Í byrjun þessa mánaðar birtist grein í Kjarnanum eftir undirritaðan – Ráði frjáls markaður veiðiheimildum – eða fákeppni? Viðbrögð létu sannarlega ekki á sér standa. Strax næsta morgun eftir birtingu greinarinnar brugðust tveir gagnrýnendur við, Húnbogi Gunnþórsson og Heiða Skúladóttir, hvort um sig með kjarnyrtu áliti sínu á Facebook-síðu Kjarnans.
Mér er ljúft og jafnvel skylt að svara þessu ágæta fólki þó ég sé ekki á Facebook, og þó svo væri þá væri það heldur alls ekki sjálfgefið að svara þeim á þeim vettvangi frekar en öðrum. En þarna horfi ég upp á fullkominn misskilning eða réttara sagt vísvitandi útúrsnúning á því efni sem ég hafði fram að færa. Er því sjálfsagt og eðlilegt að vinda aðeins ofan af málflutningi þeirra Húnboga og Heiðu.
Umrædd grein birtist síðdegis 2. nóvember í Kjarnanum og um hæl var vísað til hennar á Facebook- síðu Kjarnans. Árla morguns daginn eftir birtir Húnbogi eftirfarandi ummæli við Facebook-færsluna:
„Mikið lagt í þessa grein.
En hefur höfundur kynnt sér afleiðingar sóknarmarkskerfis þar sem það hefur verið notað?
Sóknarmarkið sem höfundur vil taka upp hefur hvergi reynst vel svo ég viti til. Það væri fínt ef höfundur gæti komið með dæmi um þjóð sem hefur notað sóknarmark til stýringa með góðum árangri.
Helstu ókostir sóknarmarks hafa verið mikil offjárfesting í skipakosti og það hefur stuðlað að ólympískum veiðum, þar sem keppst er við að hámarka landaðan afla en gæðin skipta minna máli.“
Sannast sagna þá fjalla ég hvergi og alls ekki um neitt sóknarmark nema á einum einasta stað í greininni – þar sem ég þó beinlínis hvet til þess að sóknarmark verði aflagt! Verða ummæli Húnboga því ekki öðruvísi skilin en vísvitandi afflutningur staðreynda, sleggjudómur kveðinn upp í því skyni að fæla lesendur frá lestri greinarinnar. Kaus höfundur færslunar þó nokkrum dögum síðar að fjarlægja þetta fótspor sitt á Facebook, líkt og hann hefði þar hvergi komið nærri... En töluð orð verða ekki aftur tekin, hvað þá eftir að komin eru í Facebookskjóðuna.
Í eftirfarandi málsgrein, frekar framarlega í grein minni, kemur fram kjarni þess máls sem ég hef fram að færa – þar sem ég augljóslega hafna hverskyns séraflamarki jafnt sem sóknarmarki:
„Í stað þess að veiðiréttinum væri úthlutað á mjög svo umdeildan hátt líkt og verið hefur undanfarna áratugi, væri allt sérúthlutað aflamark upphafið, öll aflamarkshlutdeild felld niður, og allur sérstakur stuðningur í formi kvótaúthlutana til einstakra byggða eða sóknarmarks í nafni strandveiða aflagður, en öllum, sem á annað borð uppfylltu almenn skilyrði um búnað veiðiskipa sinna, væri heimiluð frjáls veiði gegn greiðslu fyrir veiðiréttin þegar afla væri landað, eðlilega að teknu tilliti til reglugerða um tímabundnar lokanir svæða og annarra slíkra takmarkana. Veiðiréttargjaldið – krónur pr. kíló landaðs afla – myndi einfaldlega mótast af heildarframboði fisktegundar samkvæmt ákvörðun stjórnvalda en á hinn bóginn af eftirspurn, sókn í hverja fisktegund á hverjum tíma.“
Í stað þess að viðhalda núverandi skömmtunarkerfi, hvort sem er í formi sérúthlutaðs kvóta eða sérúthlutaðra daga, sóknarmarks, til svokallaðra strandveiða, fer ég að dæmi Adams Smith og kalla eftir frelsi til viðskipta og athafna. Með öðrum orðum, að öllum væri heimiluð frjáls veiði gegn greiðslu er einfaldlega mótaðist af hinu gamla markaðslögmáli um framboð og eftirspurn.
