Íslendingar og aðrir íbúar vestursins standa frammi fyrir óvissari framtíð en margan hefði grunað á fæðingardaginn minn. Helstu hnattrænu vandamál þeirra gömlu góðu tíma (1993) voru temmilega fjarstæðukennd. Menn gátu aðallega valið á milli kjarnorkustyrjaldar eða einhverskonar farsóttar. Stuttu seinna læddist þó svolítið inn í samfélagsvitundina sem vísindamenn höfðu vitað af lengi: Loftslagsbreytingar. Í loftslagsmálum hef ég velkst síðan í menntó, líkast til af einskærri forvitni, frekar en einhverjum sérlegum áhyggjum eða væntumþykju í garð plánetunnar. Eitt hefur orðið mér ljóst, að ekkert, í sögu mannsins, er sambærilegt loftslagsbreytingum af völdum mannsins. „Loftslagsbreytingar og kjarnorkuvá“, segja menn, „bara eitthvað dómadagsbull“. Tilhugsunin er fyrir mér hlægileg, að líkja þessu tvennu saman, en kannski er ég bara með skrýtinn húmor.
Enn í dag sjá margir hlutina öðruvísi en ég, og skrifa meira að segja kannski um sjónarmið sín í blöðin við góðar undirtektir. Hinir íturvöxnu fjármálamógúlar þessa góða lands hafa þó hagsmunum að gæta, og auðvitað ber að sýna því virðingu. En ekki aðeins í blöðunum hef ég fundið fyrir mótlæti við þessum veruleika sem við stöndum frammi fyrir. Í partíi núna um daginn lenti ég einmitt á tali við fjölskyldufaðir úr Vesturbænum sem þótti heldur mikið gert úr þessum dómsdagspælingum lofslagsmanna í fréttum núorðið.
Í einfeldni minni datt mér í raun ekki í hug að þróun mála yrði öðruvísi en svo: Viðurkenning manna á loftslagsbreytingum af völdum manna myndi aukast í takt við síaukin ummerki þeirra í umhverfinu. Ég hafði ekki gert ráð fyrir háþróaðri sjálfbjörgunarviðleitni mannsins. Hún snýr nefnilega á sjálfa sig! Til að bjarga huga og líkama frá óæskilegu magni neikvæðra hugsana kýs undirmeðvitundin að skipta út glataðri heimsmynd fyrir heimsmynd sem rúmar allt það góða í lífinu: Hundinn minn, bílinn minn, fyrirtækin mín og allar utanlandsferðirnar. Það er nefnilega miklu skemmtilegra að vera bjartsýnn! Þannig bjargar hugurinn sér frá neikvæðni, en dæmir ófáa til dauða, menn og dýr. Fyrir uppgötvun mína á þessu magnaða fyrirbæri hef ég enn ekki hlotið Nóbel, en ég held í vonina, með bjartsýnina að leiðarljósi. Sumum okkar þykir erfitt að lifa í heimi sem býður ekki góðan daginn á morgnana og réttir fram rjúkandi kaffið með bros á vör. En hvað er heimurinn í raun annað en tilbúningur hugans, einstakur tilbúningur hvers og eins, sem slökkva má eins og kerti. Það er dauðinn, hinn raunverulegi heimsendir. Ef heimurinn er í kollinum á manni getur maður kannski líka stuggað aðeins við honum, velt honum aðeins á hliðina, til hægri eða vinstri. En hvað taka menn til ráða þegar skúraskýi bregður fyrir, loftslagsbreytingar, og það vill einfaldlega ekki víkja. Umræðan tekur ekki enda, og framtíðin verður sífellt myrkari. Þá má kannski bara blása skýinu burtu eins og Kári vinur okkar gerir á tíðum. Við erum nefnilega guðir í okkar persónulega heimi. Þrumuský loftslagsbreytinga fýkur burt á byr sjálfsblekkingar og sólin skín á ný í Ólalandi og ég get keypt mér eins marga jeppa og mér sýnist.
Mér ber að hirða um eigin geðheilsu, ekki vil ég missa vitið. En hvað þá með allar þessar óþægilegu staðreyndir? Sumir eru svo heppnir að geta horft á þær upp engjast í öllum sínum dýrðlegu óþægindum með köldum áhuga barns sem skoðar rotnandi máf á ströndinni. En öðrum býður við og líta burt. Bara að eitthvað tæki afstöðu fyrir mann, ábyrgt foreldri sem þekkir syndir heimsins svo að maður þurfir þess ekki sjálfur. Þannig er hlutunum háttað í Kína, þar sem að ríkisstjórnin þarf ekki að hafa áhyggjur af því að hljóta endurkjör á fjögurra ára fresti. Það gerir henni kleift að líta mun lengra fram, sextíu ár eru viðmið þar í bæ. Landsstjórar eystra kosta til gríðarlegum fjármunum til að færa til betri vegar iðnað landsins, og auka þannig eilítið velmegun framtíðarþegna Kína. Þrátt fyrir að ágóðinn sé vart í augsýn þegar bæturnar eru kostaðar. Ótrúlegar aðgerðir þar í landi til að sporna við útblæstri koltvísýrings eiga sér ekki fordæmi. Í beinni þverstöðu við vöggu nútímalíðræðisins í vestri sem kýs kapítal yfir framtíð kynslóðanna, með Andrés Ormstungu í forystu. Í Kína er það ekki á ábyrgð einstaklingsins að sporna við loftslagsbreytingum, heldur er það samfélagið í heild sem axlar ábyrgðina saman. Mér líkar ágætlega það frelsi sem ég nýt hér í borg óttans. En prik skal Kína fá fyrir að gera það sem enginn annar gat. Þar þyrfti ég ekki að hirða eins um skúraskýin í Ólalandi, því að hinn samfélagslegi raunveruleiki tekur það á sig fyrir mig að setja upp hreinsibúnað á kolastrompana í rigningunni. Ég, hinn kínverski þegn, gæti einfaldlega lifað í þeirri sátt að tilheyra samfélagi sem viðurkennir loftslagsbreytingar af mannavöldum án málamiðlana.
En ég er ekki svo heppinn að búa í Kína. Marx hafði kannski nokkuð til síns máls, eða kannski er það eins að segja að stjórnarfar Kína á tuttugustu og fyrstu öldinni hafi eitthvað með þann forna rússa að gera og að þakka Marconi fyrir iPhone 7, eða þá að þakka Adam Smith fyrir lögleysu villta fjármálavestursins. Adam blessaður, sem hélt því ávalt fram að ef hinn frjálsi markaður ætti að virka, skyldu allri tileinka sér nægjusemi.