Spítalinn og flugvöllurinn

Auglýsing

Einn bjartan vordag fyrr á þessu ári sem nú er senn allt átti ég leið á reiðhjóli mínu um gömlu Hringbrautina. Meðan ég hjólaði framhjá gamla Landspítalanum okkar með sína fallegu framhlið varð mér litið til sjávar og fjalla og þar með yfir flugvallarsvæðið mjög-um-deilda. Við þessa sjón á þessum fagra degi fékk ég vitrun. 

Nú ætla ég að leyfa mér, þótt ekki sé ég sérfróð um borgarskipulag né heldur flugsamgöngur, að deila þessari vitrun með þeim sem nenna að lesa. Ég er þó alltént borgari í þessu landi, bý meira að segja í borginni þar sem flugvöllurinn mjög-um-deildi fær dýrmætt miðbæjarpláss og leyfir okkur sem hér búum að grípa andann á lofti þegar kaffivélin frá Akureyri virðist loks ætla að stíga skrefið til fulls og lenda í Tjörninni – eða á Hringbraut á mesta annatíma. Sömuleiðis fáum við á hressingargöngu um hin vinsælu útivistarsvæði í nágrenninu leyfi til að anda að okkur olíustybbu, missterkri eftir veðri, vindum og ástandi vélanna. Ég hef líka notað flugvöllinn í gegnum tíðina, og þann í Keflavík líka og get því gert mér sæmilega grein fyrir mikilvægi (eða lítilvægi) þess hvort maður sem almennur farþegi lendir í Keflavík eða Vatnsmýri. Nú, og í ofanálag á ég að baki meir en 30 ára starf á hinum ýmsu spítölum sem núorðið heita allir Landspítali.

Allt þetta tel ég upp sem afsökun fyrir því að leyfa mér að taka til máls opinberlega um þetta deilumál sem nálgast nú mál Jóns heitins Hreggviðssonar að flækjustigi og Icesave að tilfinningahita. 

Auglýsing

Sem sagt, vitrunin mín:

Sem ég hjólaði þarna í góða veðrinu og horfði yfir Vatnsmýrina allt til Öskjuhlíðar, Nauthólsvíkur og strandlengjunnar að Skerjafirði og háskólasvæðinu rann allt í einu upp fyrir mér að hvorki staðsetning nýja spítalans (né næsta nýja, jafnvel þarnæsta) né innanlandsflugsins væri nokkurt einasta vandamál. Málið hefur bara verið flækt með því að blanda saman óviðkomandi þáttum.

  1. Nú mega mér fróðari andmæla og færa mér heim sanninn um að hér fari ég með rangt mál, en sem áðurnefndur borgari get ég alls ekki séð neina ástæðu til þess að sjúkraflug, beint á spítala. eigi heima með innanlandsflugi á nokkurn hátt. En í umræðunni um flutning flugvallarins hefur alltaf verið látið svo sem að þar með verði líka flug með fárveika sjúklinga flutt langa vegu burt, menn hafa jafnvel ekki skirrst við að saka þá sem vilja flugvöllinn burt um að hafa mannslíf á samviskunni, að vísu ekki strax, en klárlega í framtíðinni. Ekki langar mig að mæta fyrir Lykla-Pétur með slíkan reikningsskap. En ég held að það sé sem betur fer ekki líklegt. Með allt það svæði sem losnar þegar innanlandsflugið fer til Keflavíkur getur það varla verið ofverk allra þeirra spekinga sem hafa úttalað sig um nauðsynleg flugskilyrði að hanna svo sem eina neyðarbraut fyrir nauðsynlega aðkomu sjúklinga. Í einfeldni minni hélt ég að þyrlupallur væri nóg, en sé svo ekki, nú, þá lendingarbraut fyrir litlar flugvélar. 
  2. Á öllu plássinu sem þarna losnar sá ég í vitrun minni verða til heilbrigðis-háskólasamfélag, með rými fyrir háskólasjúkrahús sem getur fengið að þróast á ýmsa lund, endurhæfingardeildir úti við Nauthólsvík þar sem náttúran og uppbyggingin býður upp á kjöraðstæður og háskólarnir tveir flanka svo svæðið á tvenna vegu. Ekki er ég búin að gera teikningu af því hvað á að vera hvar, enda ekki mitt fag. Ég get alveg sniðið einfaldar barnaflíkur, en lengra geng ég ekki í hönnun. En ég ímynda mér að innan um allt þetta geti verið eitthvert slangur af íbúa byggð og auðvitað eiga börnin að eiga þarna pláss – er ekki þegar kominn leikskóli af Hjallastefnugerð á svæðið? Eitt hjúkrunarheimili af nýrri gerð sem er líka með leikskóla og skólaskjól fyrir börn starfsfólks og sem hefur það sérstaka hlutverk að innleiða hugmyndir nýju menningarinnar í öldrunarþjónustu, t.d. Eden stefnuna eða aðrar slíkar... Já, vitrunin mín, hún var frjó og leiddi í ýmsar áttir.


Þetta sá ég fyrir mér og hef haldið áfram að hugsa um þessa lausn og rætt hana við ýmsa og fengið ýmiss konar andsvör. Þau mikilvægustu hafa snúist um umferðarþunga og þess vegna ætla ég að enda með smá hugleiðingu um það mál.

Þegar menn tala um „betri spítala á betri stað“ er oft áberandi röksemd um að þar sé ekki álíka umferðarþungi eins og nú er á Hringbrautinni. En þá virðist gleymast að mjög stór hluti af umferðarþunganum tengt Landspítala er nú þegar á Hringbraut, en á stöðum eins og Vífilsstöðum og Keldnaholti (hvort tveggja kostir sem hafa verið nefndir, en annars virðast talsmenn betri spítala á betri stað undarlega tregir á að nefna til raunverulega staði) á allur sá umferðarþungi eftir að koma við flutning spítalans. Finnst mönnum raunverulega á Ártúnsbrekkuna bætandi á álagstímum? Eða er meiningin að byggja þarna stærðar viðbótar-umferðarmannvirki? Ekki skorti á deilurnar um breikkun Hringbrautar á sínum tíma og ég sé ekki fyrir mér að framkvæmdir af þessu tagi yrðu spor vinsælli. Varðandi Vífilsstaði er mér óljóst hvaða mikla landsvæði menn eru að tala um. Er meiningin að leggja niður golfvöllinn? Eða á að gera uppfyllingu fyrir lóðir í mýrinni vestur undir hæðinni sem gömlu byggingarnar standa á? Og hversu mikið þarf að bæta við stappfulla Reykjanesbrautina þegar umferð þessa stóra vinnustaðar og allra þeirra sem þangað sækja þjónustu bætist við? Að því frátöldu að margir helstu fagmenn Landspítala gegna samtímis störfum við Háskóla Íslands og ferðir þar á milli myndu bætast á þegar sligaða umferðaræð.

Varðandi umferðina vil ég að lokum horfa dálítið meira til framtíðar en mér finnst gert í þessari umræðu allri. Mjög víða í borgum umhverfis okkur er verið að reyna að snúa af þeirri óheillabraut sem stjórnlaus einkabílanotkun hefur leitt mannlífið út í. Það hefur sannast með óyggjandi hætti í helstu bílaborgum Bandaríkjanna að einkabíl-isminn er sá hundur sem stanslaust bítur í eigið skott: meiri umferðarmannvirki taka meira pláss með tilheyrandi dreifðri byggð og enn meiri þörf fyrir einkabíl. Dæmi um þessa stefnu hér eru mörg, í augnablikinu dettur mér í hug nýjustu austurhverfi Kópavogs, Vatnsendahverfin og Kórarnir: flæmi af malbiki sem stendur autt og dautt mest allan sólarhringinn en annar samt ekki álaginu á mestu álagstímum. Slíkt er eðli einkabíl-ismans.

Það má því einu gilda hvar við setjum niður mannfrekan vinnustað: ef við ætlum að halda áfram að reiða okkur á einkabíl í öllu okkar daglega lífi munum við alls staðar lenda í sömu vandræðum. Í mesta lagi getur munurinn verið smá tímamismunur áður en vandinn verður erfiður.

Einnig finnst mér áberandi sú hugsun, líklega sprottin af því hve okkar borgarsamfélag er ungt, að við eigum alltaf að geta ekið á fullum löglegum hraða á bílnum okkar – líka á álgastímum - og helst að geta lagt honum við dyrnar sem við ætlum inn um. En alls staðar í borgum eru umferðartafir á álagstímum hluti af raunveruleika dagsins og bílastæði í miðborgum víða svo dýr og óaðgengileg að menn hugsa ekki einu sinni til að fara þangað á bíl. Raunar held ég að sú krafa sumra íbúa landsbyggðarinnar – sem ég held að séu aðallega embættismenn sem eiga svona dálítið undir sér – að geta lent nánast í miðborginni – sé náskyld þessari þörf að geta lagt fyrir utan dyrnar! En þetta er óþörf krafa. Þeir eru allir að fara beint upp í bílaleigubílinn, og hann fæst á flugvellinum hvar svo sem hann verður staðsettur. 

Að lokum: ég bý fyrir utan 101 (reyndar nærri), fer sjaldan á kaffihús, drekk gamaldags uppáhellt kaffi og finnst latte vont. 

Höfundur er Reykvíkingur frá komu þangað úr dreifbýlinu 16 ára – fyrir 48 árum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Drangaskörð eru stórkostleg náttúrusmíð.
Skipuleggja frístundabyggð við ysta haf
Kríuvarp, sóleyjar og jökull. Eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði Vestfjarða og þótt víðar væri leitað. Þúsund ára menningarsaga. Á landnámsjörðinni Dröngum er fyrirhugað að reisa frístundabyggð. Drangar eru sömuleiðis í friðlýsingarferli að ósk eigenda.
Kjarninn 24. júní 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjari snýst hugur – og býður fram krafta sína fyrir næstu kosningar
„Eftir að hafa legið undir feldi á þriðju viku, kófsveittur og illa lyktandi hef ég ákveðið að þiggja sæti á listanum, ef það stendur þá enn til boða,“ segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None