Ný 34 fermetra leiguíbúð (einstaklingsíbúð) í húsinu hér til hliðar kostar 61.000 kr á mánuði. Tryggingar er ekki krafist. Fyrirframgreiðsla er einn mánuður. Leigutími er ótakmarkaður. Þetta eru ekki „félagslegar“ íbúðir. Að eðlilegum skilyrðum uppfylltum getur hver sem er búið í blokkinni.
Húsið er 15 hæðir og inniheldur 84 íbúðir. Þær stærstu eru 3ja herbergja og 79 fermetrar. Þær kosta frá 111.000 krónur á mánuði. Lengd á leigutíma er ótakmörkuð. Blokkin er hönnuð eftir búsetumunstri líðandi stundar. Hún verður tilbúin síðar á þessu ári. Sveitarfélagið á og rekur íbúðirnar. Eins og hverja aðra lífsnauðsynlega þjónustu við íbúa svæðisins.
Byggingin er birtingarmynd NFP (Not for profit) húsnæðisstefnu. NFP íbúðir eru í nágrannalöndum víða um og yfir helmingur af fjölbýlishúsnæði viðkomandi svæðis. Sögu NFP í Evrópu má rekja allt aftur að iðnbyltingu. Hugmyndafræðin bak við NFP er að mynda kjölfestu á leigumarkaði. Og öruggan valkost í húsnæðismálum almennings.
Utan stórborga Skandinavíu mynda NFP íbúðir víðast gólf og þak á leigumarkaði. Þar er framboð og eftirspurn á leiguhúsnæði að mestu í jafnvægi. NFP leigufélög eru reist með stofnstyrkjum. Sveitarfélög leggja þeim til lóðir og aðrar ívilnanir í upphafi.
Reksturinn verður með tímanum sjálfbær, og stendur undir viðhaldi og fjölgun íbúða eftir þörfum. En eins og nafnið bendir til er hagnaður ekki tekinn út úr rekstrinum.
Ágóðinn er hins vegar margþættur samfélagslegur ávinningur. Húsnæðis og leigumarkaður er í eðli sínu fákeppnismarkaður. NFP heldur húsnæðisbraski í skefjum. Og takmarkar að einkaaðilar nái hálstaki á leigumarkaði. Í krafti stærðarinnar halda opinber NFP félög eiguverði innan hóflegra marka. Á viðkomandi svæðum sér NFP almenningi fyrir grunnframboði af húsnæði á hverjum tíma. Margir byrja og enda búsetuferil sinn í þannig íbúðum.
Þumalputtareglan er að leigan sé ekki mikið yfir fjórðungi ráðstöfunartekna. Við hlið NFP þrífast engu að síður einkarekin leigufélög með stór eignasöfn. NFP myndar einnig aðhald við séreignamarkað. Sem er víðast bróðurpartur viðkomandi fasteignamarkaðar. Hvorugur valkosturinn útilokar hinn. Það sanna dæmi frá Allri Evrópu og víðar.
Annar ávinningur fylgja virkri NFP húsnæðispólítík. Félögin fjölga gjarnan íbúðum þegar byggingarmarkaður er í lægð. Þannig jafnar NFP út efnahagssveiflur á húsnæðismarkaði.
Blokkin á myndinni stendur í Kalmar á austurströnd Svíþjóðar. Þar búa um 66.000 manns, eða rúmlega helmingur af íbúafjölda Reykjavíkurborgar. Í Kalmar á og rekur sveitarfélagið upp undir 5000 NFP leiguíbúðir. Mánaðarleiga eldri íbúða er lægri en í umræddri nýbyggingu.
Ef húsnæðispólítík Reykjavíkur væri á svipuðu plani og dæmið frá Kalmar, ræki Reykjavíkurborg um það bil 10.000 NFP íbúðir. Samanburðurinn sýnir hugsanavilluna í húsnæðismálum Íslands.
Íslensk húsnæðispólítík er fullkomin andhverfa NFP. Stefnuna, (eða stefnuleysið) má yfir heildina kalla OFP (Only For Profit). Fasteignamarkaður landsins er eitt stórt OFP hlaðborð. Í boði stjórnvalda. Fyrir Banka, byggingarverktaka, fjármálafyrirtæki og aðra hagsmunaaðila. Almenningur borgar veisluborðið með ýktu fasteignaeignaverði og ónýtum leigumarkaði.
Kerfisvillan opinberaði sig í hruninu. Fjármálakerfið tók þá með sér OFP íbúðamarkaðinn í fallinu eins og samvaxinn Síamstvíbura. Eftir á var lexía hrunsins vitanlega allt of hátt séreignarhlutfall . Með öðrum orðum: Skortur á NFP húsnæðisstefnu, eftir fyrirmyndum og reynslu allt í kring um okkur.
Eftir hrunið æpir opinber þögn Verkalýðssamtaka um NFP á Íslandi . Það er eitt algengasta búsetuformið í fjölbýli Skandinavíu og meginlandi Evrópu. NFP er aldagömul aðferð sem virkar vel hjá öðrum. Af hverju ekki á íslandi ?
NFP er fullkomið Tabú í íslenskri umræðu um húsnæðismál. Þótt ótrúlegt megi virðast er íslensk húsnæðispólítík í raun óbreytt eftir hrun. Misvitrir pólítíkusar finna á fjögurra ára fresti upp ferkantað hjól í húsnæðismálum. Sem snýst um ýkta útgáfu af séreignarstefnu. Sama meðvirknismók alþýðusamtaka. Sömu egg í sömu körfu. Sama ommeletta.
Fyrir upphæð „leiðréttingarinnar“ hefði t.d. mátt byggja eins og eitt Breiðholtshverfi af NFP íbúðum. Sem sárvantar víða um land. Þannig aðgerð hefði getað komið leigumarkaði landsins á réttan kjöl.
Samkvæmt (ó)formlegri hefð hafði síðasti velferðaráðherra leigumarkaðinn sem gæluverkefni á kjörtímabilinu. Útkoman verður ef til vill nokkrir stigagangar af „félagslegum“ íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Sem verða kannski byggðar. Einhvern tímann. Á svæði sem þörfin á NFP íbúðum telur í raun tugi þúsunda íbúða.
Í íslenskri húsnæðisumræðu blandast yfirleitt saman tvö hugtök : Félagslegt húsnæði annars vegar, sem er gildishlaðið hugtak á Íslandi. Það á við húsnæði handa fólki undir vissum tekjumörkum, eða öðrum skilyrðum. Og hins vegar NFP húsnæði, sem er fyrir alla, óháð tekjumörkum. Í dag reisa nágrannalöndin ekki „félagslegt“ húsnæði. Þess þarf ekki þar sem NFP pólitík er virk. Einn kostur NFP er einmitt eðlileg félagsleg íbúablöndun.
Á hinum borðsendanum seldu sömu stjórnvöld einkareknum leigufélögum þúsundir íbúða í eigu ríkisins. Á Íslandi er NFP formúlunni snúið á hvolf. Ríkið og lífeyrissjóðirnir leiða hákarlavæðinguna á skortstöðu leigumarkaðarins. Með þegjandi samkomulagi verkalýðsforystu landsins . Fulltrúar almennings í lífeyrissjóðum fjárfesta í fyrirtækjum með hækkandi húsnæðisverð (fasteignabrask) sem viðskiptamódel.
Núorðið er íslensk húsnæðispólítík samin af almannatenglum stuttu fyrir kosningar. Glærusýningarnar eiga eitt sameiginlegt: Þær byggja allar á sömu kerfisvillu og olli hruninu. NFP er ekki til í orðabókinni.
Niðurstaðan er olía á hækkunareld fasteignaverðs. Og síhækkandi þröskuldur nýliða á íbúðamarkaði.
Stefna nýrrar ríkisstjórnar í húsnæðismálum er ekkert verri en fyrirrennara hennar. Engin stefna þarf ekki að vera verri en vond eða heimskuleg stefna. Sem er klastrað saman á auglýsingastofu. Korteri fyrir kosningar.
Íslenska séreignaformúlan (OFP) er naflastrengurinn milli fjármálafyrirtækja og alþýðu landsins. Engeyingar klippa ekki á hann.
Bankarnir þurfa sína bithaga. Hákarlavæðingin í húsnæðismálum landsins heldur áfram. Hægt og örugglega.
Eitt er þó óbreytt : Húsnæði er lífsnauðsyn. Á Íslandi er öruggt húsaskjól orðið að forréttindum.
Fyrir suma.