Langt norður og austur í landi er svolítill foss. Sá aflmesti í Evrópu reyndar. Eitt af undrum íslenskrar náttúru og höfuðprýði í þjóðgarði. Að honum hefur lengst af verið illfær moldarslóði úr báðum áttum. Prýðilegur sem slíkur á mælikvarða troðninga fyrir vel búna jeppa í sumarferðum. Fyrir fáum árum varð breyting á og hófst vegagerð að þessum ágæta fossi. Eftir erfiða fæðingu og langa bið tókst að ljúka við gerð botnlanga alla leið niður að fossinum úr suðri. Þetta varð mikið gleðiefni fyrir heimafólk og allmarga gesti sem vilja sækja fossinn heim. Úr norðri var líka byrjað á lagningu vegar og liggur nú beinn og breiður vegur svolítinn stúf uppeftir. En vandinn er sá að stúfurinn þessi úr norðri endar líka í botnlanga. Staðan er því sú að nú eru vandaðir botnlangar úr norðri og suðri en tekist hefur að varðveita hinn fyrrnefnda illfæra moldarslóða á nokkurra kílómetra kafla um miðbik vegarins.
Af íbúum byggðanna við enda þessa ágæta vegar er það að segja að þolinmæði hefur einkennt þeirra fas. Á meðan uppbygging hins nýja atvinnuvegar Íslands, ferðaþjónustunnar, hefur átt sér stað á fordæmalausum hraða víða um land hefur verið rólegra yfirbragð í nærsveitum þessa vegar. Malbikaðir botnlangavegir upp um heiðar snúa ekki hjólum atvinnulífs nærliggjandi byggða ýkja hratt. Þetta er hliðstætt því að ákveða að koma upp járnbrautarsamgöngum um hérað. Lestirnar eru klárar og fólkið bíður í vögnunum. En svo er ákveðið að spara svolítið með því að bíða með að leggja brautarteina á leiðarstubb um miðbik brautarinnar. Láta bara lestirnar bakka í rólegheitum sömu leið niður botnlangann sinn að lokinni dagsferð.
Verst af öllu er að ekki hefur vantað fögur fyrirheit um að leggja teina fyrir atvinnuvegi byggðanna á þessum vegstúf sem eftir er á miðri leið. Byggðirnar ku líka vera brothættar samkvæmt opinberri skilgreiningu. Þunginn í orðum þeirra sem farið hafa með fjármuni til samgöngumála síðustu misseri hefur engu minni verið en árniður Jökulsár á fjöllum. Ræðurnar hafa margar endað á því að það sé einmitt núna sem kláraður verði þessi vegstubbur að fossinum svolitla. Bara einmitt núna. Fyrir haustkosningarnar þetta árið náði þetta nýjum hæðum. Afdráttarlaust loforð var gefið fimmtán mínútum fyrir kosningar, með vísan til vegaáætlunar sem lögð var formlega fram á Alþingi. Og vegstúfurinn ágæti við miðbik botnlanganna var aldeilis kominn á dagskrá. Núna. Þessu var fagnað vel í héraði og hafði afgerandi útspilið án efa áhrif á ákvörðun einhverra í kjörklefanum. Að draga þetta til baka að mánuði liðnum frá kosningum er fáheyrð ósvífni sem á sér vart hliðstæðu.
Það er bara eitt í stöðunni: Að hunskast til að standa við stóru orðin og klára vegstubbinn sem eftir er þegar í stað. Það byggir enginn atvinnu og treystir byggð með lestarteinum sem enda í botnlöngum uppi um heiðar.
Höfundar eru sveitarstjórnarmenn V-lista í Norðurþingi. Óli er formaður byggðarráðs í Norðurþingi og Siv er formaður skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings.