Fjölmiðlar gegna veigamiklu hlutverki í sérhverju lýðræðisríki. Fagleg blaðamennska miðar að því að birta samtímis upplýsingar og staðreyndir úr ólíkum áttum í því skyni að almenningur geti tekið afstöðu í mikilvægum málum. Eftir að hafa tekið upplýsta afstöðu getur almenningur svo gert ákall um breytingar ef þörf þykir og þannig er umræðan lykilþáttur í framþróun samfélagsins. Samkvæmt þessu hvílir mikil ábyrgð á herðum þeirra sem starfa á fjölmiðlum. Það er heldur ekki að ástæðulausu sem fjölmiðlar eru taldir „fjórða valdið“ með skírskotun til þriggja valdþátta ríkisins. Í samræmi við áhrifavald sitt, lýðræðislega ábyrgð og lagalegar skyldur ber fjölmiðlum að veita ríkisvaldinu aðhald, sem og öðrum. Út frá öllu þessu má fullyrða að frjálsir fjölmiðlar séu einn af hornsteinum lýðræðisins, þar sem tjáningarfrelsið og fagleg fréttamennska eru í heiðri höfð. Þrígreining ríkisvalds byggir á sjónarmiðum um temprun valdsins þannig að hver valdþáttur hafi eftirlit með öðrum. Af sjálfu leiðir að þeir sem hafa hönd á stjórnartaumum „fjórða valdsins“ verða einnig að huga vandlega að mikilvægi temprunar, hófs og mannvirðingar, svo nokkuð sé nefnt. Lögum samkvæmt hvílir ábyrgðin hér í ríkustum mæli hjá ritstjórnum og blaðamönnum einstakra fjölmiðla, sbr. ábyrgðarreglur í lögum um fjölmiðla. Til hliðsjónar skal ennfremur bent á siðareglur Blaðamannafélags Íslands.
Framanritaðar athugasemdir eru settar á blað í tilefni af fréttaflutningi Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins mánudagskvöldið 5. desember sl., þar sem fjallað var sérstaklega um verðbréfaeign hæstaréttardómara. Athygli vekur að sjónvarpsstöðvarnar tvær virðast hafa haft samráð um tímasetningu fréttaflutningsins og báðar haft aðgang að skjölum sem virðast eiga uppruna sinn hjá Glitni banka. Umfjöllunin bar með sér að talsverður undirbúningur hafi legið að baki. Því miður verður þó ekki sagt að vandað hafi verið til verka. Því er rétt að staldra við og íhuga eftirfarandi atriði:
Í fyrsta lagi er vandséð að eignarhald á hlutdeildarskírteinum í sjóði leiði sjálfkrafa til vanhæfis dómara. Líkja má slíku eignarhaldi við innlán í banka og erfitt yrði að finna hæft fólk til dómstarfa ef gera ætti svo strangar kröfur.
Í öðru lagi var í fréttaflutningi látið að því liggja, án sýnilegra heimilda, að sala Markúsar Sigurbjörnssonar á nánar tilgreindum verðbréfum hafi staðið í tengslum við upplýsingaleka úr viðskiptaráðuneytinu og þar með vegið að starfsheiðri Markúsar og tveggja annarra lögfræðinga, nánar tiltekið þáverandi samstarfsmanns Markúsar við Hæstarétt Íslands og dóttur viðkomandi dómara sem þá starfaði í viðskiptaráðuneytinu.
Í þriðja lagi verður að telja ámælisvert að blaðamenn hafi ekki gefið hlutaðeigandi sanngjarnt svigrúm til að bregðast við þeim ásökunum sem hafðar voru í frammi í fréttaflutningnum. Fréttamaður Stöðvar 2, sem virtist hafa haft rúman tíma til að undirbúa og vinna umrædda frétt, var spurð að því í kvöldfréttum hvort hún hafi náð í Markús Sigurbjörnsson vegna málsins. Hún svaraði því til að þau á fréttastofunni hafi byrjað að reyna að ná í hann „upp úr hádegi“ þann sama dag til að fá svör hans við fréttinni. Það hafi gengið erfiðlega fram eftir degi en svo hafi hann tjáð henni að hann teldi sig ekki hafa verið vanhæfan til að dæma í þeim málum sem nefnd voru. Fram kom að hann hafi látið gögn fylgja til staðfestingar á því að hann hafi upplýst nefnd um dómarastörf um nefnd viðskipti á árinu 2007. Fréttamaður tók þó fram að hún teldi það ekki breyta öllu í þessu máli, enda hefði hún rætt við „lögmenn“ og „fólk í stéttinni“ sem hafi „eðlilega“ verið „slegið yfir þessum fréttum.“ Hún bætti svo við (orðrétt): „Þar töldu allir að það væri engin spurning að um vanhæfan aðila væri að ræða“. Hér hefði fréttamaðurinn þurft að greina nánar frá því hvernig viðmælendur hennar hafi verið valdir og á hvaða lagalegu forsendum þetta vanhæfismat væri byggt. Þegar um slíka alhæfingu er að ræða verður að geta heimilda og helst hefði þurft að sýna viðtöl við þá lögfræðinga þar sem þeir staðfestu sjálfir álit sitt um vanhæfi viðkomandi dómara. Það er því í besta falli óvarlegt að framreiða alhæfingu með þessum hætti án frekari heimilda.
Sama var uppi á teningum í umfjöllun Kastljóss umrætt kvöld þar sem formaður nefndar um dómarastörf var spurð um skjöl sem hún taldi að væru ekki til, en síðar kom í ljós að Markús Sigurbjörnsson hafði þó sent nefndinni. Hefði honum verið gefinn tími til þess að skýra sína hlið má ætla að viðtalið við formann nefndarinnar hefði þróast með öðrum hætti.
Framsetning fjölmiðla í máli þessu stenst ekki þær kröfur sem gera má til faglegrar blaða- og fréttamennsku. Eftir því sem málinu vindur fram og upplýsingar koma fram í dagsljósið eyðist málið fremur en vex. Eftir stendur þá ekki annað en að almenningur veit meira um persónuleg málefni Markúsar Sigurbjörnssonar en áður. Er þetta mál þannig vaxið að upplýsingaréttur almennings vegi þyngra en hagsmunir viðkomandi dómara af því að hafa fjármál sín í friði?
Hvaða hagsmuna er fjórða valdið að gæta hér? Getur hugsast að þetta snúist um að koma höggi á dómstólana til að rýra traust almennings á þeim? Slíkt yrði að teljast grafalvarlegt því þar með væri vegið að rótum réttarríkisins. Því miður bendir margt til að hér hafi verið skotið fyrst og spurt svo. Með framsetningunni er vegið að æru og starfsheiðri fólks, grafið undan trúverðugleika dómstóla, auk þess sem telja má það alvarlegt að persónuleg gögn um fjárhagsmálefni fólks, svo sem einkatölvupóstar, leki út úr bankakerfinu til fjölmiðla. Vísast hvað þetta varðar m.a. til laga um persónuvernd nr. 77/2000. Slíkt er ekki til þess fallið að efla traust almennings á starfsemi fjármálafyrirtækja hér á landi. Gætu afleiðingar af þessum leka m.a. verið þær að fólk myndi velja að fara með fjármuni sína úr landi til þess að eiga ekki á hættu á að valdar upplýsingar yrðu teknar og framreiddar með óheppilegum hætti í fjölmiðlum án þess að þeim sem í hlut á gæfist tækifæri til að taka til varna. Í hinu stóra samhengi verður að gera alvarlegar athugasemdir við það að valdi fjölmiðla sé beitt svo harkalega sem hér um ræðir og fullyrðingum slengt fram án þess að gætt sé að því að gagnstæð sjónarmið komi fram og að hlutaðeigandi gefist sanngjarnt svigrúm til að svara fyrir sig. Við slíkar aðstæður væri ekki nema von þótt ugg setti að almennum borgurum frammi fyrir valdþótta þeirra blaðamanna sem um málið hafa fjallað.
Opin og gagnrýnin umfjöllun um störf og reglur sem gilda um dómara er til góðs. Í slíkri umræðu væri tilvalið að varpa fram spurningum eins og hvort skynsamlegt sé að breyta lögum þannig að hagsmunir dómara sem gætu leitt til vanhæfis hans væru hreinlega gerðir almenningi aðgengilegir, líkt og við á um Alþingismenn og ráðherra. Jafnframt væri sú umræða holl hvort yfirhöfuð sé heppilegt að dómarar fjárfesti í verðbréfum og þar fram eftir götum. Slíkri umræðu ber að fagna en hún verður að fara fram á málefnalegum nótum til þess að hún nýtist sem best og afleiðingar hennar verði aðgerðir sem auka traust til dómskerfis okkar, því líkt og önnur opinber kerfi byggist það fyrst og fremst á trausti. Við erum heppin að því leyti að á Íslandi starfa ýmsir fjölmiðlar sem veita fjölbreytta samfélagsumræðu þegar best lætur. Á Íslandi er hins vegar aðeins til eitt dómskerfi sem borgarar landsins verða að geta treyst að sé óháð og óhlutdrægt. Um þetta kerfi þarf að fjalla af fullri ábyrgð og sanngirni.
Þegar fjölmiðlar ganga fram með þeim hætti sem hér um ræðir er full ástæða til að spyrja sígildrar spurningar: Hver á að vakta eftirlitsmanninn? Í fyrstu umferð er rétt að fréttastofur þeirra fjölmiðla sem í hlut eiga svari sjálfar fyrir sig.
Höfundar eru lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og héraðsdómslögmaður með BA-gráðu í fjölmiðlafræði.