Í þingræðu í morgun vísaði þingmaður Vinstri grænna, Ari Trausti Guðmundsson, til Kastljóssumræðna sem ég tók þátt í fyrr í vikunni. Gerði hann í ræðu sinni lítið úr gildi þess að þingið og allir þingflokkar hafi í heiðri anda og tilgang nýsamþykktra laga um opinber fjármál sem allir flokkar komu að því að semja og samþykkja. Í lögunum er lögð áhersla á langtímastefnumörkun opinberra fjármála og aukinn aga við framkvæmd fjárlaga. Markmiðið er að gæta þess að stjórnvöld kúvendi ekki mótaðri ríkisfjármálastefnu, að bæta nýtingu almannafjár og stuðla með betri efnahagsstjórn að stöðugleika. Stöðugleiki og styrk efnahagsstjórn eykur nefnilega lífskjör allra landsmanna, meðal annars í gegnum lægri vexti.
Þá er einnig ágætt að hafa í huga grunngildi laganna sem birtist í 6. grein þeirra um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika og gagnsæi.
Það er rétt að það bar nokkuð í milli VG annars vegar og Viðreisnar hins vegar í nýliðnum stjórnarmyndunarviðræðum. Það bar í milli í grundvallaratriðum tengdum landbúnaðar- og neytendamálum og sjávarútvegsmálum ekki síður en í ríkisfjármálum. En okkur bar líka saman um margt. Til dæmis um að forgangsraða í þágu heilbrigðismála og menntamála og við vorum sannarlega tilbúin að afla tekna til þess. Aftur á móti voru hugmyndir um eðli og umfang ólíkar. Til dæmis hefur Viðreisn í allri sinni stefnumörkun lagt áherslu á að fjármagna þau útgjöld sem við leggjum til með sjálfbærum hætti.
Ytri aðstæður eru þannig að öllum flokkum ber að rísa undir þeirri ábyrgð að fara ekki fram úr sér í útgjaldaaukningu og auka þenslu. Við getum ekki gert almenningi það að hér fari allt á hliðina aftur. Við megum ekki ganga of langt. Að auka ríkisútgjöld um fleiri tug milljarða án þess að ljóst sé hvernig afla eigi þeirra tekna er ekki ábyrgt.
Þó fallist hefði verið á allar skattahækkanatillögur VG stóðu eftir 40 milljarðar miðað við hugmyndir þeirra um aukin útgjöld. Ef þau hefðu verið fjármögnuð til helminga með virðisaukaskatti og tekjuskatti á almenning hefði vaskurinn hækkað um 1,7% (í 12,7% og 25,7%) og tekjuskatturinn um 3% (lægsta stig hefði farið í um 40%). Þetta vildi VG ekki gera. Þar af leiðir að það var fjarri því að þau hefðu verið búin að setja fram raunhæfar hugmyndir um hvernig fjármagna ætti þessi stórauknu ríkisútgjöld.
Það gerðum við hins vegar þegar við sýndum á spilin í september (sjá mynd).
Þar voru útgjöld og fjármögnun sýnd og tryggt að hvorki væri gengið gegn anda né tilgangi nýsamþykktra laga um opinber fjármál. Myndin sýnir tillögu að stöðu mála í lok fjögurra ára kjörtímabils en ekki breytingar á fjárlagafrumvarpi 2017 í seinni hluta desembermánaðar. Þegar næsta voráætlun verður lögð fram til fimm ára—og ef Viðreisn verður í stjórn—munu áherslur flokksins skína í gegn. Þar munu heilbrigðis- og menntamál vera efst á blaði.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar.