Árið 2016 líður senn undir lok og eftir stendur minning um sérstakt ár fyrir ýmsa hluta sakir. Þetta var ár íslensks íþróttafólks. Hvort sem litið er til fótboltaliða, körfuboltaliða, fimleikafólks, sundfólks eða golfara. Íþróttafólkið og þjóðin eru að uppskera og framtíðin er björt. Hér á landi er haldið vel utan um íþróttaiðkun barna og unglinga. Almennt hafa börn tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Starfið er skipulagt af fólki með þekkingu, reynslu og brennandi áhuga. Allir fá þjálfun við hæfi og tækifæri til að spila á vellinum. Þess vegna er íslenskt íþróttafólk að ná framúrskarandi árangri. Æfingin skapar meistarann.
Hér á Íslandi þurfum við ekki að óttast að það góða samfélag sem við höfum mótað og höldum uppi verði sprengt ofan af okkur. Hér ríkir friður. Því miður á það ekki við hjá öllum. Í september 2015 fór ég til Líbanon og kannaði aðstæður Sýrlendinga í flóttamannabúðum. Það var átakanlegt að upplifa vonleysið og finna þá þrá hjá fólkinu að geta snúið heim. Snúa heim til þess lífs sem fólkið lifði. Það þarf að hugsa vel og lengi til þess að geta sett sig í þessi spor. Ef kippt væri undan okkur heimilum okkar, vinnu, skólasókn barna og sundrað þeim hópi fólks sem við elskum. Í flóttamannabúðum, þar sem fólk lifir ekki mannsæmandi lífi, hefur fólk ekki möguleika á að koma sér út úr ömurlegum aðstæðum. Eðli málsins samkvæmt velur fólk sér ekki þá stöðu að vera flóttamaður – það er neytt í þær aðstæður.
Við Íslendingar eigum að setja hlutina meira í samhengi, vera þakklát fyrir það hvað við höfum það gott og þá staðreynd að hafa öll þau tækifæri til að gera enn betur. Þegar við horfum á jarðkringluna sjáum við þá forréttindastöðu sem við Íslendingar erum í. Fyrir það eigum við að vera þakklát. Við eigum líka að reyna skilja hvers vegna og verja þá stöðu. Sérstaklega þegar hátíð ber að garði og við stöldrum við, með fólkinu sem okkur þykir vænt um og njótum tímans saman. Jólin eru mörgum, því miður, átakanlegur tími. Sumir eiga hvergi húsaskjól, sitja í fangelsi, aðrir syrgja ástvini eða glíma við erfið veikindi. Við eigum að hugsa til þeirra.
Fyrir mig verða þessi jól ljúfsár. Á meðan fjölskyldan borðar saman jólamáltíðina mun ég sitja yfir tveggja mánaða dóttur minni sem dvelur nú á fimmtu viku á spítala vegna kíghósta. Við foreldrarnir skiptum með okkur kvöldinu svo eldri sonur okkar fái stund með okkur báðum. Þetta er verkefnið okkar og þá er ekkert annað að gera en að fara í gegnum það. Við glímum nefnilega öll við okkar verkefni. En jólin verða ljúfsár því ég er lánsöm. Ég á góða fjölskyldu og sterkt bakland. Það hafa ekki allir. Og litla dóttir mín verður hraust aftur á nýju ári.
***
Á undanförnum misserum hafa efnahagsmálin tekið stakkaskiptum. Það er vöxtur hvert sem litið er og íslensk heimili hafa notið meiri kaupmáttaraukningar en dæmi eru um. Ísland er orðið nettó lánveitandi til útlanda. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hefur hækkað umtalsvert og fyrirsjáanlegt er að bankarnir munu halda áfram að bæta kjör sín sem gerir þeim mögulegt að fjármagna íslenskt atvinnulíf í erlendri mynt. Þetta er mikilvægt, m.a. vegna þess að Ísland hefur eignast þriðju stoðina í verðmætasköpun, ferðaþjónustu. Því miður hefur fjöldi fólks hér á landi upplifað það á eigin skinni hvernig er að skulda í einni mynt en hafa tekjur í annarri. Það má ekki gerast að við förum í gegnum þá æfingu aftur með öfugum formerkjum.
