Þann 16. janúar sl. birti Viðskiptaráð pistil með heitinu Malbiksborgin Reykjavík, þar sem m.a. var fjallað um hlutdeild Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. í samþykktum tilboðum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar á árunum 2008-2016. En Höfði er í eigu Reykjavíkurborgar og hefur verið frá upphafi.
Er því haldið fram að „eignarhald borgarinnar á Höfða sé … ósamrýmanlegt sjónarmiðum um heilbrigða samkeppni og hagkvæma opinbera þjónustu“.
Ekki eru hér gerðar athugasemdir við hlutfallstölur Viðskiptaráðs um markaðshlutdeild Höfða, enda skiptir ekki máli fyrir neðangreindar athugasemdir hverjar þær eru nákvæmlega. Það sem skiptir máli er að í tilkynningu Viðskiptaráðs eru dregnar ályktanir af þeim svo og eignarhaldinu almennt, sem standast ekki allar skoðun og því eru neðangreindar athugasemdir fram settar.
1. Hátt hlutfall Höfða í samþykktum tilboðum í verkefni hjá Reykjavíkurborg
Í pistil Viðskiptaráðs segir að hátt hlutfall Höfða í samþykktum tilboðum (73%) í verk í útboðum Reykjavíkurborgar skýrist að einhverju leyti af því af því að Reykjavíkurborg sé hér „beggja megin borðsins“ og því sé ekki „hægt að tryggja jafnræði á þessum samkeppnismarkaði“. Á öðrum stað segir að á þessum markaði sé „samkeppni lítil“ og að „sami aðili (sem) yfirgnæfir markaðinn úthlutar einnig þeim verkefnum sem mynda hann“ og „með eignarhaldi sé grafið undan frjálsri samkeppni í atvinnugreininni“, „fyrirkomulagið virðist hafa hjálpað Höfða í samkeppninni“.
Með öðrum orðum að hátt hlutfall Höfða í samþykktum tilboðum Reykjavíkurborgar skýrist að einhverju marki af óeðlilegum viðskiptaháttum borgarinnar, þvert á almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir (ÍST 30). Ekki er tilgreint með hvaða hætti það gerist. Höfði keppir um öll þessi verkefni í útboðum sem almennt eru undirbúin af verkfræðistofum. Tilboð eru síðan opnuð í viðurvist allra tilboðsgjafa. Aldrei hafa samkeppnisaðilar Höfða gert athugasemdir við framkvæmd útboða eða samþykkt tilboða.
Engin efnisleg rök eru sett fram um útboðsferlið sem gefa til kynna að allir bjóðendur hafi ekki setið við sama borð, útboðsferlið hafi ekki fylgt öllum almennum reglum (ÍST 30) og að Reykjavíkurborg hafi ekki fengið í þessum verkefnum besta mögulegt verð.
2. Lægra hlutfall Höfða í verkefnum fyrir Vegagerðina
Sem vísbendingu um að eitthvað sé óeðlilegt í viðskiptum Reykjavíkurborgar og Höfða er tilgreint í skjalinu Malbikunarborgin Reykjavík, að hlutur Höfða í samþykktum tilboðum Vegagerðarinnar á árunum 2008-2016 sé aðeins 24%, samanborið við 73% í útboðum Reykjavíkurborgar.
Þar er til að taka að þessir markaðir þ.e. Reykjavíkurborg og Vegagerðin eru ekki samanburðarhæfir í þessu samhengi, því starfssvæði Vegagerðarinnar og þar með útboð, er landið allt, en Höfði hefur aðeins starfað á suðvestur horni landsins hingað til. Höfði býður því að jafnaði ekki í verk utan þess svæðis.
Ef Viðskiptaráð vill nýta þetta atriði sem vísbendingu um að eitthvað sé óeðlilegt í viðskiptum Höfða og Reykjavíkurborgar, sem við föllumst engan veginn á, væri nauðsynlegt fyrir Viðskiptaráð að greina útboð Vegagerðarinnar betur eftir landsvæðum.
3. Á Reykjavíkurborg að eiga fyrirtæki á samkeppnismarkaði?
Ég tel að með ofangreindum athugasemdum hafi verið sýnt fram á að fullyrðingar Viðskiptaráðs um óeðlilega viðskiptahætti milli Reykjavíkurborgar og Höfða séu hæpnar eða a.m.k. þurfi Viðskiptaráð að undirbyggja þær betur.
Eftir stendur spurningin um hagsmuni Reykjavíkurborgar af því að eiga Malbikunarstöðina Höfða hf., sem er annað tveggja fyrirtækja á suðvestur horninu sem framleiða malbik. Sú spurning hlýtur ávallt að vera til umræðu og þá án hugmyndafræðilegra kreddna. Spurt sé fyrst og fremst hverjir eru hagsmunir borgarbúa, borgarinnar.
Það er rétt sem stendur í tilkynningu Viðskiptaráðs að í umræðum um mögulega sölu fyrirtækisins hefur verið tilgreind sú röksemd af hálfu eiganda, að með tilvist fyrirtækis í eigu borgarinnar væri a.m.k. tryggð samkeppni á markaði með malbik, en aðeins tvö fyrirtæki framleiða malbik hér á suðvestur horninu. Sú samkeppni er mikið hagsmunamál fyrir Reykjavíkurborg og reynslan sýnir að þegar aðeins tvö fyrirtæki keppa á markaði er meiri hætta á verðsamráði þvert á samkeppnislög en ella. Viðskipti Höfða við Reykjavíkurborg voru á árinu 2016 um 450 milljónir króna. með vsk. Er þar með talin vetrarþjónusta Höfða, sem gerir fyrirtækinu mögulegt að vera með verkefni fyrir fast starfsfólk og að hluta tækjabúnað allt árið og gerir þar með heildarreksturinn hagfelldari.
Höfundur er stjórnarformaður Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf.