„Ég held að það sé nauðsynlegt að stytta tímann sem við erum í skólanum, við erum búin að stytta hann um eitt ár og ég held að við megum stytta hann um fleiri ár. Af því að heimurinn er fullur af fólki og peningum og allskonar, en við eigum ekkert alveg nógan tíma. Og það er bæði gaman að vera barn, en það er líka gaman að vera fullorðinn, þannig að við þurfum að nýta tímann vel.“
Þetta sagðir þú, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins í umræðum/myndbandi á Krakkakosningavef RÚV í aðdraganda kosninganna í lok október.
Þar sem þú ert komin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þá langar mig að spyrja:
a) Munt þú berjast fyrir enn frekari styttingu á námi í framtíðinni sem þingmaður og jafnvel leggja fram frumvarp þess eðlis?
b) Er þetta opinber stefna Sjálfstæðisflokksins?
c) Ef, svo er, hvað vill flokkurinn stytta nám mikið?
d) Er þessi stytting sem þú talar um fyrst og fremst til þess að ungt fólk geti komist fyrr í peninga en ella?
e) Getur þú sagt mér hvar þessir peningar eru?
f) Finnst þér peningar skipta meira máli í lífi fólks en menntun?
g) Eru þessi skilaboð ekki hreinræktuð efnishyggja að þínu mati?
h) Ertu tilbúin að segja kennurum upp starfi, til þess að stytta námið?
i) Mér skilst að þú sért í meistaranámi í lögfræði, finnst þér að þú sért búin að vera of lengi í námi?
Bíð spenntur eftir svörum. Með vinsemd og virðingu, Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnmálafræðingur og kennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.