Íslenska ríkið er alltof stór eigandi að fjármálakerfinu og ber þ.a.l. mestu áhættuna af því. Það þarf að fá botn í umræðuna um aðkomu ríkissjóðs að fjármálastarfsemi. Marka þarf skýra stefnu. Bankakerfið er aftur orðið stórt hlutfallslega og bankarnir þrír í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu að mati Samkeppniseftirlitsins. Á sama tíma kallar Kauphöll eftir virkari fyrirtækjaskuldabréfamarkaði. Taka má undir það, enda augljóst að með slíkum markaði dreifist áhættan af fjármögnun fyrirtækja á fleiri aðila en bankakerfið, sem í dag er að langstærstu leyti í eigu ríkissjóðs.
Ánægjulegt er að sjá að unnið er að fjármögnun lífeyriskerfisins. Á sama tíma er mikilvægt að sjóðirnir geti og muni fjárfesta meira erlendis en verið hefur til að dreifa áhættu. Til þess að slá tvær flugur í einu höggi ætti að greiða það framlag með hluta af gjaldeyrisforðanum. Verkefnin framundan eru m.a. að marka framtíðarstefnu um það hvernig þjóðin ætlar að fjármagna uppbyggingu innviða til framtíðar og hvernig við ætlum að mæta því hvernig þjóðin er að eldast með tilheyrandi áskorunum. Teikna þarf upp skýra framtíðarsýn í ferðaþjónustu á Íslandi. Með auknum straumi ferðamanna er gengið á ýmsa innviði auk þess sem viðhaldi og framkvæmdum er á sumum stöðum ábótavant. Leita þarf skynsamlegra leiða til að ferðamenn taki þátt í þeim kostnaði sem uppbyggingu innviða fylgir. Við þurfum að vera enn betur í stakk búin til að taka vel á móti ferðamönnum.
***
Það eru undarlegir tímar í íslenskum stjórnmálum. Reyndar eru undarlegir tímar í stjórnmálum víðar. Ísland er í góðri stöðu og hér er framtíðin björt, sé rétt haldið á spilum. Það er því sérstakt að upplifa hversu erfitt virðist vera að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Á milli stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi ríkir samstaða um mörg stór mál. Við getum deilt um aðferðina við að gott betra en við erum sammála um að heilbrigðiskerfi verður að vera öllum opið og það þarf að vera öflugt. Við erum sammála um að menntun er forsenda framfara og þar viljum við bæta okkur. Við vitum líka öll að viðhald og uppbygging í samgöngumálum eru brýn verkefni. Við viljum öll að sameiginlegir sjóðir greiði fyrir öryggisnet fyrir þá sem það þurfa.
Við þurfum að skapa verðmæti til að eiga fyrir þeim verkefnum sem við viljum að hið opinbera ráðstafi fjármunum okkar í. Efnahagsmál eru nefnilega velferðarmál. Niðurgreiðsla opinberra skulda er forsenda frekari uppbyggingar til lengri tíma á Íslandi. Árið 2017 er áætlað að ríkið muni greiða um 69 milljarða í vaxtakostnað, nota mætti þá fjármuni í grunnþjónustu og lækkun skatta. Stöðugleika verður viðhaldið með öguðum ríkisfjármálum og festu í framkvæmd. Í stöðugu efnahagsumhverfi sem býr við einfaldar og fyrirsjáanlegar leikreglur virkjast kraftur fólksins í landinu. Því það er fólkið í landinu sem skapar verðmætin ekki stjórnmálamenn. Þessi verðmæti standa svo undir grundvallar lífskjörum okkar allra, menntun og velferð.
Ég lít björtum augum á komandi ár og þau verkefni sem bíða okkar Íslendinga. Stjórnmálin eru ófyrirsjáanleg – eins og lífið sjálft. Mörg verkefnin verða erfið en það sem er einhvers virði í lífinu krefst áreynslu. Við þurfum að tileinka okkur að röfla minna og greina hismið frá kjarnanum. Við þurfum að vera hreinskiptin, staðföst, jákvæð og ákveðin. Og muna að við getum verið þakklát fyrir svo margt.
Gleðilega hátíð.