Að vera tekinn með ólögleg vímuefni getur valdið mikilli streitu. Að fara á sakaskrá fyrir neysluskammt getur eyðilagt framabrautir og tækifæri ásamt því að kosta lögregluna og lagakerfið mikinn tíma og pening, allt fyrir mjög óskýrt takmark. Ofan á það bætist við sá vandi að lögum er ekki fylgt eftir á sama hátt í mismunandi menningarheimum og oft eru skekkjur innan sama samfélags tengt efnahag og kynþætti þeirra sem eru teknir. Meira að segja er stundum mismunandi refsing fyrir mismunandi útgáfur af sama vímuefninu. Sem dæmi má nefna að í Bandaríkjunum er refsing fyrir vörslu á krakk kókaíni 18 sinnum hærri en fyrir venjulegt kókaín, þetta er EFTIR breytingar sem voru gerðar árið 2010 sem áttu að jafna þetta út, því áður voru refsingarnar um 100 sinnum hærri fyrir krakk. Mismikið er lagt upp úr því að finna fólk með vímuefni á sér, sum lönd eru hrifnari af “tilviljanakenndum” vímuefnaprófunum og leitarhundum en önnur lönd. Þar að auki er refsing fyrir vörslu neysluskammta mismunandi, það getur verið viðvörun, sekt, sakaskrá, fangelsisvist eða vera skotinn á götunni eins og hefur tíðkast upp á síðkastið í Filipseyjum. Með svona mikla dreifingu á aðferðum, er merkilegt að ekki skuli vera til meira af gögnum um hvað er líkt og ólíkt milli aðferða mismunandi landa. Hvaða lönd nota hunda eða tilviljanakenndar vímuefnaprófanir, hversu oft er fólk sem notar vímuefni stoppað og leitað á þeim. Þetta er eitthvað sem GDS2017 ætlar að leggja áherslu á.
Í samvinnu við Dr Caitlin Hughes, afbrotafræðing og vímuefnalöggjafasérfræðing í Háskólanum í New South Wales, Ástralíu, ætlum við að gera fyrstu þversniðsathugunar (e. cross-sectional) rannsóknina með innsæi í tíðni afskipta lögreglu á notkun ólöglegra vímuefna um allan heim, hver áherslan er og hversu alvarlegar aðferðir eru notaðar ásamt því að skoða hvaða breytur spá fyrir um háa tíðni afskipta lögreglu af fólki sem notar vímuefni eftir t.d. aldri, kyni og kynþætti.
Aðaláhersla verður lögð á það hvort fólk hafi lent í lögreglu með leitarhundum síðasta árið (í hvaða aðstæðum sem er), hvort það hafi verið stoppað og leitað á þeim og hvort það hafi verið handtekið fyrir vímuefnatengd brot. Einnig verður skoðað hverjir hafa fengið viðvörun eða ábendingu um hvar má leita hjálpar í stað refsingar.
Að skilja hvernig vímuefnalög eru notuð um allan heim, á tímum mikilla breytinga í löggjöf og tækni getur verið mikilvægt til að hjálpa stjórnvöldum að skoða aðrar aðferðir og greina hvaða leiðir eru sanngjarnastar og mannlegastar. Fyrir lögum ættu allir að vera jafnir. En við vitum að áhrif laga eru ekki þau sömu á alla og daglega upplifa þúsundir manns lögin á annan hátt.
Þannig ef þú hefur verið stoppaður af hundi eða lent í leit af hendi lögreglu og hugsað “lenda allir í þessu?” eða “hefði þetta gerst ef ég byggi í öðru landi?” skaltu taka nokkrar mínútur og deila þinni reynslu á Global Drug Survey svo við getum skoðað hvernig lögregla, yfir allan heim, kýs að takast á við vímuefnanotendur.
Þýðing: Baldur Jón Gústafsson, Fulltrúi Global Drug Survey á Íslandi.