Í ljós kom í upplýsingum frá lögfræðifyrirtækinu Monseca – sem er aðeins eitt af mörgum fyrirtækjum, sem aðstoða fólk við að koma fjármunum sínum undan skatteftirliti – að það hafði veitt 600 Íslendingum slíka fyrirgreiðslu. Samtals fjárhæðir, sem þannig voru vistaðar utan skatteftirlits, nema mörgum þúsundum milljóna króna samkvæmt úttekt á vegum Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, sem birt hefur verið eftir langa bið. Það veldur því, að íslenska velferðarkerfið saknar árlega milli 6 þúsund og 9 þúsund milljónum króna, sem þessir eigendur í skattaskjólum hefðu ella greitt til heilbrigðis-, mennta-, löggæslu- og samgöngumála á Íslandi á hverju einasta ári samkvæmt úttekt á vegum þessa sama Bjarna. Sum sé eitt stykki nýr Landspítali frá hruni.
9 þúsund Danir
600 Íslendingar vistaðir með fé á Tortóla samkvæmt upplýsingum frá einum milligönguaðila. Það samsvarar því, að uppskátt hefði verið um 9 þúsund Dani í skattaskjólum fyrir milligöngu þessa eina aðila. Hversu margir fyrir milligöngu allra hinna? Þetta hefði verið frétt ekki ársins – heldur áratugarins í Danmörku. Og meðal þessara 600 eru forystumenn í íslenskri stjórnskipan og íslensku atvinnulífi – auk ósköp venjulegra Íslendinga sem ákváðu að taka þátt í íslenska þjóðarsportinu: Að komast undan skattmanni. Sleppa við að þurfa að bera byrðarnar með öllum hinum. Bara njóta. Eða eins og sagt er á Íslandi: „Duglegir að bjarga sér!“
Færum þeim þakkir
Fólk, sem ekki hefur gert meira en millilent á íslenskri grundu, er gjarna sæmt heitinu „Íslandsvinir“. Mikið hafa félög skráð á Tortólu sýnt landanum mikla vinsemd. Að minnsta kosti 600 manna hópi! Og öllu þessu forystufólki! Sjálfum þjóðarsómanum! Nú vill svo til, að við hjónin munum á næstunni koma við á þessari „Íslandsvinaeyju“ – að vísu skamma stund. Við erum að sjálfsögðu reiðubúin til þess að færa þessum vinum Íslands ekki bara kveðjur og þakklæti frá íslenskum stjórnvöldum – forsætisráðherrum sem og öðrum ráðherrum. – heldur líka frá fjármálageiranum og síðast en ekki síst frá þjóðinni sjálfri. Væri ekki tilvalið að við afhentum þeim íslenska þjóðfánann í vináttuskyni sem og eitthvað af lambakjötinu, sem þjóðin hefur ekki efni á að éta og þarf því að gefa útlendingum. Orðuveitingar verða að bíða þar til – og ef – forseti vor stígur á þessa vináttugrund.
Allt – nema lambakjötið.
Við hjónin erum að sjálfsögðu reiðubúin til þess að veita viðtöku hér á heimili okkar íslenska fánanum sem og þakkarávarpi ráðherra, fjármálageirans og þjóðarinnar og koma til skila. Biðjumst hins vegar undan því að taka við lambakjötinu. Vísum þar heldur á tengdaföður fjármálaráðherrans, hann Baldvin, sem hvort eð er mun þurfa að ráðstafa 100 milljónum króna af íslensku skattfé til þess að forðast að Íslendingar þurfi sjálfir að éta lambakjötið. Hversu miklu betur er því nú ekki líka komið á Tortólu? Og vel á minnst. Eigum við ekki líka svona í vináttuskyni að færa þeim brúnegg með? Baldvin gæti líka séð um það. Vanir maðurinn – þaulvanur.
Reynumst nú raungóðir.
Góðir Íslendingar – forystumenn og þeirra samferðamenn. Reynumst nú raungóðir „Íslandsvinum“!