Búðin væri því opnuð öllum – en ekki einungis sérútvöldum aðli – og öllum heimilað að taka sér það sem hugurinn girntist og þá sjálfsögðu gegn greiðslu. Enda er enginn hádegisverður ókeypis, ekki frekar en mjólk, brauð og sulta í Bónus eða Iceland.
Þegar Milton Friedman hélt hádegisfyrirlestra sína lagði hann ríka áherslu á að allir væru velkomnir en eðlilega gegn því að hver og einn borgaði fyrir sig, jafnt fyrir matinn sem alla þjónustu, og sér sjálfum fyrir fyrirlestrarflutninginn og vinnuna við undirbúning sem og fyrir leigu á sal – eða var það ekki þannig? Eða hver átti annars að borga? Þjóðin? Ríkið? Eða standa í útkasti óverðugra við dyrnar? Eða úthluta bestu sætunum til útvalins aðals, ef ekki mátti láta eftirspurn móta verð fyrir takmarkað sætaframboð?
Heiða Skúladóttir hefur verið mikilvirkur gagnrýnandi á Facebook Kjarnans. Þegar þetta er ritað hefur Heiða afrekað að birta a.m.k. 25 ummæli við jafnmargar kynningarfærslur Kjarnans á efni vefritsins á einungis innan við hálfum þessum nóvembermánuði liðnum frá birtingu greinar minnar, og myndi víst æra óstöðugan ef talið væri lengra aftur í tímann.
Fáum sem verða fyrir sleggjudómum Heiðu hlotnast sú upphefð að vera ekki útnefndir fasistar, nasistar, heimskingjar, fábjánar, spilltir, aumingjar, vitsmunaskertir, illmenni, pervertar, geðsturlaðir eða annað eftir því í gagnrýnandans hástemmdu hatursorðræðu, svo sem einföld fletting gegnum ummæli hennar sannar. Má undirritaður því þakka sínum sæla fyrir að vera þó ekki dæmdur harðar fyrir sinn pistil en hvert annað greindarskert kjánaprik:
„Ef kjánaprikið sem skrifaði þetta bull – vissi hvað frjáls viðskipti væru – væri mögulega hægt að taka mark á honum.
Hann virðist halda að evrópsk fasistalög – bann við veiðum og bann við kaupum á mörkuðum – sé viðskiptafrelsi.
Maðurinn er greindarskertur.“
Þarna er aðeins rétt rúmur hálftími liðinn frá gagnrýnisfærslu Húnboga Gunnþórssonar og hefði maður þá haldið að nú færi aldeilis að færast fjör í Facebookleikinn. Eða hvað? Var ekki tilgangi beggja einmitt náð – að kveða helst alla umræðu í kútinn, fæla sem flesta frá með sleggjukastinu?
Eða til hvaða evrópsku fasistalaga er Heiða Skúladóttir að vísa? Eða til banns hverra við veiðum hverra? Eða banns við kaupum á hvaða mörkuðum? Viðskiptafrelsi hvað?
Ég mæli hvergi gegn frjálsum fiskmörkuðum, ef það eru slíkir markaðir sem Heiða hefur í huga, heldur er ég þvert á móti að mæla með því að veiðiheimildir verði farið sem hverja aðra vöru eða þjónustu á frjálsum markaði. Að veiðiréttargjald mótaðist einfaldlega af heildarframboði fisktegundar en á hinn bóginn af eftirspurn, sókn í hverja fisktegund á hverjum tíma. Á sinn hátt einmitt líkt og gerist á opnum, frjálsum fiskmörkuðum þegar kemur að því að útgerðarmenn selja sjálfan fiskinn, þá væntanlega að lokinni greiðslu fyrir veiðiréttinn.
