Í undangengnum kosningum höfðu fáir stjórnmálamenn áhuga á málefnum verkafólks og verkalýðshreyfingar, líkt og áður var þegar margir foringjar verkafólks sátu á þingi og voru atkvæðamiklir í þjóðlífinu. Það er eins og vægi hreyfingarinnar í umræðunni i hafi dalað mjög líkt og verkafólk hafi enga pólitíska málsvara lengur. Samfylking er sem kunnugt er í miklum vanda og Vinstri grænir hafa nú meiri áhuga á loftslagsmálum, femínisma og náttúruvernd. Þetta leiðir til þess að verkalýðsfélög fá ekki nægilega umfjöllun og málefni þeirra með meiri losarabrag en áður var.
Á dögunum samþykkti Alþýðusambandsþing eftirfarandi tillögu:
,,Ályktun um breytingu á mælingu neysluvísitölu: 42. þing ASÍ haldið 26.-28. október 2016 skorar á stjórnvöld og Alþingi að vísitala neysluverðs til verðtryggingar skv. lögum um vexti og verðtryggingu verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar.“
Hér á árum áður voru á sveimi tillögur um að breyta mælingu verðvísitölu neysluverð með því að taka áfengi og tóbak út úr mælingunni og jafnvel datt einhverjum í hug að taka klámrit og glæpasögur út úr henni. Þessar hugmyndir komu þó aldrei til framkvæmda, ekki frekar en að breyta kílói eða metra að kröfu hagsmunaaðila. Þannig er að svonefndur „húsnæðisliður“ er reiknaður með misjöfnum hætti víðast hvar og fer nokkuð eftir því hvernig húsnæðismálum er háttað í hverju landi. Þar sem flestir eiga sitt húsnæði er eðlilegt að endurbætur og viðhald mælist með venjulegri neyslu en þar sem flestir búa í leiguhúsnæði skiptir hún litlu. Von er þó á breytingum og samræmingu í þessu efni frá ESB 2018.
Verri er þó krafa sjómanna að almenningur, annað launafólk, eigi að taka þátt í að greiða laun sjómanna í gegn um skatta með sjómannaafslætti. Sjómenn hafa þó há laun og þar að auki verulega verðtryggð með aflaverðmæti.
Eðlilegra hefði verið að verkalýðshreyfingin gerði athugasemdir við svonefnda leiðréttingu, gjafir til hinna efnameiri, sem er nú fjármögnuð með skatti á banka sem leiðir til vaxtahækkunar á allan almenning. Um það mál heyrist ekki stuna né hósti frá málsvörum verkafólks.
Höfundur er lektor.