska fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerf­is­ins engu að síður verið náð, kannski ekki síst vegna þess, sem betur fer, hve margir þeirra sem hlotn­að­ist náðin í upp­hafi höfðu þó nógu sterk bein til að þola með­gjöf­ina og létu sam­félag sitt njóta blóm­legs rekstrar og a.m.k. hluta afrakst­urs­ins. Af hinum fer minni sögum sem seldu frá sér lífs­af­komu jafn­vel heilu byggð­ar­lag­anna og glutr­uðu svo niður auðnum í við­skipta­braski sem þeir höfðu ekki hunds­vit á.

Hér verður ekki leitað söku­dólga né heldur spurt hvort draga ætti fjölmarga ráða­menn und­an­far­inna ára­tuga fyrir dóm vegna órétt­læt­is­ins sem þeir hafa stuðlað að, ýmist með aðgerðum sínum eða aðgerð­ar­leysi, hvað þá hvort taka ætti einn eða annan út úr og hengja svo bak­ara fyrir smið, jafn­vel fyrir lands­dómi. Heldur snýst spurn­ingin um hvort gera megi slíka leið­rétt­ingu á fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerfi, sem á ýmsan hátt hefur þó jafn­vel reynst vera það skásta í afar spilltum heimi sjávar­auð­lind­anýt­ingar jarð­ar, að það gæti a.m.k. státað af slíkum leik­regl­um, að væru hinar sömu fyrir alla – án und­an­tekn­inga.

Upp­gjör/­leið­rétt­ing

Sam­kvæmt því sem hér hefur verið rakið verður sérafla­mark varla afnumið né veiði­rétt­ar­gjald lagt á afla fyrr en sam­þykktar hafa verið upp­gjörs­reglur um sann­girn­is­bætur til handa þeim sem keypt hafa afla­marks­hlut­deild, kvóta, á hinum síð­ari árum án þess að hafa haft tæki­færi til að afskrifa kaup­in, þannig að staða þeirra, við upp­töku veiði­rétt­ar­gjalds, væri leið­rétt gagn­vart þeim sem litlar eða engar afskriftir hefðu að glíma við vegna kvóta­kaupa. Þetta væru í raun­inni bætur til út­gerð­ar­að­ila vegna við­skipta sem stjórn­mála­menn og fjár­mála­stofn­anir hafa lagt blessun sína yfir og bein­línis hvatt til á marg­vís­legan máta, beint og óbeint, þrátt fyrir að flest laga­leg skil­yrði skorti, enda um að ræða við­skipti, kaup- og sölu­gern­inga, óskyldra aðila með eign er ávallt hefur þó verið á hendi rík­is­valds­ins, án þess að það hafi þó nokkurn tí­mann afsalað sér eign­inni á nokkurn hátt, heldur ein­ungis út­hlutað nýt­ing­ar­rétti á henni til eins árs í senn hið lengsta.

Strangt mat væri lagt á raun­veru­leg kaup ein­stakra út­gerð­ar­manna á veiði­heim­ildum ákveð­inn ára­fjölda aftur í tí­mann, að frá­dregnum heim­ildum sem þeir kynnu að hafa selt frá sér á sama tíma, og kæmu þá ein­ungis til álita heim­ildir sem sann­ar­lega hefðu gengið beinum kaupum og sölum milli óskyldra aðila.

Væri þetta mat vegið á marg­vís­legan máta með til­liti til ákveð­ins afskrift­ar­t­íma, e.t.v. 16 ára, eða eftir því hvað sann­gjarnt þætti. Með því væri ekki endi­lega við­ur­kennd laga­leg skylda hins opin­bera til greiðslu skaða­bóta, þrátt fyrir ósann­girni laga um sérafla­mark – en engu að síður væri komið til móts við sann­girniskröfur þeirra sem ekki hafa átt þess kost hin síð­ari ár að öðl­ast hlut­deild eða að auka við sig hlut­deild í ár­leg­um, út­hlut­uðum veiði­heim­ildum nema með kaupum á sérafla­marki, afla­marks­hlut­deild.

Ef 16 ára afskrift­ar­t­ími væri lagður til grund­vallar upp­gjöri/­leið­rétt­ingu, kæmu ein­ungis til álita við­skipti með afla­marks­hlut­deild frá þess­ari öld. Þá væri litið svo á að út­gerð­ar­menn sem keyptu kvóta fyrir aldamótin hefðu afskrifað kaupin og ættu því að vera vel í stakk búnir til að greiða veiði­rétt­ar­gjald án þess að kvóta­kaup fyrri ára íþyngdu þeim. En væru kvóta­kaup t.d. helm­ingi yngri, eða um átta ár liðin frá þeim, væru þau ein­ungis afskrifuð til hálfs og geta út­gerð­ar­manns­ins til greiðslu veiði­rétt­ar­gjalds eftir því lak­ari án leið­rétt­ing­ar. Á sam­svar­andi máta myndi út­gerð­ar­maður sem keypti kvóta fyrir ári síðan eiga hann næstum því allan óaf­skrif­að­an, eða að 15/16 hlut­um, og ætti því afar litla mögu­leika á að greiða veiði­rétt­ar­gjald, nema fyrir til­stuðlan leið­rétt­ing­ar, sam­an­borið við þá sem hefðu skilið við sinn kvóta sem næst afskrif­að­an.

Öll kvóta­kaup síðast­lið­inna 16 ára milli óskyldra aðila, að frá­dregnum kvóta­sölum til óskyldra aðila, yrðu þannig lögð til grund­vallar og bæt­urnar reikn­aðar því minni hlut­falls­lega sem lengra væri frá lið­ið, allt að 16 ár­um. Hver og einn yrði að leggja fram sönnur fyrir kaupum sín­um, sbr. m.a. lög um bók­hald, um varð­veislu­skyldu bók­halds­gagna a.m.k. 7 ár aftur í tí­mann, auk þess sem það má telja eðli­lega kröfu til kaup­enda kvóta að þeir geymdu gögn til sann­inda­merkja um kaupin væru þau eldri en það, enda um það veru­leg áhættu­kaup að ræða að ávallt hefur mátt gera ráð fyrir að þau gætu orðið vé­fengd ein­hverntí­mann, allt frá upp­töku kvóta­kerfis og sérafla­marks.

Við upp­gjör og út­reikn­ing leið­rétt­ingar væri jafn­framt horft til þess hve sérafla­marks­kerfið hefur ávallt verið andsnúið nýliðum í út­gerð og þeim sem kosið hafa að vaxa innan grein­ar­innar án þess að hafa til þess for­skot gjafagjörn­inga eða mjög langs tíma til að afskrifa gömul kaup á kvóta, afla­marks­hlut­deild. Kaup byggð á slíku for­skoti, þ.e.a.s kvóta­kaup sem stydd­ust við höf­uð­stól gam­allar hlut­deildar eða upp­safn­aðrar afla­marks­hlut­deildar á mjög löngum tíma, nytu eftir því minni leið­rétt­ingar sem vægi höf­uð­stóls­ins gagn­vart kaup­unum væri meira – allt eftir nán­ari reglum þar um, hve þungt slíkt for­skot skyldi vega til frádráttar leið­rétt­ingu, að mati löggjafans, þó eðli­lega að teknu til­liti til jafn­ræð­is­reglu.

Bætur hvers og eins væru reikn­aðar alls óháð stöðu eða framtíð umsækj­anda, hvort héldi áfram út­gerð eða ekki, og væru greiddar út á jafn­lengd þess tíma afskrifta sem eftir væri. Væru bæt­urnar einnig alls óháðar því hvort kvóta­kaup hefðu upp­haf­lega verið fjár­mögnuð með lánum eða hreinu eigin fé, að hluta eða öllu leyti. Sá sem hefði keypt kvóta fyrir 12 árum fengi þannig eft­ir­stöðvar af afskriftum greiddar út á næstu 4 árum, svo dæmi sé tek­ið, en eft­ir­stöðvar afskrifta 8 ára gam­alla við­skipta fengjust greiddar á 8 árum, en 1 árs gam­alla við­skipta á 15 árum – ef miðað væri við 16 ára heild­ar­af­skrift­ar­t­íma allra kaupanna – þó ávallt að teknu til­liti til for­skots við kvóta­kaup, vægi höf­uð­stóls eldri og afskrif­aðs kvóta gagn­vart kaup­un­um.

Tekj­ur/gjöld

Leið­rétt­ing stjórn­valda vegna mis­réttis af völdum van­stjórnar eða slæmrar efna­hags­stjórn­unar á lið­inni tíð verður aldrei reiknuð svo aftur í tí­mann að full sátt náist, svo sem Leið­rétt­ingin 2014 hefur sýnt og sann­að. Slík stjórn­valds­leið­rétt­ing getur heldur aldrei orðið annað en mis­góð nálg­un. Fjöldi þeirra aðila sem leið­rétt­ing nær til og ekki síður marg­breyti­leiki þess mis­réttis sem leið­rétta skal skiptir þó ekki síst sköpum um flækju­stig rétt­læt­is­ins. Leið­rétt­ingin 2014 náði til tug­þúsunda skuld­ara u.þ.b. ára­tug aftur í tí­mann og taka þurfti til­lit til fjölmargra forma á láns­samn­ing­um, og voru þó ófá láns­formin úti­lok­uð, fjölda skuld­ara til hrell­ingar og jafn­vel dóms­dags.

Leið­rétt­ing vegna mis­réttis við út­hlutun á afla­heim­ild­um, eða í fram­haldi af nið­ur­fell­ingu útlána á slíkum heim­ildum ef svo má segja, tæki varla til nema örfárra hund­raða aðila, rétt rúman einn og hálfan ára­tug aftur í tí­mann, miðað við 16 ára afskrift­ar­t­íma, og þó með því meira vægi sem skemmra væri um lið­ið. Væru það þó varla nema örfáir tugir aðila sem gætu gert til­kall til veru­legrar leið­rétt­ingar í tugum eða hund­ruðum millj­óna króna talið en því færri til millj­arða króna, og myndu greiðsl­urnar þó dreifast yfir langt tíma­bil, eða yfir hálfan annan ára­tug.

Það sem skiptir þó sköpum við sam­an­burð þess­ara tvenns­konar leið­rétt­inga er tekju­hlið­in. Leið­rétt­ingin 2014 mun kosta ríkis­sjóð alls um 100 millj­arða króna þegar upp verður stað­ið, en tekjur til mót­væg­is, af banka­skatti, vega þar a.m.k. nokkurn veg­inn á móti. Tekjur af veiði­rétt­ar­gjaldi myndu hins vegar að öllu jöfnu hlaupa á tugum millj­arða króna á ári, nema að ís­lensk út­gerð væri því verr á vegi stödd, en út­gjöld af völdum leið­rétt­ingar vegna afnáms sérafla­marks, sam­hliða upp­töku veiði­rétt­ar­gjalds, myndu ein­ungis nema mjög litlum hluta þess og þó fara minnk­andi frá ári til árs og heyra sög­unni nær alfarið til að hálfum öðrum ára­tug liðn­um.

Fákeppn­is­mark­að­ur­/frjáls mark­aður

Út­hlutað afla­mark á yfir­stand­andi fisk­veiði­ári, án upp­sjávarafla, nemur alls tæp­lega 430 þúsund tonn­um, eða sem svarar til um 370 þúsund tonnum í þorskí­gildum talið. Með­al­tals­verð fyrir leigu á afla­marki þorsks sl. ára­tug nemur um 223 krónum á kíló, sam­kvæmt vef Fiski­stofu, og hefur mjög lítið sveifl­ast á þeim tíma. Þó ekki væri miðað við að veiði­rétt­ar­gjald næmi til jafn­aðar nema um helm­ingi þess leigu­verðs fyrir heild­ar­botn­fisk­afla umreikn­aðan í þorskí­gildiskíló, að næmi um 110 krónum á kíló, þá myndu tekjur af veiði­rétt­ar­gjaldi fyrir sam­svar­andi botn­fisk­afla og þessa fisk­veiði­árs engu að síður nema góðum 40 millj­örðum króna.

Þorskí­gild­is­stuðlar hinna ýmsu fisk­teg­unda gefa aðeins mjög grófa hug­mynd um verð á ein­stökum fisk­teg­und­um, ekki síst þegar upp­sjávar­afli á í hlut, auk þess sem upp­sjávar­afli sveifl­ast oft veru­lega frá einu ári til ann­ars, og þá ekki síður mælt í afla­verð­mæti. Til ein­föld­unar má e.t.v. mjög gróft á litið miða við að heild­ar­afli botn­fisks og upp­sjávar­fisks gæti numið um 500 þús. þorskí­gildistonnum til jafn­aðar á ári, horft til óskil­greinds ára­bils fram og aftur í tí­mann og þá án þess að tekin sé afstaða til hins mjög svo breyti­lega hlut­falls verð­mætis og magns teg­und­anna frá ári til árs, sér­stak­lega upp­sjávarafla, og almennt með öllum fyr­ir­vörum um áreið­an­leika og gildi hrárra þorskí­gild­isút­reikn­inga. En sam­kvæmt því myndi 110 króna veiði­rétt­ar­gjald að með­al­tali fyrir þorskí­gildiskíló jafn­gilda 55 millj­arða króna heild­ar­tekjum fyrir allan veiði­rétt, en til frádráttar kæmu út­gjöld vegna leið­rétt­ing­ar­inn­ar, þó til­tölu­lega lítil og lækk­andi frá ári til árs.

Ekk­ert skal hér full­yrt um hver sé geta ís­lenskra út­gerða til greiðslu veiði­rétt­ar­gjalds, en sam­kvæmt þeirri aðferð­ar­fræði sem hér hefur verið lögð til grund­vall­ar, réð­ist gjaldið alfarið á mark­aði veiði­heim­ilda er stjórn­að­ist af vilja manna til að stunda út­gerð á Ís­landi, m.ö.o. stjórn­að­ist af afkomu út­gerðar og út­gerð­ar­manna, og þó í raun af afkomu sjávar­út­vegs á Ís­landi í heild sinni. Inn­heimt veiði­gjald rík­is­ins á síð­ustu fimm árum, 2012 til 2016, nemur á bil­inu 7,4 til 9,8 millj­örðum króna, eða til jafn­aðar um 8,6 millj­örðum króna – sem jafn­gildir rúm­lega 15% af 55 millj­örð­unum í ofan­greindu dæmi, eða um 17 krónum fyrir hvert þorskí­gildiskíló alls sjávarafla. En 17 krónu gjald til jafn­aðar fyrir veiði­rétt fyrir hvert kíló óslægðs þorsks, sem e.t.v. væri seldur á 300 kr kílóið á mark­aði, myndi sam­svara um 1 krónu og 70 aurum í gjald af u.þ.b. 30 króna kílóverði t.d. loðnu, mak­ríls eða kolmunna eða um 3 krónum og 40 aurum af 60 króna kílóverði síld­ar.

Hugs­an­lega er ís­lensk út­gerð almennt svo illa á vegi stödd að ráði ekki við að greiða nema um 8 til 9 millj­arða króna í veiði­rétt­ar­gjald á ári, eða sem næst um 17 krónur fyrir hvert kíló þorskí­gild­is. En hvernig má þá vera að leigu­liðar sem litla eða enga afla­marks­hlut­deild hafa feng­ið, flestir úr geira minni skipa og smábátaút­gerð­ar, hafa þó getað greitt um 223 kr. í leigu til jafn­aðar fyrir hvert veitt þorsk­kíló und­an­far­inn ára­tug án þess að fara umsvifa­laust og beint á höf­uð­ið?

Nokkuð ljóst má vera að ís­lensk út­gerð í heild sinni myndi aldrei ráða við að greiða 223 kr í veiði­rétt­ar­gjald fyrir hvert þorskí­gildiskíló alls sjávarafla, eða sem svar­aði til um 110 millj­arða króna á ári, enda tæki það þá til lang­sam­lega stærsta hluta allra tekna út­gerð­ar­inn­ar! Enda er það svo að stærsti hluti sérafla­marks sem fram­seldur er á hverju ári í formi leigu snýr fyrst og fremst að inn­byrðis skipt­ingu afla milli út­gerða – aðal­lega stórút­gerða sem notið hafa gjafagjörn­inga eða/og afar langs tíma til afskrifta kvóta­kaupa í skjóli fákeppni. Fram­sals­heim­ild­irnar eru þá nýttar til að jafna afla milli út­gerða og ekki síst sam­setn­ingu mis­mun­andi fisk­teg­unda niður á ein­stök skip og ein­stakar veiði­ferð­ir, einnig að teknu til­liti til ófyr­ir­séðra frátafa frá veiðum vegna við­halds eða ógæfta, þannig að dæmið gangi upp gagn­vart heild­ar­út­hlutun sérafla­marks á ári hverju.

Að öllum föstum kostn­aði greiddum þykir það alveg vera þess virði að greiða hátt verð fyrir afla­mark­s­við­bót, sér­stak­lega í ljósi þess að stærsti hluti breyti­lega kostn­að­ar­ins er fólg­inn í hluta­skiptum sjó­manna sem mið­ast að drjúgum hluta við verð undir mark­aðs­verði, sam­kvæmt ákvörðun Verð­lags­stofu skipta­verðs – eða á hinn bóg­inn ekki síður gróða­væn­legt að selja frá sér heim­ildir fyrir ofur­verð þegar ekki næst að veiða upp í þær. Með sam­tök­um – og jafn­vel samráði – um að halda verð­inu uppi, hefur hinum rót­grónu út­gerðum kvóta­kerf­is­ins tek­ist að halda nær öllum öðrum frá soð­kötlum fisk­veiði­heim­ilda­miðl­unar fákeppn­is­mark­að­ar­ins, nema þá helst örfáum trillu­köllum sem hafa látið sig hafa það að greiða him­in­hátt leigu­verðið fram í rauðan dauð­ann frekar en að leggja upp laupana og jafn­vel fara að bíta gras.

Nið­ur­lag

Þegar allt kemur til alls er það út­flutn­ings­verð­mæti sjávar­af­urða sem ræður afkomu jafnt út­gerðar sem fisk­vinnslu. Kakan er ávallt ein og söm – að and­virði í kringum 250 millj­arðar króna hin síð­ari ár – og spurn­ingin því ávallt hin sama, hvernig á að skipta þessum verð­mætum milli grein­anna, og hvaða áhrif hefur auð­linda­gjald hins opin­bera á sjávar­út­veg­inn í heild sinni.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða (ma. kr. á föstu verðlagi 2014) Heimild: Íslandsbanki (Hagstofa Íslands): Íslenski sjávarútvegurinn – nóvember 2015, bls. 14Með veiði­rétt­ar­gjaldi, líkt og hér hefur verið lýst, sem myndi stjórn­ast af fram­boði og eft­ir­spurn og lyti reglum frjáls, opins mark­að­ar, væri sjávar­út­veg­inum í raun í sjálfs­vald sett að ákvarða getu sína til greiðslu gjalds fyrir afnotin af sam­eig­in­legri auð­lind þjóð­ar­inn­ar – eða e.t.v. laga­tækni­legar betur orð­að, fyrir afnot af veiði­rétti ís­lenska rík­is­ins, hvort sem væri innan ís­lenskrar fisk­veiði­lögsögu eða á veiði­svæðum utan hennar sam­kvæmt milli­ríkja­samn­ingum sem ís­lenska ríkið er aðili að.

Að lokum skal varpað upp tveimur sviðs­myndum þar sem sama ímynd­aða framtíð­ar­ár eða við­mið­un­ar­t­íma­bil og fyrr var fjallað um í grein­inni er lagt til grund­vall­ar. Dökk­blái fer­ill­inn táknar sem sagt spá um lík­lega eða venju­bundna skipt­ingu þorskafla frá mán­uði til mán­aðar að teknu til­liti til heild­ar­afla­marks árs­ins en ljós­bláu súl­urnar sýna á hinn bóg­inn raun­veru­legan afla hvers mán­að­ar – og veit þá eng­inn í lok hvers mán­aðar hvernig veiðin mun þró­ast það sem eftir er árs­ins.

Sviðsmynd 1.Hér er gert ráð fyrir að veiði­rétt­ar­gjald fyrir þorsk er lægi nálægt 80 kr. til jafn­aðar yfir árið, eða á bil­inu 70 til 90 krón­ur, myndi stemma veið­ina svo af að heild­ar­þorskafli næmi u.þ.b. út­hlut­uðu heild­ar­afla­marki. Sam­svar­andi gjald fyrir 500 þús. þorskí­gildistonn (þá e.t.v. um 40 kr. jafn­að­ar­verð fyrir ufsakíló, um 80 aurar fyrir loðnu­kíló eða 1 króna og 60 aurar fyrir síld­ar­kíló – og þó allt eftir fram­boðnum heim­ildum og eft­ir­sókn í hverja teg­und á hverjum tíma) myndi skila um 40 millj­arða króna tekjum í heild fyrir veiði­rétt að öllum sjávarafla.

Sviðsmynd 2.Hér er á hinn bóg­inn gert ráð fyrir að veiði­rétt­ar­gjald fyrir þorsk er lægi í kringum 35 til 40 kr. til jafn­aðar yfir árið myndi stemma veið­ina svo af að heild­ar­þorskafli næmi u.þ.b. út­hlut­uðu heild­ar­afla­marki. Sam­svar­andi gjald fyrir 500 þús. þorskí­gildistonn (þá e.t.v. um 18 kr. jafn­að­ar­verð fyrir ufsakíló, um 35 aurar fyrir loðnu­kíló eða 70 aurar fyrir síld­ar­kíló – og þó allt eftir fram­boðnum heim­ildum og eft­ir­sókn í hverja teg­und á hverjum tíma) myndi skila um 17 til 18 millj­arða króna tekjum í heild fyrir veiði­rétt að öllum sjávarafla.

Ljóst má vera, að veiði­rétt­ar­gjaldið réð­ist alfarið af fram­boði og eft­ir­spurn fyrir hverja fisk­teg­und á hverjum tíma. Ljóst má líka vera að því hærra veiði­rétt­ar­gjald sem stórút­gerðir lands­ins treystu sér til að greiða fyrir hvert þorsk­kíló – enda myndu þær móta mark­aðs­verð­ið – eða jafn­vel allt að 223 krón­um, eða sam­svar­andi fyrir hvert ígildiskíló ann­arra teg­unda, eða hvernig skyldi orða það, að þá stæðu hinar ýmsu veik­ari sjávar­út­vegs­byggðir lands­ins svo höllum fæti gagn­vart ofur­gjald­inu að hlytu jafn­vel að deyja út – nema því stór­felld­ari aðgerðir hins opin­bera kæmu til.

Á hinn bóg­inn – réðu stórút­gerðir lands­ins ekki við að greiða nema e.t.v. um 35 til 40 krónur fyrir veiði­rétt hvers þorskí­gildiskílós, eða jafn­vel ekki nema í kringum 17 krón­ur, líkt og má ætla að hafi mótað þolmörk þeirra und­an­farin ár, miðað við álagt veiði­gjald rík­is­ins árin 2012 til 2016, svo sem hér hefur verið rakið og rifjað upp, þá hlyti afar blóm­leg tíð að blasa við hinum ýmsu sjávar­út­vegs­byggðum lands­ins sem svo mörg und­an­farin ár hafa staðið hvað höll­umstum fæti gagn­vart arðrán­inu, og jafn­vel hafa mátt þola það að vera nán­ast á fram­færi hins opin­bera. Og það þrátt fyrir að plássin hefðu fyrir ára­tug­um, eða sam­svar­andi sveitir og hreppar fyrir öldum síð­an, aflað sér upp­haf­lega veiði­rétt­inda með námi eða töku á sínum hluta einna auð­ug­ustu fiski­miða jarð­kringl­unnar er svo vildi jafn­vel til að lágu nán­ast upp í tún­garð­inn hjá þeim.

Augljós­lega væri þá sér­stakur stuðn­ingur við sjávar­út­vegs­byggðir lands­ins óþarf­ur. Hver sá sem treysti sér til að gera út skip eða bát myndi ein­fald­lega gera það alls óháð okur­skilmál­um, og enn síður undir vernd­ar­væng hins opin­bera í nafni náð­ar­sam­legra kvótaút­hlut­ana eða strand­veiða. Samt sem áður og einmitt því frekar sem frelsi til veiða væri meira, því strangar skyldi fylgja eftir kröfum um með­ferð alls afla – að harð­sækn­ustu trillu­körlum væri gert það jafn ljóst sem hinum stóru, að ekki væri heim­ilt að landa illa aðgerðum eða illa kældum afla, enda varð­aði öll slæm með­ferð afla veiði­leyf­is­svipt­ingu.

Eða er það ann­ars virki­lega svo, að stórút­gerðir þessa eylands, sem ein auð­ug­ustu fiski­mið jarðar liggja að, fái alls ekki þrif­ist nema fyrir stór­fellda og sí­fellda leið­rétt­ingu á rót­grón­ustu mark­aðslög­málum alls jarð­rík­is­ins, þeim er snúa að frjálsri versl­un, fram­boði og eft­ir­spurn? Hvað þá heldur nema fyrir sí­fellda leið­rétt­ingu á hinum ýmsu efna­hags­stærðum eyr­ík­is­ins, ef ekki fyrir stór­felldan skatt á alla þjóð­ina í formi geng­is­fell­inga, líkt og 100 ára saga ís­lensku stórút­gerð­anna sann­ar, þá a.m.k. fyrir stór­felldan skatt stórút­gerða á smáút­gerð­ir, eða eitt­hvað í kringum 223 kr. pr. hvert veitt þorsk­kíló, miðað við skatt­inn s.l. ára­tug til jafn­að­ar, eða sam­svar­andi fyrir aðrar teg­undir í hinum ýmsu hlut­föllum reikn­að?

Eða hvort myndi Jón Sig­urðs­son nú kjósa, ætti hann þess völ? Frjálsa verslun eða fákeppni?

Höf­undur er áhuga­maður um fisk­veiði­stjórn­un.

Helstu heim­ildir og ít­ar­efni:

Bene­dikt Jóhann­es­son: Við­reisn vill mark­aðs­lausn í sjávar­út­vegi - Hluti kvóta ár­lega á markað, Kjarn­inn, skoð­un – aðsendar grein­ar, 15. júlí 2016. 

Mbl.is: Lof­orð er lof­orð – og lof­orðið var svikið, Morg­un­blaðsvef­ur, inn­lendar frétt­ir, 24. sept­em­ber, 2016.

Wikipedi­a: Martin Luther King, Jr. 

Sig­urður Líndal: Merk­ing­ar­laus stjórn­ar­skráFrétta­blað­ið, skoð­un – aðsendar grein­ar, 31. jan­ú­ar 2011, bls. 13. 

Árni B. Helga­son: Þjóð­ar­at­kvæði um eign­ar­rétt? Stjórn­lag­aráð 2011, almenn erindi, 6. júní 2011.

Leið­rétt­ing­in – sam­kvæmt lögum nr 35/2014.

Fiski­stofa, frétt 1. sept. 2016: Út­hlutun á afla­marki 2016/2017

Fiski­stofa > Veiðar > Afla­heim­ildir > Afla­mark­s­við­skipt­i: Við­skipti með afla­markSkiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Rannsóknarskipið Hákon krónprins við rannsóknir í Norður-Íshafi.
Ískyggilegar niðurstöður úr Norður-Íshafi
Lífríkið undir ísnum í Norður-Íshafinu er ekki það sem vísindamenn áttu von á. Í nýrri rannsókn kom í ljós að vistkerfið einkennist ekki af tegundum sem helst einkenna hin köldu heimskautasvæði.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Ingrid Kuhlman
Tölum um dauðann
Kjarninn 17. ágúst 2022
Lilja Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra.
Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram drög að nýjum heildarlögum um tónlist. Stofna á Tónlistarmiðstöð, sjálfseignarstofnun sem á að verða hornsteinn íslensks tónlistarlífs og rekin með svipuðum hætti og Íslandsstofa.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Í sumar hafa tugir borga í Kína lýst yfir hættuástandi vegna hita.
Verksmiðjum lokað og mikill uppskerubrestur blasir við
Hitabylgja sumarsins hefur haft gríðarleg áhrif á stórum landsvæðum í Kína. Rafmagn er skammtað og algjörum uppskerubresti hefur þegar verið lýst yfir á nokkrum svæðum.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Seðlabankinn mun kynna næstu stýrivaxtaákvörðun í næstu viku.
Búast við að stýrivextir verði komnir upp í sex prósent í byrjun næsta árs
Markaðsaðilar vænta þess að verðbólgan sé við hámark nú um stundir en að hún muni hjaðna hægar. Í vor bjuggust þeir við að verðbólga eftir ár yrði fimm prósent en nú telja þeir að hún verði 5,8 prósent.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Segja toppana í samfélaginu hafa tekið sitt og að lágmark sé að launafólk fái það sama
Í Kjarafréttum Eflingar er lagt til að almenn laun hækki um 52.250 krónur á mánuði miðað við núverandi verðbólgu. Ríkið þurfi auk þess að koma að kjarasamningaborðinu með tug milljarða króna aðgerðir til að bæta stöðu þeirra verst settu í samfélaginu.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Starfsmenn Hvals hf. komu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglunnar á Akranesi án þess að til húsleitaraðgerðar þyrfti að koma.
Hvals-menn skiluðu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglu
Lögreglan á Akranesi fékk kvikmyndatökudróna sem starfsmenn Hvals hf. hirtu af starfsmönnum svissnesks ríkisfjölmiðils afhentan og kom honum til eigenda sinna. Bæði drónaflugið og drónastuldurinn eru á borði lögreglunnar.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Suðurhringþokan mynduð af WEBB-sjónaukanum í tveimur ólíkum útfærslum.
2.000 ljósár á sextíu sekúndum
Þau sem dreymir um að ferðast um geiminn ættu ekki að láta nýtt myndband geimferðastofnana Bandaríkjanna og Evrópu framhjá sér fara. Á sextíu sekúndum er boðið upp á 2.000 ljósára ferðalag með hjálp hins magnaða WEBB-sjónauka.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None