Mig langar að vekja athygli á málefni sem ég tel að sé of lítið til umræðu, en það varðar getnaðarvarnarpilluna og áhrif hennar á líf ótal margra og á samfélagið í heild sinni. Flest vitum við af þeim aukaverkunum sem fylgja getnaðarvarnarpillunni sem ætluð er konum, eða við erum allavega vöruð við þeim á lyfseðlinum sem fylgir, en erfitt er að segja til um hversu mikið mark einstaklingar taka á slíkum seðlum. Inntaka hennar er þó orðin svo normaliseruð í samfélagsgerðinni að oft er erfitt að gera sér grein fyrir því hversu mikill skaðvaldur hún getur orðið bæði í einkalífi og í samböndum. Getnaðarvarnarpillan er vissulega auðveld lausn sem vörn gegn þungunum, þá sérstaklega í föstum samböndum milli gagnstæðra kynjanna en margar dökkar hliðar pillunnar gera hana að eins konar draug sem vofir yfir samskiptum para en hún hefur djúpstæðari áhrif á skaplyndi og heilastarfsemi en halda mætti í fyrstu.
Margar gerðir eru til af getnaðarvarnarpillunni og mismunandi hversu mikil áhrif hún hefur á hvern einstakling fyrir sig. Allar eru þær þó með tilbúnar útgáfur af kvenhormónunum estrógeni og prógesteróni. Þessi hormón fyrirfinnast í eggjastokkunum en með því að taka inn auka magn af hormónunum verða þeir óvirkir og kemur þar með í veg fyrir að kona verði þunguð við samfarir.
Ég sjálf er núna búin að vera á pillunni í talsverðan tíma, og er einnig tiltölulega nýbyrjuð í sambandi, en þessi litli hlutur sem ég gleypi á hverjum degi með góðri samvisku til að verja mig gegn ótímabærri þungun hefur breytt mér í eitthvað sem ég þekki ekki. Margar konur kannast mögulega við eitthvað af því sem ég mun telja upp en þetta eru hlutir sem hafa hrjáð mig í einhvern tíma, en ég er bara fyrst núna að uppgötva orsök vandans. Tilfinningar sveifla á undraverðan hátt frá einni til annarrar án nokkurrar ástæðu. Ég er viðutan, ruglast á dögum og klessi á bíla því heilinn minn dettur út úr samhengi en um leið og ég uppgötva mistökin skil ég ekki hvað fór í gegnum huga minn sekúndu áður. Ég er viðkvæm fyrir ótrúlegustu hlutum og dagurinn getur byrjað á hlátri en endað á grátkasti aðeins nokkrum stundum síðar án þess að tilefni sé til. Ég fer í fýlu út í maka minn af óútskýranlegum ástæðum og ég get varla skýrt þær sjálf á þeirri stundum sem pirringurinn stendur yfir.
Atvik eins og verða fúl út í kærastann fyrir að hafa í svefni snúið sér á hina hliðina, farið nánast að skæla um miðja nótt og ákveðið síðan að klípa hann í lærið fyrir ósvífnina er það sem markaði það að vera djúpt sokkin í óráðsfen, og er hegðun sem ég tengi ekki við minn eigin persónuleika eða skapgerð. Svona stundir kalla á virkilega sterkt samband. Þetta er ástand sem hefur varað í um tvo mánuði eftir að læknir ráðlagði mér að taka þrjú pilluspjöld í röð. Þar sem mér þótti það með eindæmum hugguleg og skemmtileg hugmynd til að fresta því að fara á hvimleiðar blæðingar hef ég verið meðvitað að dæla í mig of stórum skammti af hormónum sem eitra hug minn.
Þetta er að mér vitandi ekkert einsdæmi, en margar kynsystur mínar og vinkonur glíma eða hafa á einhverjum tímapunkti glímt við svipaðar aðstæður. Óræður tilfinningarússíbaninn sem hefur áhrif á andlega heilsu og hegðun kvenna og sú normalísering sem hefur einkennt skaðvaldinn er eitthvað sem ætti að ræða betur í samfélaginu. Enda þykir oftast sjálfsagt að konan axli þá ábyrgð að setja upp getnaðarvörn í samböndum og oft jafnvel líka í kæruleysislegra kynlífi. Þetta einskorðast heldur ekki við getnaðarvarnarpilluna, enda innihalda flestar getnaðarvarnir sem ætlaðar eru konum hormón, þó það sé mismunandi í hversu miklu magni eftir tegundum. Þunglyndi er einnig stór þáttur í aukaverkunum pillunnar og er oft erfitt að greina á milli hvað sé afleiðing skammdegisþunglyndisins og hvað sé hægt að beintengja við hormóna-innspýtinguna. Samt halda konur áfram að taka pilluna, oft vitandi um hvaða áhrif hún hefur á líf þeirra.
Nýverið fóru af stað tilraunir með getnaðarvarnarpillu ætlaða til inntöku af karlmönnum. Prófunum á tilraunahópi var fljótt aflýst vegna þess hversu mikið af aukaverkunum fóru að láta á sér kræla meðal karlkyns viðfanganna. Aukaverkanir voru flestar, ef ekki allar, þær sömu og finnast í getnaðarvarnarpillunni sem hefur verið notuð af konum frá árinu 1960. Flestir karlmenn upplifðu miklar breytingar í skapsveiflum við prófanir og reyndi eitt viðfangið jafnvel að fremja sjálfsmorð. Þar með var prófunum á getnaðarvarnarpillu karla hætt með öllu.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á aukin þunglyndiseinkenni og kvíða hjá þeim konum sem nota getnaðarvarnarpilluna. Talið er að hún gæti jafnvel haft áhrif á heilastarfsemi og þá sérstaklega á þá hluta heilans sem snerta skynjun, taugaboð og tilfinningar. Margar aðrar aukaverkanir eru einnig í boði pillunnar en þar má meðal annars telja þyngdaraukningu, höfuðverki, ógleði og eymsli í brjóstum. Margar konur skipta yfir í aðrar tegundir ef aukaverkanir verða of miklar og getur oft önnur tegund hentað betur. Hins vegar má spyrja sig hvort að þessi dragbítur kvenna sé þess virði fyrir andlega heilsu þeirra, hver kona dæmir auðvitað fyrir sig en það er ekki nægileg umræða um þetta málefni í samfélaginu og hversu mikil áhrif pillan hefur á lund kvenna, þeirra eigið líf og aðstandenda.
Getnaðarvarnarpillan hefur þróast í að vera svo sjálfsagður hlutur fyrir konur til að innbyrða að margar hverjar spyrja sig ekki einu sinni út í hversu mikill áhrifavaldur þessi litli hlutur getur orðið, og einhverjar hafa jafnvel talið sér trú um að skapsveiflurnar séu eðlilegur hlutur. Þegar þær í raun eru innbyggðar og mótaðar af eigin hendi með inntöku af efnafræðilegum efnum sem bera oft fleiri galla en kosti.