Þegar ameríski herinn fór frá landinu árið 2006 fékk Íslenska ríkið eignasafn varnarsvæðisins gefins. Byggingarnar samanstóðu ma. af á annað þúsund búðum af ýmsum stærðum í fjölbýli. Byggingar á svæðinu voru um áratuga skeið í umsjá íslenskra aðalverktaka. Viðhaldi þeirra var ekki skorið við nögl, nótan endaði hjá Uncle Sam.
Eftir brottför herliðsins tók Kadeco, þróunarfélag í eigu ríkisins við rekstri og viðhaldi eignanna. Nú er búið að selja flestallar eignir svæðisins, og íbúðarhúsnæðið komið í eigu einkarekinna leigufélaga. Samkvæmt umfjöllun í fjölmiðlum var meðalverð á fermetra 50.000 kr. eða heilar 5 miljónir fyrir þriggja til fjögurra herbergja 100 fermetra íbúð.
Samkvæmt þessu gæti tveggja herbergja 50 fermetra íbúð á svæðinu kostað kaupandann 2.5 miljónir. Ef leigan er 100.000 krónur á mánuði veltir kaupandi íbúðarverðinu á 25 mánuðum. Kaupendur eru hinir og þessir huldusjóðir með nöfn sem minna á bílnúmer. Þeir fengu aukaafslátt ef þeir keyptu krónur af seðlabankanum.
Í fjölmiðlum segja talsmenn Kadeco eignirnar ávallt hafa skilað hagnaði til ríkisins.
Af hverju seldi ríkið þá þessar eignir ? Og bjó til leiguhákarl sem hækkar leiguna um tugi prósenta með einu pennastriki?
Af hverju voru þessar eignir ekki notaðar sem stofn í opinbert / not for profit leigufélag á landsvísu. Datt engum í heila stjórnkerfinu það í hug ?
Það hefði ekki kostað ríkissjóð eina krónu, hann fékk þessar eignir gefins ? Á skammsýni Íslendinga í húsnæðismálum engin takmörk ?
Með þessari brunaútsölu og sölunni á Kletti er ríkið búið að „hákarlavæða“ Íslenskan leigumarkað í heild sinni.
Velkomin í villta vestrið.