Bann við veiðum orða ég heldur hvergi, öðru nær. Ég mæli þvert á mót með að „öllum, sem á annað borð uppfylltu almenn skilyrði um búnað veiðiskipa sinna, væri heimiluð frjáls veiði gegn greiðslu fyrir veiðiréttinn þegar afla væri landað,“ svo að ég vísi enn beint í málsgreinina hér að ofan beint úr pistli mínum.
Einu evrópsku lögin, svo mér sé kunnugt um, sem fjalla um bann við veiðum á Íslandsmiðum og útiloka jafnframt frjáls viðskipti með íslenskar veiðiheimildir á raunverulegum opnum markaði, eru íslensk. Ég vil þó ekki taka svo djúpt í árinni sem gagnrýnandinn Heiða, að kalla þau fasísk, ef það eru þau sömu lög sem hún á við. Óneitanlega eru íslensk fisveiðistjórnunarlög þó mjög einskorðuð við útvalinn hóp og stangast þannig í mörgum greinum á við flest evrópsk lög um athafna- og viðskiptafrelsi.
Þannig er útlendingum óheimilt, sem sagt bannað, að eiga aðild að útgerð í íslenskri lögsögu nema að þeir séu í litlum minnihluta eigenda. M.ö.o. skal mikill meirihluti eignaraðildar skipa er veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu vera í höndum íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
Bann við aðild að veiðum í íslenskri lögsögu er þó miklu víðtækara en svo að nái til útlendinga einna. Heyrir það reyndar til undantekninga, en ekki reglu, að Íslendingar geti stundað veiðar á Íslandsmiðum nema með afarkostum, slík er fákeppnin sem lögin stuðla að.
Ein helsta grunnregla íslenskra fiskveiðistjórnunarlaga gerir ráð fyrir að útvalinn hópur Íslendinga hafi öðlast fiskveiðirétt í krafti veiða á tilteknu örfárra ára tímabili allrar þúsund ára veiðisögu þjóðarinnar. Greiðsla til eigenda fyrir afnot af nytjastofnum í sameign þjóðarinnar, eða með öðrum orðum fyrir afnot af veiðirétti í forsjá íslenska ríkisins, hefur lengstum verið lítil eða jafnvel nær engin – og skýtur þó svo skökku vð að handhöfum veiðiréttarins á hverjum tíma hefur verið heimilað að versla með eignarrétt ríkisins líkt og séreignarréttur einstaklinga eða fyrirtækja væri að ræða.
Enginn kvótalaus Íslendingur, hvað þá útlendingur, kemst að soðkötlunum nema fyrir þá afarkosti að greiða útgerðarmönnum, en sem sagt ekki forsjáraðilanum, íslenska ríkinu, slíkt verð fyrir veiðiréttinn að myndi ganga að öllum stórútgerðum dauðum ef þær ættu allan sinn úthlutaða kvóta undir svo hörðum kostum kominn.
Svo vel aldir eru útgerðarmenn okkar sumir jafnvel orðnir, að þeir telja sig vera miklu jafnari en aðrir í evrópskum og almennt alþjóðlegum skilningi á athafna- og viðskiptafrelsi. Þykir þeim jafn sjálfsagt að meina sem flestum Íslendingum og útlendingum eðlilegan aðgang að soðkötlunum, sem þeir hafa nánast tekið sér einkarétt á, fyrir atfylgi pólitíkusa sinna og áróðursmeistara, eins og að fara með kvótagróða sinn úr landi og beita honum í hinum klókustu heimsviðskiptum. Gildir þá einu hvort þessir miklu heimsborgarar arðræna bláfátæk strandríki Afríku í nafni alþjóðahyggju og viðskiptafrelsis eða láta mola hrjóta af borðum sínum til hinna ýmsu aflandseyjaskeggja víðsvegar um jörð fyrir aðstoð við að koma sínum fáguðustu heimsviðskiptum í skjól, undan samfélagslegri ábyrgð.
Höfundur er áhugamaður um fiskveiðistjórnun
Nokkur helstu lög um fiskveiðistjórnun á Íslandi:
Lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands
Lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands