Þegar ég mætti, á fyrstu dögum minnar þingmennsku, í hús Alþingis urðu margir til þess að óska mér til hamingju með þingsætið, þeirra á meðal Bjarni Benediktsson. Við höfum ávallt heilsast, sjáandi hvor annan, en aldrei ræðst við svo heitið getur. Ég hef eflaust gagnrýnt hann nokkrum sinnum í margvíslegum stjórnmálaskrifum undanfarinna ára. Meðal annars, minnir mig, fyrir að upplýsa ekki fyrir fram um þau aflandsfélagatengsl sem hann hefur ekki þurft að gjalda fyrir. Ég tek fram að ég get ekki greint hvernig það hefði verið með sem réttlátustum hætti, í stóru eða smáu, og veit vel að kjósendur Sjálfstæðisflokksins höfðu ekkert sérstakt að athuga við þau né skýringar Bjarna á þeim og sínum hreina skildi í þeim efnum. Gott og vel, þannig eru stjórnmál hér á eynni.
Þegar á þing er komið verður að slíðra ýmis bitlaus eða beitt sverð og huga að öllum útgáfum stjórnarmyndunar samkvæmt þingbundna lýðræðinu sem við höfum kosið okkur og hefðir hafa jafnvel orðið til um. Þar þarf töluvert traust að myndast (fyrir utan málefnasamstöðu og málamiðlanir). Ég hugsaði sem svo að ef til vill þyrftum við Bjarni að standa nær hvor öðrum en áður og jafnvel víla og díla, með samherjum hans, um málefni, hvert svo sem það myndi leiða. Þannig eru stjórnmál hér á eynni. Traust til hans hugleiddi ég aldrei djúpt vegna þess að snerting Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins fór ekki fram úr samtölum formanna. Alltént gaf ég honum sjens vel yfir meðallag, á meðan ekki reyndi frekar á traustið. Það finnst mér eðlilegt og á jákvæðum nótum.
Umbeðin og umdeild skýrsla, eins konar líkinda- eða stærðargráðuútreikningur á alvarleika aflandsgræðginnar og skattsvika, var pöntuð til þess að auðga umræðuna um þessi málefni. Það segir Bjarni Benediktsson sjálfur í viðtal við RÚV. Hún var og er ekki lokuð skýrsla. Hún átti ekki að ganga fyrst til þingnefndar sem fjallaði um hana áður en almenningur fengi að sjá hana; einmitt pólitísku og efnahagslegu umræðunnar vegna. Auðvitað átti hún að lenda samtímis í höndum alls Alþingis sem okkar allra utan þess. Þar eru engin mannanöfn, engar viðkvæmar upplýsingar, engar sundurliðanir með heitum aflandsfélaga; hvergi leyndarmál að því ég best veit. Þess vegna er engin leið til að afsaka þá gjörð ráðherrans að kynna sér ekki efnið fyrr en 5. okt. eða leggja skýrsluna ekki fram þegar eftir 13. september (og einkakynningu fyrir hann sem næst þeim degi). Fyrirsláttur um vöntun á yfirlestri og umræðum í efnahags- og viðskiptanefnd gengur heldur ekki upp. Margir fundir voru um mánaðarskeið í síðustu nefnd og ný nefnd hefur starfað vikum saman. Hins vegar má leggja fram afsökunarbeiðni fyrir að hafa sagt ósatt um einhvern viðburð á tímalínunni og fá hana tekna til greina svo langt sem orðalag hennar um ónákvæmni leyfir. Hitt er jafn ljóst að ósannsögli og dráttur á að opinbera skýrsluna benda til ásetnings um að leyna plagginu fram yfir kosningar, jafnvel fram yfir myndun ríkisstjórnar. Hefði þessi fjölmiðill hér ekki auglýst eftir því og svo aðrir fjölmiðlar og einstaklingar, væri hún kannski enn óséð utan ráðuneytis, með hvíttuðu kápuna.
Mér þykir það leitt en ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að Bjarni Benediktsson hafi brugðist trausti mínu meðan ég stundaði framboðsvinnuna í október. Þá hefði ég viljað hafa lesið skýrsluna. Hann hefur brugðist trausti mínu eftir að ég tók sæti á þinginu og ræddi til dæmis fjárlög, skattheimtu og efnahagslegar forsendur til umbóta í heilbrigðis-, mennta-, velferðar- og samgöngumálum. Fjöldi svikinna milljarða skiptir þar máli. Loks hefur hann brugðist trausti mínu á að aukið gegnsæi hefði nú betra gengi en áður á öllum sviðum þingsins og í samfélaginu, líkt og við flest sækjumst eftir, og minnst er á í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar.
Umboðsmaður Alþingis kannar á næstunni, fyrir tilstuðlan Svandísar Svavarsdóttur (VG), hvernig meðferð skýrslunnar rímar við siðareglur ráðherra. Hver sem niðurstaða hans verður, er rétt að vona að lærdómur af vegferð plaggsins kenni okkur betri vinnubrögð.
Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi.